Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 8. desember 2009
Námskeið á Möltu um upplýsingatækni, verkefnasamvinnu og kennslu - sótt um styrk gegnum Comenius
Smart solutions bjóða í annað sinn upp á námskeið á Möltu um upplýsingatækni, verkefnasamvinnu og kennslu (ICT for collaborative, project-based teaching). Námskeiðið var haldið í fyrsta skipti í fyrra og tókst mjög vel til.
Upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu skipuleggjenda: www.smartsolutionsmalta.com.Hægt að sækja um styrk til fararinnar gegnum Comenius á Íslandi. Sótt er um á heimasíðu Comenius á Íslandi.
ATH. frestur fyrir íslenskar umsóknir er 15. janúar 2009.
Nánari upplýsingar: Ragnhildur Zoega og Þorgerður Björnsdóttir, fulltrúar Comenius hjá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB:
rz(hjá)hi.is og teva(hjá)hi.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 4. desember 2009
Nemendasamkeppni: Gerð jafningjafræðsluefnis um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga
SAFT, ungmennaráð SAFT, Heimili og skóli og Nýherji efna til samkeppni meðal grunn- og framhaldsskólanemenda um gerð jafningjafræðsluefnis sem stuðlar að jákvæðri og öruggri netnotkun.
Innsent efni má vera í formi myndbanda, kennslueininga, veggspjalda, handrita af leiknu efni, leikir o.s.frv., en miðað er við að það sé nýtilegt við jafningjafræðslu í grunnskólum landsins. Tekið er við efni bæði frá einstaklingum og bekkjum.
Efni þarf að skila inn fyrir 22. janúar 2010 en vinningshafar verða kynntir á alþjóðlega netöryggisdaginn 9. febrúar 2010. Þann dag mun SAFT standa fyrir ráðstefnu þar sem lögð verður áhersla á að brýna fyrir netnotendum að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja upplýsingar eða myndir á netið.
Dómnefnd samkeppninnar skipa fulltrúar SAFT, Heimilis og skóla, Námsgagnastofnunar, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Menntamálaráðuneytis, Kennarasambandsins, foreldraráða, ungmennaráðs SAFT og Nýherja.
Meðal vinninga má nefna IdeaPad fartölvu, Canon upptökuvél, prentara og flakkara.
Efni má senda merkt P2Pmeð tölvupósti á saft@saft.is eða í pósti á SAFT, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. nóvember 2009
Dönsk kennslumyndbönd um eTwinning
Landskrifstofa eTwinning í Danmörku hefur sett saman ljómandi kennslumyndbönd um ýmis atriði í eTwinning, m.a. hið nýja TwinSpace. Tóku ekki allir dönsku í skólanum hérna í gamladaga?
:)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. október 2009
Úrslit í landskeppni eTwinning fyrir skólaárið 2008-2009!
Verðlaunin voru veitt á haustfagnaði eTwinning á Písa, Lækjargötu, 16. október.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, veitti verðlaunin.
Verðlaun í hverjum flokki: Glæsileg JVC stafræn myndbandsupptökuvél
Flokkur framhaldsskóla:
Verzlunarskóli Íslands: Are we so different? ¿Y tú cómo vives?
Hilda Torres veitti verðlaununum viðtöku.
Flokkur grunnskóla:
Flataskóli (Garðabæ): Schoolovision
Kolbrún Svala Hjaltadóttir veitti verðlaununum viðtöku.
Flokkur leikskóla:
Bakki (Reykjavík): Through the children's eyes
Sjá einnig:
http://leikskolinn-bakki.is/index.php?option=com_content&view=category&layout=blog&id=84&Itemid=208
http://www.flickr.com/photos/bakkamyndir/
Rakel G. Magnúsdóttir veitti verðlaununum viðtöku.
Umsögn dómnefndar:
Verzlunarskóli Íslands, Hilda Torres: Are we so different? ¿Y tú cómo vives?
Viðamikið og flott verkefni og ljóst að þátttakendur hafa lagt mikla alúð og vinnu við það, bæði nemendur og kennarar. Nemendur í þátttökulöndunum tveim höfðu mismunandi markmið að hluta, íslensku nemendurnir voru fyrst og fremst að læra spænsku en þeir spænsku lærðu ensku og dálitla íslensku, áhugavert að sjá hvernig tókst að leysa þetta og vinna með mismunandi tungumál. Dæmi um skemmtilega notkun á upplýsingatækni eru hljóðupptökur á vefsvæðinu voxopop. Unnið var með þemu sem greinilega féllu að áhugasviði nemenda og hefur það eflaust aukið áhuga þeirra á náminu. Augljóslega lifandi og skemmtilegt tungumálanám sem hefur átt sér stað í þessu verkefni. Þetta var reyndar eina verkefnið frá framhaldsskóla, því miður. Verkefnið er enga að síður fyllilega fullsæmt af því að hljóta viðurkenningu.
Flataskóli (Garðabæ), Kolbrún Svala Hjaltadóttir: Schoolovision
Verkefnið er stórt evrópst verkefni þar sem taka þátt skólar úr mörgum löndum evrópu, einn úr hverju landi. Verkefnið tvinnar saman tækni og listir, tengist dægurmenningu og líkir í sumu eftir söngvakeppni Evrópulanda, Eurovision með söngkeppni þar sem úrslit ráðast gegnum kosningu þar sem rauntímatengsl eru við aðra skóla. Hvert land sendir inn upptöku á einu söngatriði á upptöku þar sem myndmál er einnig mikið notað og er gjarnan innsýn í viðkomandi skóla. Verkefnið er til þess fallið að virkja marga nemendur og auka samkennd innan skóla og tengist landafræðikennslu og veitir innsýn inn í mismunandi hefðir og menningarheima þegar nemendur skoða upptökur af dans og söngatriðum hinna þátttökulandanna.
Bakki (Reykjavík), Rakel G. Magnúsdóttir: Through the children's eyes
Þetta er spennandi og einfalt verkefni þar sem mörg börn taka þátt og eru virkir þátttakendur. Verkefnahugmynd er góð og vel útfærð. Verkefnið ýtir undir skapandi starf og sýnir hvernig börn geta skynjað heiminn og skrásett með aðstoð stafrænnar ljósmyndatækni. Verkefnið fellur vel að útikennslu og náttúruskoðun. Þetta er samvinnuverkefni nokkurra landa og börn sem tóku þátt gátu því skyggnst inn í heim barna í öðrum löndum í gegnum sjónarhorn þeirra barna, sérstaklega hvað varðar árstíðir og umhverfi. Verkefnið er gott dæmi um verkefni sem myndar samfellu milli skólastiga og verkefni sem er unnið í samstarfi við foreldra.
Önnur verkefni sem tóku þátt í keppninni:
- Leikskólinn Bakki, Rakel G. Magnúsdóttir: Our countries / Magic of Colors
- Gullborg, Paolo Di Russo og Sverrir Marinó Jónsson: Dagur Jarðarinnar
- Korpuskóli, Rósa Harðardóttir: Johnny´s seven friends
- Grunnskóli Vestmannaeyja, Eva S. Káradóttir: Climate-change-project
- Álftamýrarskóli, Sesselja Traustadóttir og Ásdís Gísladóttir: Facts and food from Wales and Iceland
Landsskrifstofan veitti gæðamerki til eftirfarandi verkefna:
- Bakki, Rakel G. Magnúsdóttir: Through the children's eyes / Our countries / The four elements / The magic of colors
- Gullborg, Paolo Di Russo & Sverrir Marinó Jónsson: Dagur Jarðarinnar / World awarenss through geography
- Flataskóli, Kolbrún Svala Hjaltadóttir: Schoolovision
- Korpuskóli, Rósa Harðardóttir, Herdís K. Brynjólfsdóttir: Johnnys seven friends
- Verzlunarskóli Íslands, Hilda Torres: Are we so different? / Y tú, cómo vives?
Um landskeppnina
Þátttakendur og gjaldgeng verkefni
- Aðstandendur þeirra verkefna sem höfðu verið virk einhverntíma á skólaárinu 2008-2009 í lengri eða skemmri tíma höfðu möguleika á að skrá verkefni til keppni.
- Verkefni sem spönnuðu fleiri skólaár gátu einnig verið með svo framalega að þau voru virk einhverntíma á síðasta skólaári.
Dómnefnd
Bloggar | Breytt 19.10.2009 kl. 09:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. október 2009
Schoolovision í fyrsta sæti á Ítalíu
Verkefnið Schoolovision sem Flataskóli í Garðabæ tók þátt í síðasta skólaár hlaut fyrsta sæti í Global Junior Challenge keppninni á Ítalíu fyrir 15 ára og yngri. Michael sem stjórnaði verkefninu frá Skotlandi tók á móti verðlaununum í sínu fínasta pússi (sjá mynd). Við erum mjög stolt af því hve verkefnið hefur skilað sér vel til margra og gefið margar afurðir af sér í hverju landi fyrir sig.
Í Flataskóla hefur nú þegar verið ákveðið að halda aftur svokallað Flatóvision á vorönn til að undirbúa þátttöku í Schoolovision 2010 og við hlökkum mikið til að takast á við verkefnið aftur með reynsluna í farteskinu.
Kolbrún Svala Hjaltadóttir, kennsluráðgjafi í Flataskóla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. september 2009
Schoolovision 2009 í úrslitum Global Junior Challenge
Flataskóli í Garðabæ tók þátt í verkefninu Schoolovision sem er eitt af þeim 109 verkefnum sem komin eru í úrslit í Global Junior Challange.
Hér er krækja á verkefnið innan GJC.
Verkefninu var stjórnað af Michael Purves í Skotlandi en Kolbrún Svala Hjaltadóttir var leiðbeinandi við verkefnið í Flataskóla sem var fulltrúi Íslands í keppninni, en aðeins einn skóli mátti taka þátt frá hverju landi.
Það tóku þrjátíu lönd þátt í verkefninu um Schooloviosion sem fór af stað á vorönn 2009. Lesa má nánar um það hér. Einnig má lesa um hvernig Flataskóli vann með verkefnið á á heimasíðu skólans. Allmörg landanna hafa einnig fengið viðurkenningu fyrir þátttökuna í heimalandi sínu (National Quality Label). Verkefnið vakti víða talsverða athygli og m.a. í fjölmiðlum þar sem viðkomandi aðilar komu í viðtöl og sögðu frá verkefninu bæði í sjónvarpi og í blöðum.
Ákveðið hefur verið að fara af stað með Scoolovision 2010 aftur eftir áramót og bætast þá sennilega nokkur lönd í viðbót við þau sem fyrir eru. Flataskóli mun áfram taka þátt í verkefninu og vera fulltrúi Íslands í þessu skemmtilega samstarfsverkefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. september 2009
1,2, Buckle my shoe í úrslitum Global Junior Challenge 2009
Verkefnið er komið í úrslit Global Junior Challenge 2009 en sjálf úrslitin verða kynnt með viðhöfn í Róm í byrjun október. Verkefnið hefur unnið til fjölda verðlauna, þeirra á meðal Evrópuverðlaun eTwinning og Landskeppni eTwinning fyrir skólaárið 2008-2009, að ógleymdum viðurkenningum í heimalöndum þátttakenda.
Íslenski skólinn í verkefninu er Furugrund í Kópavogi þar sem Fjóla Þorvaldsdóttir hefur sinnt því af stakri prýði.
Landskrifstofan óskar Furugrund og samstarfsskólum til hamingu!
Listi yfir úrslitaverkefnin er að finna hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 27. ágúst 2009
Stuttmyndagerð á Norrænni eTwinning-vinnustofu í Reykjavík!
Í dag hefur mikið gengið á í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og tölvuverinu á Háskólatorgi.
Á þriðja tug tungumála- og félagsgreinakennara allstaðar að af norðurlöndunum hafa fræðst um eTwinning, notkun stuttmynda í kennslu, og síðast en ekki síst, hafa skrifað handrit, tekið upp, og klipp eigin stuttmyndir.
Vinnustofan hófst í gær og lýkur á morgun. Kennararnir hafa einnig stofnað eTwinning-verkefni sem þeir ætla að vinna men nemendum sínum á komandi skólaári.
Þema vinnustofunnar er norræn mál og norræn menning og hvernig hægt er að gera kennsluna fjölbreyttari með notkun stuttmynda - bæði tilbúinn og eigin.
Íslensku þátttakendurnir eru níu talsins og hafa allir stofnað verkefni með norrænum kollegum. Allir hafa skemmt sér ljómandi vel! Guðmundur Landskrifstofu eTwinning
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 8. júlí 2009
Vinnustofur e-Twinning í Varsjá, Póllandi 15-17 maí 2009
Það má með sanni segja að það hafi verið gleðitíðindi þegar hringt var í okkur stöllur og okkur tilkynnt að við hefðum orðið fyrir valinu með að fara á ráðstefnu eTwinning í Varsjá í Póllandi. Við þekktumst ekkert og fengum uppgefið símanúmer hjá hvor annarri. Við spjölluðum nokkrum sinnum saman í síma og ákváðum meðal annars hvað við ætluðum að bjóða upp á í alþjóðlega hlaðborðinu sem átti að vera í upphafi ráðstefnunnar. Við hittumst því á fimmtudeginum fyrir brottför og smurðum flatbrauð með hangikjöti.
Lagt var af stað í þessa ævintýraferð í bítið næsta morgun eða um klukkan hálf fimm. Í ljós kom að örlítil seinkun yrði eða u.þ.b. 20-30 mínútur. Í fyrstu höfðum við engar áhyggjur af því, en svo fórum við að velta fyrir okkur tímanum sem við höfðum til að skipta um flugvél og eftir að hafa ráðfært okkur við flugfreyju sem þekkti vel til í Frankfurt komumst að því að líklegast væri best að taka spretthlaups aðferðina til að ná næstu vél. Sem við gerðum, við hlupum frá einni flugstöðvarbyggingunni að annarri. Við komust loks að hliðinu 10 mín áður en vélin átti að taka á loft en það var því miður of seint, rútan sem fór með farþega að flugvélinni var farin frá flugstöðinni. Við höfðum misst af flugvélinni. Þá tók við mikið þramm á milli flugstöðvarbygginganna þar sem við þurftum að fara til baka til að fá fluginu breytt þar sem Icelandair vélin hafði lent. Það tókst sem betur fer en þetta þýddi tæplega fjögra tíma seinkun á komu okkar til Varsjá.
Við misstum þar af leiðandi af upphafi ráðstefnunnar og alþjóðlega hlaðborðinu og gátum ekki leyft hinum að njóta flatbrauðsins sem við ætluðum að bjóða upp á. Við vorum komnar á Hótelið á sama tíma og kvöldverðurinn var að byrja. Þá strax kynntumst við konu frá Grikklandi sem við svo vorum i talsverðum samskiptum við allan tíman sem ráðstefnan var.
Á laugardeginum var farið i Batory High school þar sem Anne Gilleran byrjaði á að kynna eTwinning og hversu mikið það hefur þróast og stækkað á síðustu árum. Phd Jaroslaw Krajka kom svo á eftir og kynnti hvernig er best að skipuleggja eTwinning verkefni og hvað ber að hafa i huga. Að því loknu hófust vinnustofurnar sem voru fjórar talsins. Okkur var skipt niður í nokkra vinnuhópa sem skiptust á að fara í vinnustofurnar. Í þessum vinnuhópum var meðal annars farið í hvað við eigum sameiginlegt með öðrum leikskólakennurum í Evrópu og hvað sé ólíkt með starfinu. Það kom skemmtilega á óvart hvað starfið var í raun líkt þó svo að fljótt á litið hefði maður dregið þá ályktun að starfið væri ólíkara en raun bar vitni. Ólík samfélög hafa samkvæmt þessu sömu áherslur í starfinu.
Í vinnustofunum kynntu Wojciech Wasylko og Lukasz Kluszcyk vefsvæði eTwinning og hvaða möguleika það hefur upp á að bjóða og farið var yfir allt sem Twinspace býður upp á ásamt Twinblogginu. Elzbieta Gajek fór nánar í hvað er best að hafa í huga þegar farið er af stað með eTwinning verkefni, t.d. á hvaða tungumáli sé best að hafa samskipti og hvernig samskiptin eiga að vera. Hversu margir þátttakendur, hversu langan tíma á verkefnið að taka, hvaða tilgang hefur verkefnið og hvernig á að skiptast á niðurstöðum.
Einnig fengum við kynningu á nýjum tækjum og tólum sem nýtast vel í eTwinning eins og Voki www.voki.com og Dorota Janczak kenndi á Photostoryforritið . Einnig voru þátttakendur að benda á góðar síður sem nýtast vel í eTwinning eins og www.slideboom.com sem er mjög heppilegt fyrir Power Point og www.slide.com fyrir myndir. Ein vinnustofan var um sköpun í leikskólastarfi þar sem Magdalena Szpotowicz benti á mikilvægi þess að ýta undir skapandi vinnubrögð, bæði hjá kennurum og nemendum. Einnig fengum við líka tækifæri til að kynnast öðrum þátttakendum og eignast tengilið til að vinna með í framtíðinni.
Um kvöldið var farið í skoðunarferð um Varsjá sem endaði í Oldtown sem er elsti hluti Varsjá. Þessi ferð var mjög skemmtileg en hefði verið skemmtilegri ef ekki hefði rignt. Í Old town var farið út að borða á veitingastað sem heitir Fukier sem á sögu sem hægt er að rekja aftur til 16 aldar og er sagður vera frægasti veitingastaðurinn í Varsjá. Þar náðum við að kynnast enn fleiri þátttakendum þar sem við sátum við borð með Rúmenum, Pólverjum, Slóvökum og Frökkum. Einnig kynntumst við leikskólakennurum frá Svíþjóð. Eftir að komið var hótelið að hlaupið upp á herbergi til að ná síðustu mínútunum að Eurovision söngvakeppninni sem var beinni útsendingu. Þetta var langur og skemmtilegur dagur, og það voru sælar og stoltar stöllur sem lögðust til hvíldar á laugardagskvöldinu.
Eftir að hafa fengið okkur góðan morgunverð var síðasti hluti ráðstefnunnar þar sem fjórir þátttakendur sögðu okkur og sýndu frá þeirra verkefnum í eTwinning. Ewa Kurzak og Miriam Schembri kynntu eitt þessara verkefna fyrir hönd allra sem voru þáttakendur í því verkefni, en það er verkefnið 1,2 buckle my shoes, sem leikskólinn Furugrund var þátttakandi í. Öll verkefnin sem voru kynnt , eru verðlauna-verkefni. Það fyllti okkur eldmóð að sjá hvað hægt sé að gera og bjartsýni þar sem fólk var að lýsa því að fyrir ári síðan hafi það ekki kunnað neitt en núna hafi það náð þessum frábæra árangri. Við teljum að það sé full þörf á svona ráðstefnum fyrir leikskólakennara, það var gaman að heyra af því að kennarar sem hafa unnið saman i gegnum eTwinning í mörg ár voru að hittast í fyrsta sinn.
Eftir verkefnakynninguna var kynning á Smart borðum frá Smarttech, www2.smarttech.com sem er það allra nýjasta á markaðnum og þykir enn betra og heppilegra fyrir yngri börn en Smart töflurnar.
Eftir kynningarnar fengum við svo tækifæri til að spjalla við aðra þátttakendur og bjóða upp á flatkökurnar góðu sem höfðu verið í góðu yfirlæti í kæli hjá starfsmönnum hótelsins. Að sjálfsögðu vöktu þær lukku meðal þeirra sem þorðu að smakka þær.
Það var svo gaman að kynnast hinum þátttakendunum og kynnast ólíku menningarheimum þjóðanna. Okkur finnst við hafa misst af svo miklu við það að missa af upphafi ráðstefnunnar þar sem fólk hittist í fyrsta sinn og var þjappað saman með hópefli. Þegar við vorum loks komnar á áfangastað var kominn kvöldmatur og aðrir gestir sestir í sæti sem voru ætluð íslenskum þátttakendum og við þar af leiðandi á hálfgerðum hrakhólum. En við vorum svo heppnar að Anna frá Grikklandi sá auman á okkur og tók okkur að sér. Við mælum með að næst þegar farið er í svona ferð að þá hafi þátttakendur meiri tíma heldur en við höfðum til að komast á staðinn. Þegar við loks mættum eftir um það bil 14 tíma ferðalag þá vorum við einfaldlega of þreyttar og þegar við horfum aftur þá er fyrsta kvöldið í hálfgerðri þoku. Seinkunin sem var á fluginu frá Íslandi til Frankfurt var ekki mikil eða um 20-30 mín en nóg til þess að það fór svona.
Þrátt fyrir það erum við afskaplega þakklátar fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til að kynnast eTwinning og fá að vera þátttakendur á þessari ráðstefnu. Skipulag ráðstefnunnar var í flestum tilfellum til fyrirmyndar og fyrirlesararnir voru einstaklega jákvæðir og tilbúnir að svara spurningum og vera okkur innan handar. Hótelið er að sama skapi hið glæsilegasta og fór mjög vel um okkur.
Takk kærlega fyrir okkur.
Anna Vala Arnardóttir
Katrín Lilja Ævarsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. júní 2009
Schoolovision 2009!
Schoolovision 2009! sem Flataskóli tekur þátt í ásamt skólum frá 30 löndum er verkefni mánaðarins í fréttabréfi eTwinning í Evrópu. Verkefnið er stóð aðeins yfir í maímánuði og byggðist þátttakan á því að senda inn myndbönd sem hinir þátttakendurnir gátu skoðað og að lokum sameiginleg kostnin, svipuð og í Evróision, þar sem notaður var fjarfundarbúnað sem er aðgengilegur á netinu.
Í tengslum við verkefnið hélt Flataskóli sína eigin keppni Flatovision! Kennarinn sem stendur fyrir verkefninu í Flataskóla er Kolbrún Svala Hjaltadóttir - en allur skólinn tók þátt!
Ísland náði hvorki meira né minna en 4. sæti í keppninni! Sjá framlag Flataskóla hér.
Sjá framlög allra landanna ásamt upptöku af sameiginlegu "Evróvisionkosningunni" hér.
Sjá almennar upplýsingar um verkefnið hér.
Til hamingju með frábært verkefni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)