Færsluflokkur: Menntun og skóli

PDW for eTwinning Ambassadors 2018 - BELGRAD

Dagana 4. til 6. júní s.l. var haldin  vinnustofa í Belgrade í Serbíu fyrir nýja sendiherra eTwinning í Evrópu.  Á Íslandi eru starfandi nokkrir sendiherrar en tveir af þeim teljast nýir og voru þeir fulltrúar Íslands. Það voru þau Hans Rúnar Snorrason kennari í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, sendiherra á Norðurlandi og Rósa Harðardóttir skólasafnskennari í Norðlingaskóla og sendiherra á Höfuðborgarsvæðinu.20180604_110533

Flogið var út sunnudaginn 3. júni með millilendingu í Brussel. Komið var til Belgrad um miðnætti sama dag.

Þar sem að ráðstefnan byrjaði ekki fyrr en seinnipartinn á mánudeginum var frábært tækifæri til að skoða þessa sögufrægu borg sem var frekar skemmtilegt í yfir 20 stiga sumarhita.

Vinnustofan var haldin á stóru ráðstefnuhóteli Metropol Palace Hotel og flestir þátttakendur gistu þar. Þátttakendur voru 160 frá 39 löndum í Evrópu. Eftir nokkur inngangserindi m.a. frá menntamálaráðherra Serbíu var farið að hrista hópinn saman. Það var gert á fjölbreyttan hátt með ýmsum hópeflisleikjum þar sem þátttakendum var skipt í hópa og unnu skemmtileg verkefni og alltaf með eTwinning í huga. Þessum fyrsta degi lauk með sameiginlegum kvöldverði.

 

Klukkan hálf 10 á þriðjudeginum hófs dagskráin aftur með vinnustofum. Hægt var að velja um sex vinnustofur sem fjölluðu á einn eða annað hátt um það hvernig best væri að nota eTwinning á margvíslegan hátt, hvernig leiðir væru góðar til þess að fá kennara í verkefni svo eitthvað sé nefnt.  Hans Rúnar og Rósa pössuðu að velja aldrei sömu vinnustofuna þannig að þau gætu miðlað því sem þau lærðu sín  á milli.  Á þessum tveimur dögum höfðu þau kost á því að velja fjórar mismunandi vinnustofur af 16 sem í boði voru. Efnið var fjölbreytt en dæmi um vinnustofur sem þau völdu voru: Running a Face to Face eTwinning workshop, A brief guide to eTwinning Learning Events - a hands-on workshop20180604_162713

 og Twinspace and communication with partners. Það er skemmst frá því að segja að vinnustofurnar voru mjög misjafnar að gæðum en alltaf lærði maður eitthvað nýtt. Það kom fyrir að sá sem sá um vinnustofuna var með minni reynslu af eTwinning en þátttakendur og sagði þeim frá hlutum sem flestir þekktu. Aðrar voru mjög góðar og vöktu áhuga og hrifningu þeirra sem sóttu. Það sem ávallt stendur upp úr svona vinnustofum og ráðstefnum er sú tengslamyndun sem á sér stað. Þarna hittu þau Hans Rúnar og Rósa kennara sem þau höfðu hitt áður og aðra sem unnið höfðu með þeim í verkefnum en aldrei hitt. Svo má ekki gleyma þeim nýju kynnum sem stofnað var til sem eiga vonandi eftir að verða uppspretta margra skemmtilegra verkefna í framtíðinni.

Sumarkveðja

Hans Rúnar Snorrason og Rósa Harðardóttir

20180605_120224

 

 

 


Hej Danmark 2016

HillerödFerð á e-Twinningsnámskeið í Hilleröd í Danmörku  með kennurum sem kenna hælisleitendum og flóttamönnum í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi og Bretlandi.

19. maí

Hittumst í fyrsta sinn í og við flugrútuna og þekktum hvor aðra strax af þreytta kennarasvipnum sem einkennir stéttina á vorin. Klukkan ekki nema fjögur en fuglarnir byrjaðir að syngja. Sólveig Sigurðardóttir, tengiliður landsskrifstofu við e-Twinning verkefnið fylgdi okkur fjórum, Margréti Helgadóttir, Rósu B. Þorsteinsdóttir, Þórdísi Helgu Sveinsdóttir og Snæfríði Þorvaldsdóttir í gegnum ferðina.

Þegar út var komið var drifið í því að skella sér í mollið og finna út hvar HM væri staðsett. Sem betur fer var þetta lítill bær, Hilleröd, og því auvelt að fylla körfur og klára þann mikilvæga þátt sem Íslendingar þurfa að gera á erlendri grund. Klukkan fimm byrjaði svo dagskráin með kynningum, fyrirlestrum  og sameiginlegum kvöldverði  þar sem reynt var að skipta okkur sem mest upp og reynt að fá hópinn til að blandast.  Eftir matinn var svo farið í leiki saman stuðst var við það sem þeir kölluðu Joyful play í leiknum,  síðan fór meginþorrinn að sofa enda langur ferðadagur að baki.

20. maí

Dagskráin byrjaði svo aftur um morguninn klukkan 9 eftir að flestir höfðu gætt sér á ljúfengum morgunmat. Við fengum kynningu á sálfræðilegri hjálp Dana fyrir innflytjendur og þótti okkur vel að verki staðið. Síðan var okkur smalað upp í rútur og farið með okkur að skoða Rauða kross skóla þar sem hælisleitiendur eru í. Þetta var mjög fróðlegt að sjá en misjafnt hvað við fengum að sjá og helst hefðum við viljað sjá allt. Hádegismatur var borðaður inn á milli skoðunarferða og þegar við vorum búin að kynna okkur aðferðir hinna Norðurlandanna og auðvitað Bretlands þá var aftur haldið af stað í rútunni að skoða Krónborgar kastala og borða í klaustri þar rétt hjá. Maturinn var í anda klaustursins, frekar fábrotinn og einfaldur og auðvitað rabbarbaraeftirréttur. Þegar heim var komið fóru einhverjir beint í rúmið en sumir settust niður og spjölluð saman .

21. maí

Þá var komið að alvörunni. Við áttum að koma okkur í e-Twinninghópa. Það var búið að ýta því að okkur að mynda hópa í gegnum ferðirnar daginn áður en núna skyldum við skella okkur í djúpu laugina og stofna einn hóp eða svo. Við vorum ekki lengi að því, fórum í misstór verkefni, sum þeirra byrjuðu strax á meðan önnur hefjast næsta haust. Verkefnin voru misjöfn í útfærslu og fjölda meðlima en öll áttu þau það sameiginlegt að sameina kennara í að vinna saman að því að þjónusta hælisleitendur og flóttamenn. Þegar í hópinn var komið þá gátu allir farið að anda léttara og unnið frekar að verkefninu sem framundan var.

Starfsmenn landsskrifstofanna  sem voru á staðnum kynntu svo verkefni sem unnin hafa verið og sýndu okkur hvernig hægt væri að vinna með e-Twinning og twinspace svæðið.

Um kvöldið var svo sameiginlegur kvöldmatur á hótelinu sem nota bene var frábært í alla staði. Boðið var upp á smá hressingu eftir matinn sem fólk þáði yfirleitt og glatt var á hjalla fram eftir kvöldi.

22. maí

Síðasti dagurinn. Við unnum fram yfir hádegi að því að fínpússa hópa og verkefni ásamt því að fara betur yfir hvers væri krafist af okkur og svo auðvitað að meta þetta allt saman með Kahoot. Þegar búið var að snæða dásemdar hádegismat þá tókum við lestina til höfuðstaðarins til að kíkja á menningarlega staði eins og Strikið. Um kvöldið var svo haldið heim á leið og komum að nóttu til samkvæmt dönskum tíma – allar endurnærðar og tilbúnar í slaginn fyrir síðustu vikur skólaársins. Þetta var mjög dýrmæt reynsla og alveg frábært námskeið. Það var athyglisvert  að sjá að aðrir eru að glíma við sömu eða svipaða hluti og við og virðumst við vera í svipaðri stöðu og mörg þessara landa sem þarna voru.

Við þökkum fyrir okkur og hvetjum kennara til að fara á slíkt námskeið og taka þátt í samstarfsverkefni í gegnum e-Twinning prógrammið.

Kveðja,

Margrét, Rósa, Snæfríður og Þórdís.

 

 


Lítið eTwinningverkefni í Flataskóla í Garðabæ

 

Iceland_springflowergarden (5)Undanfarin tvö ár hafa Rakel og Auður tekið þátt í að vinna vorverkefni með nemendum sínum sem eru núna í 2. bekk. Þetta er lítið eTwinningverkefni sem unnið er af um 40 öðrum skólum í Evrópu. Markmið þess er að víkka sjóndeildarhring nemenda út fyrir landsteinana og kynna þeim menningu annarra landa í Evrópu og kynnast nemendum á líkum aldri. Í fyrra var búinn til vorgarður með blómum og í ár var búið til tré með vorfuglum sem komu fljúgjandi frá ýmsum Evrópulöndum. Hver skóli bjó til jafnmörg blóm/fugla og löndin voru, sem hann sendi með venjulegum pósti til þátttakenda. Þannig að hver skóli fékk um 40 mismunandi blóm/fugla til að skreyta garðinn/tréð sitt með. Blómunum/fuglunum fylgdi lýsing á skóla, landi, blómi eða fugli og þeim nemanda sem vann hlutinn.  Í fyrra var unnið með Holtasóleyjuna eða þjóðarblómið okkar og í ár var það lundinn sem er svo skemmtilegur fugl og skrautlegur og sérstakur fyrir Ísland. Við settum stórt landakort af Evrópu upp á vegg og var hvert land litað um leið og blómið/fuglinn kom frá því landi í skólann. Einnig tengdist verkefnið enskukennslu og var hvert land bæði skráð á ensku og íslensku. Verkefnið tengdist þannig inn í all margar námsgreinar eins og myndlist, íslensku, náttúrufræði, lífsleikni og ensku. Verkefnið tók um það bil tæpan mánuð í allt frá því að blómið/fuglinn var búinn til og þangað til allt var komið í garðinn/tréð. Ríkti oft mikil eftirvænting þegar pósturinn kom í skólann hvort eitthvað væri í pokahorninu hjá honum til þeirra.

Hægt er að lesa um verkefnið á vefsíðu skólans: http://flataskoli.is/skolinn/etwinning/vorfuglarnir-i-trenu/  eða hér: http://www.flataskoli.is/default.aspx?PageID=495f1b16-a9ca-11e2-a05a-0050568b0a70

 

Margar myndir og myndbönd skreyta vefsíðu verkefnisins á Twinspace svæðinu. Fuglaverkefnið er hér: http://new-twinspace.etwinning.net/web/p95545/homepage og blómaverkefnið hér: http://new-twinspace.etwinning.net/web/p100352/homepage.

 

DSC_0001


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband