Færsluflokkur: Bloggar

Mentor - Iceland 2011

Heil og sæl, eTwinnarar,

ég setti upp spjallstofu (Teachers Room) á eTwinning  - Mentor -Iceland 2011 - ætlaða íslenskum eTwinnurum sem vilja fá aðstoð. Spjallstofan er á íslensku til þess að tungumálið þvælist nú örugglega ekki fyrir. Mig langar til þess að fá sem flesta íslenska eTwinning leiðbeinendur eða Mentora inn í spjallstofuna og auðvitað alla landsbyggðarfulltrúana til þess að tryggja að ávallt sé einhver fyrir hendi sem svarar fyrirspurnum og aðstoðar. Við getum síðan bent á spjallstofuna í skólakynningunum sem stað sem hægt er að fá hjálp. Spjallstofan kemur auðvitað ekki í staðinn fyrir námskeið. Það gerist þó oft að eitthvað vefst fyrir manni, jafnvel þótt maður sé búinn að fara á námskeið og þá er gott að vita um stað þar sem hægt er að henda inn fyrirspurn og fá skjót svör. - Mér þætti líka mjög gaman ef lengra komnir eTwinnarar deildu reynslu sinni um hvað hefði gengið vel og hvað hefði "floppað" hjá þeim.

Með góðum kveðjum að austan,

Sigrún


Fyrsta kynningin

Sæl og blessuð,

Ég var að koma úr kynningarferð um Tröllaskaga þar sem ég fór í Menntaskólann og í Grunnskóla Fjallabyggðar.  Óhætt er að segja að áhugi á e-twinning er mikill þarna á skaganum.  Í menntaskólanum eru menn að leggja af stað í ýmsa vinnu tengda nýjum námsvísi og e-twinning er tvímælalaust verkfæri sem hentar í þá vinnu.  Ný kennsluaðferð og ný nálgun á viðfangsefni.

Í grunnskóla Fjallabyggðar kom ég inn á kennarafund og voru kennarar áhugasamir enda þegar í vinnu með skóla í Írlandi þar sem vantar kannski einhvern grunn til að byggja á.  E-twinnig er einmitt sá gluggi sem þeir eru að leita að.  Geta bæði unnið verkefnið sem er afar áhugavert í e-twinning og auk þess bætt við skólum víðs vegar að til að teygja anga sína víðar.

Ég vona að kynningin leiði til þess að kennarar prófi sig áfram og komist að því að þetta er ekki meiri vinna en þeir hafa lagt á sig hingað til, heldur aðeins öðruvísi.

 Ef vilji er fyrir hendi mun ég bruna aftur á skagann og vera með verklega kennslu í framhaldinu..

þar til síðar..

 Bibbi


Netnámskeið á sænsku

Námskeiðið fjallar um margmiðlun og kennslu. Tilvalið fyrir kennara í norrænum málum.

Þátttakendur þurfa að vera skráðir í eTwinning -- ef þú ert ekki skráð/ur fer skráning fram á etwinning.net

Sjá nánar í þessari auglýsingu frá sænsku landskrifstofunni:

Auglýsing (.pdf, 1224k)

 


eTwinning netnámskeið

Heil og sæl, íslenskir eTwinnararGrin

Fyrir nokkrum dögum var ég að ljúka netnámskeiði hjá eTwinning - "Learning Event" og það var hreint alveg frábært. Öll uppsetning og skipulag var til fyrirmyndar og leiðbeinendur brugðust fljótt við spurningum og athugasemdum. Auk þess tókst þeim nokkuð sem allir fjarkennarar láta sig dreyma um en tekst því miður ekki alltaf: að stofna samfélag. Ég var í vinnuhópi með kennurum frá Þýskalandi, Ítalíu, Tyrklandi og Litháen. Samstarfið gekk mjög vel og við höfðum lífleg samskipti á vinnusvæðinu okkar. Verkefnin voru einnig þannig hönnuð, að við urðum að vinna saman. Ég taldi mig nú vita talsvert um eTwinning þegar ég byrjaði á námskeiðinu, en komst að raun um að það var ýmislegt merkilegt sem ég var ekki búin að uppgötva. Ég hvet ykkur til þess að kíkja á "Learning Events" "Heima" á "Desktop-inu" ykkar og sjá hvað er í boði. Og ekki er verra að þessi námskeið eru alveg ókeypis.

Með góðum kveðjum úr blíðunni á Austurlandi frá Sigrúnu  Wink


Ambassadör... Norðurland hið Eystra

Góðan daginn,

nú er maður nýorðinn ambassadör eða sendiherra eTwinning en ekki er það samt komið í gagnið að setja upp sendiráð hér fyrir norðan þannig að maður verður að nýta eigin íbúð, bíl og síma í upphafi en þetta stendur allt til bóta og eflaust verða byggð sendiráð í hverjum landssexungi þegar fram líða stundir eins og Íslendingum einum er lagið.  Við ætlum samt að byrja smátt og hefjast handa með sendiherra og fá sendiráðin e.t.v. síðar.   -  miklu síðar..

En sendiherrastaðan hefur aðeins setið á hakanum frá fræðslufundinum vegna Comeniusarverkefnis í Ungverjalandi en starfið hefst formlega á morgun þegar ítrekunarpóstur verður sendur vítt og breitt um hið ægifagra norðurland auk þess sem fyrsti póstur fer auk þess á þá sem ekki hafa fengið áður. 

Stefnan er sett á að kynna e-twinning í upphafi nóvember á fullu gasi og hafa restina af nóvember sem tíma til að ráðleggja í gegnum upplýsingarmenntarkerfi sem hægt er að nota t.d. glæruskipti, podcast og fleira.

Ég veit að mín bíða skemmtilegir fundir með skemmtilegu fólki sem fær vonandi einhverja brennandi löngun til að æða um sléttar etwinnings og finna sér skemmtileg verkefni til að vinna að með samstarfsskólum sem brenna í skinninu að vinna með íslensku menntafólki.

Bestu kveðjur úr ógurlegri blíðu á Akureyri.. en ekki hvað..

 Bibbi, sendiherra e-twinning á Norðurlandi hinu Eystra.


Frá eTwinning fulltrúa á Suðurnesjum og á Vesturlandi

Nú er fyrsta eTwinning kynningin mín að baki. Í dag fór ég á leikskólann Holt í Reykjanesbæ og fræddi og sýndi starfsmönnum þar hversu áhugaverður vettvangur eTwinning er. Leikskólakennararnir voru mjög áhugasamir og fannst mikið til koma.

Ég kynntist eTwinning af eigin raun á síðasta skólaári þegar ég sótti eTwinning námskeið í Háskóla Íslands. Það var mjög áhugavert og stofnaði ég strax mína eigin síðu á eTwinning vefsvæðinu og byrjaði í mína fyrsta eTwinning verkefni með 10 skólum í Evrópu von bráðar. Verkefnið okkar er um matarmenningu í þátttökulöndunum og er mjög skemmtilegt.

eTwinning er ekki eingöngu samstarfsvettvangur til þess að vinna verkefni með nemendum og kennurum í Evrópu heldur er þar einnig hægt að sækja fræðslu og læra meira sem kennari. eTwinning býður upp á rafræn fjarnámskeið, spjallþræði um allt sem tengist námi og kennslu og þar er einnig að finna verkefnabanka sem allir kennarar geta bæði sótt í eða deilt eigin verkefnum með öðrum.

Kveðja,
Guðný Ester Aðalsteinsdóttir
Reykjanesbæ


Fyrsta blogg fullrúa eTwinning á Vestfjörðum

Ég er að taka mín fyrstu skref sem fulltrúi eTwinning, það er hrikalega spennandi en um leið svolítið ógnvekjandi. Ég fæ tækifæri til að kynnast fullt af fólki, ferðast og breiða út boðskapinn.
Í fyrsta sinn sem ég heyrði um eTwinning var fyrir tæpum 3 árum þegar ég fékk tölvupóst þess eðlis að það átti að bjóða tveimur kennurum að fara á eTwinning ráðstefnu til Póllands, ég sótti um af rælni og bjóst ekki við miklu. Það er óhætt að segja að ég hafi orðið mjög hissa og glöð þegar ég fékk símtal og mér tjáð að ég hefði verið valin til að fara út. Síðan þá hefur ekki verið aftur snúið, ég er gjörsamlega fallin fyrir eTwinning. Mér finnst það svo frábær leið fyrir kennara til að deila og læra af öðrum.

Nú þegar ég byrjaði að læra að verða fulltrúi þá komst ég að því að á síðu eTwinning er gagnabanki fyrir alls kyns verkefni sem kennarar geta deilt með hvor öðrum, vissuð þið það?

Kveðja frá Súgandafirði
Katrín Lilja Ævarsdóttir


eTwinning-vikur fram í desember

etw_mentor_2011_enn_minni_1115878.jpgMentorar eTwinning - Ertu byrjandi? Finndu íslenskan mentor. Ertu með reynslu af eTwinning? Hvernig væri að gerast mentor fyrir aðra sem eru að byrja?

iPod Shuffle fyrir fjóra eða fleiri kennara sem nýskrá sig eða skrá sig í verkefni

Ráðstefna og verðlaunahátíð eTwinning á Íslandi - fyrirlestrar, vinnustofur og verðlaun í landskeppni eTwinning

Nánari upplýsingar um eTwinning-vikurnar hérna


Ferðastyrkir fyrir kennara og skólastjórnendur á vinnustofur og ráðstefnur um eTwinning í nóvember nk.

Ferðastyrkir fyrir kennara og skólastjórnendur á vinnustofur og ráðstefnur um eTwinning í nóvember nk.

  • Ráðstefna fyrir skólastjórnendur frá grunn- og framhaldsskólum í Berlín 10.-12. nóvember: 3-4 styrkir í boði
  • Vinnustofa fyrir kennara í Brussel 17.-19. nóvember: 2 styrkir í boði

UMSÓKNARFRESTUR til og með 6. október nk.

Nánari upplýsingar og umsókn á þessari slóð:
http://etwinning.is/Apps/WebObjects/LME.woa/wa/dp?id=370&detail=597

Kveðja,
Guðmundur
Landskrifstofu eTwinning

Almennar leiðbeiningar um eTwinning á íslensku

Almennar leiðbeiningar um eTwinning eru nú fáanlega á íslensku, þýddar af Dögg Láru Sigurgeirsdóttur og Björgvin Ívari Guðbrandssyni, kennurum við Langholtsskóla.

Í leiðbeiningunum er farið í helstu atriði varðandi eTwinning, en einnig Comenius, fjölmenningarleg samskipti, ofl.

Leiðbeiningarnar eru aðgengilegar á þessari síðu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband