Færsluflokkur: Bloggar

Úrslit í landskeppni eTwinning - Hofsstaðaskóli og Versló

verdlaunahafar_og_gim_ljosmynd_fjola_thorvalds_1125863.jpg

Verðlaun í landskeppni eTwinning fyrir verkefni starfrækt á síðasta skólaári (2010-11) voru veitt á ráðstefnu eTwinning sem haldin var á Menntavísindasviði HÍ við Stakkahlíð á föstudaginn var.

11 skólar tóku þátt en samtals voru 15 verkefni skráð til keppni.

Sigurvegarar voru Hofsstaðaskóli, með verkefnið Give me a hug! og Verzlunarskóli Íslands með How´s life over there? Y tú ¿Cómo vives? Verðlaunin voru ekki af verri endanum - gjafabréf að andvirði 150 þúsund kr. í Tölvulistanum.

Á myndinni gefur að líta verðlaunahafana, Ragnheiði Stephense, Hofsstaðaskóla, og Hildu Torres, Versló, ásamt Guðmundur I. Markússyni, verkefnisstjóra eTwinning.

Umsögn dómnefndar um verðlaunaverkefnin:

Hofsstaðaskóli - Give me a hug!

Þetta verkefni er stórkostlegt í einfaldleika sínum. Bangsinn Columbus ferðast á milli landa og kynnir sér þjóð og staðhætti í hverju landi. Áhugavert er að sjá hve vel kennurunum hefur tekist að halda áhuga og virkni barnanna þrátt fyrir allan fjöldann sem stendur að verkefninu en í því taka þátt 23 skólar frá 21 landi. Verkefnið lifir góðu lífi og nemendur Hofsstaðaskóla eru þar enn virkir þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um hvernig gera má kennsluna skemmtilegri og vekja áhuga barna á landafræði, menningu og upplýsingatækni með skapandi skólastarfi.  Hér er á ferðinni gott dæmi um hvernig gera má námið spennandi á liflegan og gagnvirkan hátt. Hlutur nemenda og upplýsingatækni er umtalsverður. Kærleikurinn skín í gegn og er það ekki einmitt tilgangur eTwinning að brjóta niður hugsanlega múra á milli landa með heilbrigðum og gefandi tengslum á milli skóla og ólíkra menningarheima?

Verzlunarskóli Íslands - How´s life over there? Y tú ¿Cómo vives?

Þetta verkefni miðar að því að gera tungumálakennslu meira skapandi og áhugaverða. Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja skóla og er greinilegt að mikil vinátta hefur myndast á milli þeirra kennara sem að verkefninu koma. Nemendur læra spænsku og skila verkefnum sínum á því tungumáli. Þetta er spennandi verkefni, vel útfært og skipulagt. Verkefnið er metnaðarfullt, hlutur upplýsingatækni  og nemenda er til fyrirmyndar og greinilegt að nemendur hafa gaman af kennslu og námi. Verkefnið hefur staðið yfir frá skólaárinu 2007-2008 með nýjum nemendum ár hvert.  Aldur verkefnisins er til merkis um lífvænleikann og gjarnan mætti bjóða fleiri framhaldsskólum að taka þátt. Með því mætti auka fjölbreytni og skapa áhugaverða breidd. Verkefnið er gott dæmi um hvernig eTwinning getur auðgað nám nemenda á einfaldan og skemmtilegan hátt.


Kynning í Akurskóla

Í dag var ég með eTwinning kynningu í Akurskóla í Reykjanesbæ. Það var mjög gaman að fræða samstarfsfólk mitt um ágæti eTwinning og vonandi munu margir taka þátt í skemmtilegum eTwinning verkefnum á næstunni.

Kveðja,

Guðný Ester


Að lokinni Brusselferð

Það varð lítið úr efndum hjá okkur um meira blogg strax á öðum degi ráðstefnunnar í Brussel. Það var einfaldlega of mikið að gera. En nú erum við báðar komnar heim og næsta verkefni að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem til okkar streymdu. Í stuttu máli var þessi ráðstefna gagnleg, skemmtileg og áhugaverð. Áðurnefndur fyrirlestur Kevins McCabe frá Liverpool stendur upp úr í okkar huga sem hvetjandi og örvandi innlegg til að hugsa um og vinna úr. Annar besti þáttur ráðstefnunnar að okkar mati var að hitta og kynnast kollegum frá fjölmörgum löndum, ræða kennslufræðileg efni, viðra hugmyndir og njóta samvista. Hugmyndaflæðið var gífurlegt og hópurinn virtist almennt ná vel saman. Þetta voru 95 kennarar frá rúmlega tuttugu löndum og okkur var yfirleitt skipt í tvo hópa, kennara eldri og yngri nemenda. Hvorum hópi var svo skipt í nokkra minni hópa í verkefnavinnu. Fjölmargar hugmyndir að verkefnum fæddust í þessari vinnu og voru útfærðar að nokkru leyti en okkur þótti þó heldur mikil áhersla lögð á að stofna verkefni þar og þá. Við hefðum viljað fá meiri vinnu inni á síðunni og meiri og ítarlegri kynningu á því sem þar er í boði, helst með góðum æfingum.Við munum báðar kynna eTwinning á okkar vinnustöðum sem allra fyrst og hvetja samkennara okkar til að skoða og prófa. Inga Rósa er þegar komin af stað með verkefni, verkefni sem var reyndar komið í gang áður en ráðstefnan var haldin en þátttaka í ráðstefnunni jók kjark til að hella sér af fullum þunga af stað. Á ráðstefnunni lagði hún einnig drög að litlu verkefni í samstarfi við kollega í Búlgaríu. Fyrirhugað er að það verkefni verði keyrt í febrúar.

Þetta var sem sagt skemmtleg og gagnleg ferð og við þökkum kærlega fyrir okkur.

Inga Rósa og Íris Mjöll

Hrísey heimsótt sem og hús tekið á Mývetningum

Góðan daginn,

 

Í gær miðvikudag renndi ég á Árskógströnd og tók ferjuna út í Hrísey þar sem tekið var á móti mér með kostum og kynjum.  Ég tók 8 ára dóttur með í ferðina því að svona ævintýri lét hún ekki renna sér úr greipum.

Við komum í Hrísey rétt fyrir klukkan 14 og hófst kynning á E-twinning í kjölfarið en stúlkan fór á leikskólann þar sem vistunin er og lék hún sér þar við börnin sem voru á staðnum.

Í dag fór ég í Mývatnssveitina og var sama uppi á teningnum þar, kennarar almennt ánægðir að fá kynningu í heimahús.

Á báðum stöðum var kynningin í formi fyrirlestrar með mjög virkum kennurum sem spurðu um allt á milli himins og jarðar eftir því sem leið á kynninguna.  Í Hrísey gafst tími til að taka verklega æfingu og svo skráðum við okkur inn á svæðið og Hríseyjarskóli skráði sig í gagnagrunninn.  Við gleymdum reyndar að fá prest til að blessa skráninguna en gerum það síðar.  Á Mývatni var kynningunni þrengri tímarammi skorðaður og stukkum við yfir verklegu kennsluna en við fórum þess í stað í skráningu á svæðið.

Margar og gagnlegar spurningar vöknuðu á báðum stöðum.  Ég er ekki frá því að Hrísey og Mývatn eiga eftir að blómstra í e-twinning því að umhverfi beggja skólanna er þess eðlis að auðvelt er að búa til verkefni í líffræði og deila því með Evrópu.

Mér finnst yfir höfuð kennarar taka þessum kynningum fagnandi og er ánægt að þurfa ekki að sækja fundi og kynningar yfir langan veg.  Þessi þjónusta, sérstaklega til handa fámennari skólum, er sérstaklega ánægjuleg og gaman að fá að taka þátt í þessu átaki.  Maður verður bara að vona að kennarar láti hendur standa fram úr skálmum og skrái sig, finni eða stofni verkefni og vinni svo til verðlauna..

þangað til næst... Bibbi


Mentor - Island 2011

Heil og sæl eTwinnarar,

ég vil minna á spjallstofuna Mentor - Island 2011. Þar er hægt að fá góð ráð og aðstoð við allt sem við kemur eTwinning. Rétt í þessu var ég til dæmis af gefnu tilefni að uppfæra leiðbeiningar um það hvernig kennarar skrá nemendur sína í verkefni á eTwinning.  Til þess að fá aðgang að spjallstofunni þarf að smella á "Join Room".

Með góðum kveðjum að austan, Sigrún


eTwinning ráðstefna í Brussel 17. - 19. nóvember 2011

Fréttir frá eTwinning  ráðstefnu í Brussel 17 – 19. nóvember 2011.

Fulltrúar Íslands: Íris Mjöll Ólafsdóttir frá Menntaskólanum í Kópavogi, Inga Rósa Þórðardóttir frá Foldaskóla í Reykjavík. Þátttakendur eru 95 talsins frá 22 Evrópulöndum.

Ráðstefnan hófst með hvatningarráðu Kevins McCabe rá Liverpool þar sem hann benti kennurum á nauðsyn þess að opna heiminn fyrir nemendum. Hann líkti veröld okkar við kassa sem fram til þessa hefði verið frekar lítill og heldur lokaður. Það væri hins vegar hlutverk kennara nú á tímum að opna kassann og hjálpa nemendum að fóta sig í nýrri veröld með nýrri tækni. Á fyrsta degi ráðstefnunnar var að öðru leyti lögð mikil áhersla á að þátttakendur kynntust í gegnum hópefli og með leikjum af ýmsu tagi. Þátttakendur eru skrafhreifnir og félagslyndir og það sýndi sig ekki síst í kvöldverði þar sem margt var spjallað og skrafað. Hér eignast fólk nýja vini og skipuleggur verkefni með nemendum.

Meira á morgun, kveðjur frá Brussel,

Inga Rósa og Íris Mjöll


Góð kynning í Brekkubæjarskóla

Sæl.

Í gær fór ég til Akraness til að kynna eTwinning í Brekkubæjarskóla. Stór hópur starfsmanna eða um 45 manns hlýddu á kynninguna og sýndu mikinn áhuga. Góðar spurningar voru bornar upp sem leiddu til umræðu um ágæti eTwinning sem samstarfsvettvangs. Það er gaman að segja frá því að þegar ég kom heim frá Akranesi beið mín vinabeiðni í eTwinning frá nýjum notanda í Brekkubæjarskóla og í dag barst mér önnur þaðan. Þetta kallar maður góð viðbrögð!

Bestu kveðjur,

Guðný


Kynningar halda áfram

Góðan daginn,

 

í dag var kynningarherferðinni á Norðurlandi beint að Grenivík þar sem mér var boðið að koma á kennarafund sem ég og gerði.  Vel var tekið á móti mér og voru kennarar á Grenivík afar áhugasamir og spurðu mikið út í verkefni og fleira.  Grenivíkurskóli hefur ekki verið í e-twinning en eftir þessa kynningu sem ekki var haldin fyrir daufum eyrum kæmi mér ekki á óvart að sjá Grenivíkurskóla í gagnagrunni kerfisins.

Grenivíkurskóli er dæmigerður skóli að mínu mati fyrir e-twinning, eini skólinn í bæjarfélaginu og langt að sækja samstarfsskóla í hin ýmsu verkefni sem skólanum liggja á hjarta.  E-twinning kemur til með að stytta vegalengdir sem þarf að fara í samstarfið og vonandi verður samstarfið að sama skapi fjölbreyttara en ef nágrannaskólar taka sig saman um að vinna verkefni.

 

Ég vona að minnsta kosti að kynningin hafi skilað nógu miklu til að kennarar í skólanum kanni málið og fái mig þá e.t.v. í heimsókn aftur með verklega kennslu utan kerfis.

 

Þar til næst,

 

Bibbi


eTwinning: Leading 21st Century Schools, Berlín, 10.-12. nóvember 2011

berlin_nov_2011.jpgVið vorum fjögur frá Íslandi sem fórum á ráðstefnu um eTwinning: Leading 21st Century Schools í Berlín 10.-12. nóvember 2011. Það voru Kolfinna Jóhannesdóttir frá Menntaskóla Borgarfjarðar, Lára Stefánsdóttir Menntaskólanum á Tröllaskaga, Friðþjófur Helgi Karlsson frá Smáraskóla og  Kristrún Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Hlíðaskóla. Ráðstefnan samanstóð af fyrirlestrum, vinnustofum og pallborðsumræðum og var frábær í alla staði. 

Fyrsta daginn var lykilfyrirlesturinn haldinn af Tapio Säävälä sem er yfirmaður “School Policy”, hjá Evrópusambandinu í deild sem fjallar um menntun og menningu. Þar er áhersla lögð á samstarf milli landanna sem eiga aðild að ESB en Ísland á fulla aðild að menntahluta Evrópusambandsins í gegnum EES samninginn.

Næsti dagur byrjaði á vinnustofum og skiptum við okkur á tvær vinnustofur. Kolfinna og Kristrún fóru í vinnustofu hjá Jan Fazlagic frá Háskólanum í Poznan í Póllandi. Lára og Friðþjófur fóru á þá vinnustofu síðar enda voru vinnustofurnar endurteknar. Vinnustofan fjallaði um hlutverk stjórnenda sem leiðtoga í skólastarfi. Jan lagði áherslu á mikilvægi leiðtogans í skólastarfi. Hann bar saman eldri kenningar og nýrri hugmyndir um nálgun stjórnandans í skólastarfi.   Hann lagði áherslu á að menn horfðu á hegðun og líðan fremur en ferla.

Við fórum einnig í vinnustofu hjá Jens Bolhöfer frá Lower Saxony State stofnuninni fyrir kennaramenntun og skólaþróun. Jens talaði um samskiptanet leiðtoga í skólum. Hann sagði þessi net fjögur, pólitískt og menningarlegt, kennara í skólum, skipulag og persónulega þróun og vöxt í starfi. Hann taldi mikilvægt að kennarar hefðu hæfileika til að breytast og þróast í takt við tímann og brúa þyrfti gap milli þess sem nemendur upplifðu í skólunum og lífsins utan hans.

Annar dagurinn byrjaði á lykilfyrirlestri Anne Gilleran ráðgjafa hjá Evrópska skólanetinu. Hún stýrir kennslufræðihlutfa eTwinning verkefni en í því eru nú ríflega 14 þúsund þátttakendur. Fyrirlesturinn fjallaði um leiðina að námssamfélaginu. Hún talaði um hugmyndafræðina að baki eTwinning og hvernig við gætum notað þetta tæki til faglegrar þróunar kennara og nemenda með samskiptum og samstarfi.   Fram kom í máli hennar áhersla Evrópusambandsins á eflingu náms í Evrópu í gegnum samstarf.  Rannsóknir sýna að samstarf eflir námsárangur og skólastarf eins og kom fram í máli David Istance frá OECD síðasta daginn. Fram kom í máli þátttakenda að þeir vildu að fjármagn væri sett í eTwinning til að gera þáttakendum kleift að hittast öðru hvoru.

Vinnustofurnar þennan dag voru mjög áhugaverðar en þær fjölluðu m.a. um að opna skólastarf fyrir nærumhverfinu (Ulrike Wiedersich), samskiptanet kennara framtíðarinnar (Romina Cachia), áhrif skólastjórnenda í tengslum við nýja tækni (Patricia Wastiau), ásamt nánari útlistun Anne Gilleran á eTwinning.

Síðasti dagurinn hófst á stórkostlegum fyrirlestri David Istance sem fjallaði um rannsóknir og þróunarvinnu OECD og þeirra sýn á hvernig skólar þyrftu að þróast til að ná árangri. Hann lagði áherslu á námsárangur og árangursríkar kennsluaðferðir og taldi mikilvægt að brjóta niður skipulagið, kennari – kennarastofa – nemendur-kennslustofa, til að ná árangri í að virkja nemendur. Hann sagði samvinnu mikilvæga bæði milli kennara og nemenda, kennarar mættu ekki vera einyrkjar heldur yrðu þeir að miðla þekkingu og reynslu, spegla sig hver í öðrum. Hann taldi eTwinning eitt af þeim verkfærum sem hægt væri að nota til að ná þessum markmiðum.

Við viljum þakka fyrir það tækifæri að geta komist á þessa frábæru ráðstefnu, við lærðum mikið og margt sem varð okkur kveikja að hugmyndum. Við mynduðum góð tengsl við skólastjórnendur víða að úr Evrópu. Margir leituðu til okkar Íslendinga og lýstu yfir áhuga á samstarfi í gegnum eTwinning og Comenius. Kærar þakkir fyrir okkur.

Friðþjófur Helgi Karlsson, Smáraskóla
Kolfinna Jóhannesdóttir, Menntaskóla Borgarfjarðar
Kristrún Guðbjörg Guðmundsdóttir, Hlíðaskóla
Lára Stefánsdóttir, Menntaskólanum á Tröllaskaga

Frábær dagur á Grundarfirði

Sælir eTwinnarar.

Í dag var ég á Grundarfirði og kynnti þar eTwinning í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Grunnskóla Grundarfjarðar. Kynningarnar gengu vel og allir kennararnir voru mjög áhugasamir. Fólk var sammála um að eTwinning væri áhugaverður vettvangur til þess að eiga samskipti við aðra kennara í Evrópu og til þess að gera verkefni með þeim og nemendum þeirra. Endurmenntunarhluti eTwinning vakti einnig athygli sem og gagnabankinn sem þar er að finna.

Það var gaman að koma til Grundarfjarðar og fékk ég mjög góðar móttökur hjá kennurum Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Grunnskóla Grundarfjarðar.

Bestu kveðjur,

Guðný Ester


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband