Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 2. nóvember 2012
Maths and ICT
Haldið í Lissabon, Portúgal, dagana 31. maí 2. júní 2012.
Þátttakendur: Laufey Einarsdóttir og Róbert Haraldsson
Í vor fórum við á námskeiðið Maths and ICT sem var símenntunarvinnustofa á vegum eTwinning fyrir stærðfræðikennara á grunnskólastigi. Þátttakendur voru 105 talsins frá 27 Evrópulöndum, bæði byrjendur og lengra komnir í eTwinning samstarfi. Námskeiðinu var skipt í tvennt; annars vegar var kynning og kennsla á eTwinning og hins vegar fyrirlestur um stærðfræði og tölvur og vinnustofur.
Richard English kennari við menntavísindasvið Háskólans í Hull hélt inngangsfyrirlestur fyrir seinni hluta námskeiðsins og fjallaði hann um að nota tölvu- og upplýsingatækni á skapandi hátt í stærðfræði fyrir grunnskólanemendur (Use ICT Creatively in Primary Mathematics). Fimm áhugaverðar vinnustofur tengdar stærðfræði og tölvum voru í boði. Þær voru Robotics, Scratch, Stærðfræðileikir á netinu, JClic og Microsoft Tools for Primary Schools (Kodu og Mouse Mischief). Þar voru kynnt mörg áhugaverð forrit sem hægt er að nota í stærðfræðikennslu, eini gallinn fyrir okkur Íslendinga er að forritin eru á ensku. Samt forvitnilegt og spennandi.
Aðstaðan á námskeiðinu var mjög góð þrátt fyrir erfiðleika með nettengingar fyrsta daginn sem setti námskeiðshald nokkuð úr skorðum. Vinnustofurnar voru í styttra lagi, sérstaklega þar sem mikill tími fór stundum í tæknimálin. Það var samt sem áður mjög vel haldið utan um þátttakendur; farið var í eina menningarferð og var allur matur og drykkir í boði þann tíma sem námskeiðið stóð yfir.
Að okkar mati var líklega mesti ávinningurinn í þessari ferð að hitta kennara frá öðrum löndum og ræða um nám og kennslu, deila hugmyndum, segja frá náms- og kennsluháttum á Íslandi o.s.frv. Við höfum auk þess eflst við að nota stærðfræðiforrit í kennslu og erum í sambandi við kennara í öðrum Evrópulöndum. Við hlökkum til að læra með öðrum og vinna eTwinning-verkefni á næstu árum. Án efa, lærdómsrík ferð frá mörgum sjónahornum séð, ferð sem við hefðum ekki viljað missa af.Bestu kveðjur, Laufey og Róbert
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. júní 2012
Hvað gerir okkur hamingjusöm?
Komið þið sælir lesendur góðir.
Jóhann Björnsson heiti ég og kenni við Réttarholtsskóla. Ég sótti etwinning tengslafund í Reims í Frakklandi í lok maí. Ég hafði hug á því að reyna að komast í samstarf við fólk sem væri að fást við heimspeki, siðfræði, gagnrýna hugsun eða samræður í kennslustundum. Ekki var að finna fólk sem var á þessari línu þannig að það var ekki ýkja bjart útlitið til að byrja með. En þegar við fórum að ræða saman og skoða málin þá duttum við fjögur niður á spennandi verkefni sem heimspekikennari úr Réttó var afskaplega sáttur við. Verkefnið heitir á ensku: "What makes me happy?" Gengur það út á að skoða hamingjuhugtakið með nemendum í fjórum skólum í þremur löndum. Kennararnir eru enskukennarar, einn frá Finnlandi (Lapplandi) og tveir frá Frakklandi auk mín. Enskukennarnar voru meira en fúsir til að fara í svona heimspekilega vinnu enda sögðust þeir vel geta fjallað um hvað sem er á ensku. Verkefnið mun verða unnið allan næsta vetur í einum hópi við Réttarholtsskóla. Það verður ákveðið í haust hvaða hópur verður fyrir valinu. Lokamarkmið verkefnisins eftir ákveðið ferli er að nemendur komi með sína eigin skilgreiningu á hamingju og þannig getum við séð hvort hamingjuhugtakið er sambærilegt í þessum þremur löndum og fjórum skólum.
Þeir sem vilja forvitnast um framgang verksins geta sett sig í samband við mig með tölvupósti johannbjo@gmail.com. Fréttir af verkefninu verður hægt að finna í haust og næsta vetur á vefslóðinni http://heimspekismidja.wordpress.com
Jóhann Björnsson
Bloggar | Breytt 12.6.2012 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 29. maí 2012
eTwinning á "Akurfundi" í Fellaskóla
Þann 7. maí síðastliðinn var ég beðin um að vera með sambland af eTwinning kynningu og námskeiði á "Akurfundi" í Fellaskóla á Fljótsdalshéraði. Fellaskóli er framsækinn skóli með rúmlega hundrað nemendur og 18 kennara. Skólinn er staðsettur í Fellabæ, gegnt Egilsstöðum norðan Lagarfljóts. Á Héraði háttar svo til að þar eru aðeins þrjár höfuðáttir, austur, suður og norður. Þegar farið er frá Egilsstöðum yfir í Fellabæ er farið norður yfir fljót. Til baka er síðan farið austur yfir fljót til Egilsstaða. Í Fellaskóla er unnið metnaðarfullt starf undir styrkri stjórn Sverris Gestssonar skólastjóra. Hefur hann sér til fulltingis einvala lið kennara. Sérstaða Fellaskóla felst í mjög nánu samstarfi við tónlistarskólann sem hefur aðsetur sitt í skólabyggingunni. Geta nemendur farið úr hefðbundnum kennslutímum í tónlistartíma, réttar sag þá sækir tónlistarkennarinn nemendur úr kennslutíma þegar´(honum) hentar. :) Ég mætti nokkuð tímanlega á "Akurfundinn" til þess að ganga úr skugga um að allar tengingar virkuðu og gott tölvusamband væri í fundaherberginu. Þegar ég steig út úr bílnum barst taktföst rokktónlist á móti mér. Voru þar nokkrir nemendur á söngæfingu. Nokkru síðar var "hringt út" úr síðastu kennslustund dagsins. Það var auðvitað engin venjuleg bjölluhringing heldur grípandi rokkstef.
Á kennarastofunni hitti ég fyrir nokkra fyrrverandi úrvals nemendur úr ME sem hafa valið sér það hlutverk í lífinu að hjálpa yngri kynslóðum til þroska. Ég man auðvitað sérstaklega vel eftir þessum nemendum vegna þess að þeir voru allir mjög "góðir í þýsku". Enginn þeirra kennir þó tungumál heldur hafa þeir yfirleitt allir sérhæft sig í raungreinum. - "Akurfundurinn" gekk mjög vel enda var hópurinn lifandi og skemmtilegur. Ég kynnti fyrst eTwinning í hnotskurn. Síðan hjálpaði ég hópnum við innskráningu en það er nokkuð sem hefur orðið svolítið útundan hjá mér bæði í kynningum og eins á námskeiðum. Eftir að innskráningu var lokið, fórum við í gegnum hefðbundnar "Desktop" æfingar sem við gerum annars í æfingarforritinu. Þátttakendur funndu hvern annan, sendu vinarbeiðnir og "ödduðu" hver öðrum eins og krakkarninr segja, sendu tölvupóst, skoðuðu auglýsingar um samstarfsaðila og verkefnabankann.
Það hefur komið mér nokkuð á óvart í þessum skólaheimsóknum hér fyrir austan hve fáir kennarar eru skráðir á eTwinning. Og hve fáir vita yfirleitt hvað eTwinning er. Í Fellaskóla var til dæmis enginn kennari skráður á eTwinning fyrir 7. maí. Allir sem mættu á "Akurfundinn" skráðu sig og sýndu mikinn áhuga. Ég vona að þeir finni verkefni fyrir haustið sem fellur vel inn í kennsluna hjá þeim og getur lífgað upp á starfið með nemendum. Fyrir Fellaskóla væri líka tilvalið að fara í þverfaglegt verkefni sem tengdist tónlist.
Með sólskinskveðjum að austan frá Sigrúnu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 1. maí 2012
Brüsssel 19.-20. apríl 2012. Námskeið um gagnvirkar rafrænar kennslutöflur.
The future classroom Lab course. Making the most of your interactive whiteboard.
Námskeið haldið í Brüssel 19.-20. apríl 2012.
Ég heiti Ólöf Björk Bragadóttir og kenni listgreinar við Menntaskólann á Egilsstöðum auk þess að sjá um hin ýmsu námskeið fyrir ólíka hópa fólks fyrir Þekkingarnet Austurlands í listum og menningu. Ástæða fyrir skrifum mínum hér er sú að nú fyrir stuttu tók ég þátt í mjög áhugaverðu námskeiði The future classroom Lab course. Making the most of your interactive whiteboard sem var á vegum Europeean Schoolnet og Alþjóðakrifstofu HÍ.
Námskeiðið var haldið í Brüssel nú 19. 20. apríl og við þátttakendurnir vorum alls 18 talsins frá hinum ýmsu löndum Evrópu og flestir kennarar.
Auk okkar Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur sem komum héðan frá Íslandi voru; tveir fulltrúar frá Portúgal, sem bæði eru menntaðir grunnskólakennarar en vinna nú við að kenna háskólakennurum í Portúgal nýjar kennsluaðferðir, þrír Frakkar sem kenna á mismunandi skólastigum, leikskóla, grunnskóla og einn þeirra kennir bókmenntir í framhaldsskóla. Þá voru þrír kennaranna frá Póllandi og tveir frá Litháen, tveir frá Lettlandi, tveir frá Spáni og einn frá Belgíu. Tveir þátttakenda voru frá Kýpur en þeir voru aðallega að skoða nýjustu tækni í kennslumálum og í innkaupahugleiðingum fyrir skólakerfið á Kýpur.
Mig hefur lengi langað að nýta mér þær rafrænu töflur sem eru til í Menntaskólanum á Egilsstöðum þar sem ég kenni listgreinar. Ég var því ánægð með að vera valin úr hópi umsækjenda ásamt Helgu Hönnu Þorsteinsdóttu leikskólakennara í Furugrund Kópavogi til að taka þátt í þessu námskeiði og sá þarna kjörið tækifæri til þess að geta nú loksins farið að nýta þessar fínu töflur sem ég hef aðgang að. Þar sem ég hlaut menntun mína í École supérieure des Beaux Arts í Montpellier og bjó því í Frakklandi í 9 ár gat ég nú vel nýtt frönskukunnáttu mína í ferðinni en þó fór námskeiðið sjálft fram á ensku.
Móttökur voru með ágætum og kennari námskeiðsins Diana Bannister var einstaklega skipulögð og góð í sínu fagi. Hún kennir við Háskólann í Wolwerhampton í Englandi. Námskeiðið var mjög áhugavert og hnitmiðað, en farið var í helstu atriði hvað varðar notkun rafrænna kennslutaflna og mismunandi tækni og áhugaverðar aðferðir í því sambandi kynntar til sögunnar.
Við skoðuðum meðal annars hvernig hægt er að útbúa gagnvirkt kennsluefni á netinu, lærðum um notkun á ýmsum tækjum og tólum í WB(White Board) tækni, t.d. hvernig maður setur inn hina ýmsu linka, myndbönd, ljósmyndaseríur, texta, teikningar, hreyfimyndagerð og ýmislegt fleira. Einnig fengum við að kynnast nýjustu tækni í kennsluaðferðum í framtíðar kennslustofunni þar sem námskeiðið var haldið. Áhugaverður punktur á námskeiðinu var þegar við fórum að teikna upp kennslutofuna okkar og átta okkur á uppröðun, tækjum og tólum. Hvað fannst okkur vera að virka og hvernig mætti bæta aðstöðuna. Ég tel mjög mikilvægt að umhverfið sé í samræmi við þarfir nemenda og kennara og því var þetta þörf og áhugaverð umræða.
Kennslugögn voru mjög góð og nú þegar hef ég deilt þeim á sameign í mínum skóla öðrum kennurum til glöggvunar. Einnig var okkur bent á ýmsar greinar og linka sem gætu auðveldað okkur frekari þjálfun í notkun rafrænna taflna. Ef þið hafið áhuga á að kynna ykkur námsefni og annað síkt þá vil ég benda á eftirfarandi linka:
http://lreforschools.eun.org
nRich
Mimio
Diana Bannister, kennari og skipuleggjandi námskeiðsins gat jafnvel hugsað sér að koma að frekara námskeiðahaldi hér á landi í framtíðinni og þegar við Helga Hanna nefndum það við hana að það væri þörf á slíku hér á landi þá sýndi hún því mikinn áhuga. Ég hvet þá sem áhuga hafa að setja sig í samband við hana en hér að neðan eru upplýsingar um hana:
Diana Bannister MBE
Development Director for Learning Technologies
School for Education Futures
University of Wolverhampton
United Kingdom
DianaBannister@wlv.ac.uk
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort flestir eða allir skólar séu nú þegar farnir að nota rafrænar kennslutöflur og því væri gaman að heyra frá ykkur hinum, hvernig og hvort þið notið þær og hvort við getum ekki deilt reynslusögum af því.
Að lokum við ég þakka samferðakonu minni Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur góðar samverustundir þessa fjóra áhugaverðu daga en auk námskeiðsins náðum við að skoða okkur um í borginni, smakka súkkulaðið og kíkja á markaðinn okkur til skemmtunar. Þá sáum við að sjálfsögðu Magritte í "Beaux Arts" safninu og hús hins fræga Art nouvaeux arkitekts og listamanns, Victor Horta. Það var stórkostleg upplilfun. En skemmtileg tilviljun er að nemendur mínir í listum og menningu voru einmitt að fjalla um það tímabil listasögunnar sömu vikuna. Hótelið þar sem við þátttakendur dvöldum á, Hotel Husa President Park var til fyrirmyndar svo og allur aðbúnaður þar og í kringum námskeiðið sjálft. Við Helga Hanna höfum áhuga á frekara samstarfi og mikill áhugi var á eTwinning verkefnum meðal þátttakendanna. Við ætlum einmitt öll að deila reynslusögum af notkun rafrænu taflnanna í skólunum okkar og reyna að nýta þessa frábæru tækni meira. Nú þegar er búið að búa til spjallhóp á netinu í tengslum við hópinn. Ég vil ég þakka Guðmundi Inga Markússyni, verkefnisstjóra Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins, fyrir vel skipulagða ferð og undirbúning en allt gekk upp eins og best varð á kosið. Nú er bara að hefjast handa, fara að æfa sig og nýta þessa skemmtilegu viðbót í kennslustofu framtíðarinnar.
Ólöf Björk Bragadóttir, Listgreinakennari ME obb@me.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 27. apríl 2012
PDW í Gautaborg
Evrópsk vinnustofa fyrir sjúkrahúskennara var haldin 19.-21.apríl sl. í Gautaborg. Við fórum héðan fjórir kennarar á Landspítalnum við Hringbraut og Dalbraut. Þarna voru mættir ca. 50 kennarar frá 24 Evrópulöndum. Vinnustofan var vel skipulögð, fróðleg og skemmtileg. Allur aðbúnaður til fyrirmyndar. Fyrst fór fram kynning á eTwinning í fyrirlestraformi síðan voru kennarar leiddir áfram skref fyrir skref í því hvernig hægt er að vinna með eTwinning. Mikil áhersla var lögð á það að fólk kynntist innbyrðis. Ný forrit voru kynnt, hvernig þau nýtast við kennslu og hvernig samstarfið getur farið fram í tölvum á milli landa. Uppskriftin er til staðar, það er bara að nota það sem stendur til boða. Auk eTwinning kynningarinnar var boðið upp á áhugaverða heimsókn í Agrenska sjúkrahúsið, fyrir langveik börn, og fór þar fram kynning á starfseminni. Við hittum margt skemmtilegt fólk og fundum samstarfsaðila í Finnlandi, Svíþjóð, Póllandi og Portúgal. Við heimkomu fengum við jákvæð viðbrögð frá samstarfsfólki og nemendum okkar. Við getum því mælt með þessu evrópska samstarfi.
Lilianne og Magnús
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 13. apríl 2012
eTwinning námskeið í Hallormsstaðaskóla
Um páskana hafði skólastjóri Hallormsstaðaskóla, Íris Randversdóttir samband við mig og spurði hvort ég væri til í að vera með eTwinning námskeið á starfsdegi kennara við skólann, þriðjudaginn 10. apríl. Ég lagði af stað úr Fellabænum í suddaveðri en keyri inn í þokkalegasta vorveður á Vallahálsinum þar sem oft eru veðraskil. Hallormsstaðaskóli er lítill og heimilislegur skóli. Nemendur á þessu skólaári eru samtals 52 og 11 á leikskólastigi. Hallormsstaðaskóli hefur tekið virkan þátt í Evrópusamstarfsverkefnum undanfarin ár, bæði Comeniuis og eTwinning verkefnum. Sem stendur er skólinn þátttakandi í Comenius verkefninu: Different Languages - Same Speech". Sjá:
http://differentlanguages-samespeech.blogspot.com/
Alls tóku 8 kennarar þátt í námskeiðinu, þar af einn frá Leikskólanum Skógarseli á Hallormsstað. Við notuðum æfingasvæðið - eTwinning -Training- Net - sem er alveg frábært. Þátttakendur voru mjög áhugasamir og áttu í engum vandræðum með að leysa verkefnin. Að lokum voru allir meira að segja búnir að "embedda" myndbandi af YouTube inn á TwinSpace, en þá finnst mér að menn séu orðnir svo til "fullnuma". Það er líka alltaf góð tilfinning þegar þátttakendur eru farnir að hjálpa hver öðrum. :) Markmiðið með námskeiðinu var að fá fleiri kennara við skólann til þess að taka virkan þátt í erlendu samstarfi. Miðað við áhugann, er ég viss um að það muni takast.
Að námskeiðinu loknu var mér boðið í ljúffengan hádegisverð í mötuneyti skólans þar sem margt var spjallað og spekúlerað. Þetta var í alla staði hin ánægjulegasta heimsókn í "Skóginn".
Með góðum kveðjum að austan,
Sigrún Árnadóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 19. mars 2012
Áhugaverð myndbönd af ráðstefnu 3f á föstudaginn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 10. mars 2012
eTwinning námskeið í Menntaskólanum á Egilsstöðum
Í gær, föstudaginn 9. mars, var haldið vel heppnað eTwinning námskeið í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Ég hafði ekki búist við mjög mörgum þátttakendum, sjö höfðu tilkynnt þátttöku og tveir þeirra boðuðu forföll snemma morguns þann níunda. Því þóttist ég góð, búið að uppfæra Chrom á 12 tölvur í tölvuveri skólans og búin að ljósrita 10 eintök af verkefnunum. Það kom því skemmtilega á óvart að mun fleiri mætt til leikst en höfðu skráð sig og varð meira að segja einn frá að hverfa. Ég hef sjálf ekki administrator aðgang að tölvunum í tölvuveri ME og gat því ekki uppfært Chrome á eina tölvu í viðbót án leyfis Magga tölvukarls og þúsundþjalasmiðs sem var farinn af svæðinu. Því fór sem fór. Þetta var samstarfskona mín hér við ME og get ég bætt henni það upp seinna. Þátttakendur voru flestir frá Egilsstöðum, fjórir kennarar frá grunnskólanum hér, Egilsstaðaskóla, einn frá Brúarásskóla, tveir komu alla leið frá Djúpavogi og fimm frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hópurinn var virkur og skemmtilegur. Flestir höfðu verið á eTwinning kynningu og því fórum við beint inná Desktop í æfingaforritinu. Þátttakendur fundu samstarfsaðila sinn og stofnuðu áhugaverð eTwinning verkefni. Síðan virkjuðu þau öll þau tæki og tól sem þau fundu á TwinSpace, uppfærðu myndir á Wikisíðurnar sínar með Chrom, sem er bæði fljótlegt og þægilegt, og "embedduðu" myndböndum af YouTube. Tíminn leyfði ekki að ég færi í widgets, en námskeiðið stóð frá kl. 14 - 17. Æfingarforritið virkaði allt sem skyldi og nöfnin, sem þau Guðmundur Ingi og Sigga Vala höfðu gert fyrir okkur fótgönguliðana, stóðust öll. Eftirá að hyggja finnst mér þó að 12 þátttakendur á einn leiðbeinanda sé algjört hámark. Það bjargaði málum á þessu námskeiði hve opinn og virkur hópurinn var og allilr tilbúnir að hjálpa næsta manni. Stundum hafði ég þó á tilfinningunni að sumir hefðu þurft að bíða aðeins of lengi eftir aðstoð. En þetta var voðalega gaman. Ég hafði hellt uppá kaffi og keypt kleinur og kex sem mannskapurinn gat styrkt sig á við og við og það var mikið spjallað og spekulerað.
Með góðum kveðjum að austan frá Sigrúnu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. janúar 2012
KISS - Keep it Small and Simple!
Heil og sæl eTwinnarar,
eTwinning verkefni þarf ekki að vera umfangsmikið né flókið til þess að vera gagnlegt og skemmtilegt. Ég var að ljúka pennavinaverkefni með Póllandi og Frakklandi þar sem nemendur áttu í margskonar tjáskiptum á þýsku. Verkefnið spannaði aðeins sjö vikur - sem er ein spönn í nýju kerfi hjá okkur við Menntaskólann á Egilsstöðum. Krakkarnir byrjuðu á því að kynna sig í "Profile" á TwinSpace. Þau sögðu frá sér, fjölskyldu sinni, áhugamálum og slíku - auðvitað allt á þýsku. Síðan völdu þau sér "pennavin". Krakkarnir notuðu bæði vegginn í "Profile", bloggið og póstforritið á TwinSpace til samskipta. Síðan tjáðu þau sig um viss efni í Forum. Þar hljómuðu verkefnin til dæmis: "Hvað óttastu mest?", "Hefurðu áhuga á stjórnmálum? Rökstyddu svarið", "Hefurðu gaman af tölvuleikjum?", "Hvernig eru jólin hjá þér og fjölskyldunni þinni?".
Verkefnið sem þau fengu var að komast að eins miklu og þau gætu um pennavininn á þessum stutta tíma, bæði í gegnum bréfaskriftirnar og það sem pennavinurinn skrifaði í Forum. Frásögn af pennavininum var síðan hluti af munnlegu prófi í lok áfangans. Þá voru innlegg þátttakenda einnig metin sem ritun.
Eins og gengur og gerist voru krakkarnir misjafnlega virk. Sum þeirra blómstruðu og áttu í mjög ánægjulegum samskiptum við pennavininn á meðan önnur gerðu rétt það allra nauðsynlegasta. Það sem við skipuleggjendurnir gerðum ef til vill rangt, var að við skilgreindum ekki samskiptaleiðir. Auðveldara hefði t.d. verið að meta ritunina ef allir hefðu notað vegginn í "Profile". Það var hins vegar mesta maus að þurfa að skrá sig inn sem hver og einn til þess að meta það sem þau höfðu skrifað í tölvupósti. En allt í allt var þetta verkefi vel heppnað og skemmtilegt.
Svona í lokin - Einn nemanda minna var að leiðrétta tímaritgerð á þýsku um kvikmynd sem krakkarnir mínir höfðu horft á. Hann átti í smá vandræðum með nokkrar setningar og snéri sér því til pólskrar stúlku, sem var áberandi góð í þýsku, og bað hana um að hjálpa sér. Hann skrifaði langa útskýringu á málinu á ensku. Þegar sú pólska skrifaði til baka á þýsku og sagðist því miður ekki skilja neitt í ensku, varð drengurinn svo undrandi að hann kom til mín og sagði mér frá öllu saman. - En lærdómurinn sem strákarnir í hópnum drógu af verkefninu var: "Ef þú vilt skrifast á við sætar stelpur í útlöndum, verður þú að kunna þýsku".
Með góðum kveðjum að austan frá Sigrúnu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. desember 2011
Kynningar af ráðstefnunni
Kynningar af ráðstefnu eTwinning á Menntavísindasviði HÍ á föstudaginn eru aðgengilegar hér.
Hilda Torres og nemendur hennar úr Versló:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)