Færsluflokkur: Bloggar

E-twinning vinnustofa í Portúgal 6.-9. nóvember 2014

Ferðin var ánægjuleg í alla staði. Á móti okkur tók bílstjórinn á flugvellinum og keyrði okkur ásamt tveimur frökkum, ( Caroline og Stebastian) á hótelið okkar í Guimares. Vinnustofan átti svo að hefjast daginn eftir. Setningin var skemmtileg og ég kynntist fólki víðsvegar frá Evrópu. Slóveníu, Danmörku, Noregi, þýskalandi og Frakklandi svo eitthvað sé nefnt. Á tali mínu við samkennara frá öðrum norðurlöndum var strax ákveðið að við myndum vinna saman að einhverju verkefni saman. Hvað það verður á svo eftir að koma betur í ljós en ýmsar hugmyndir eru á lofti og verður þetta spennandi. Á fimmtudagsmorgninum var svo hafist handa á vinnustofum. Fyrsta verkefnið hjá hópnum mínum var kynnt af Joao Carlos Sousa og var það alveg einstaklega fróðlegt. Hann kynnti fyrir okkur “Flipped learning” við vísindakennslu. Þar var mikið notast við I-pad í kennslu sem skólinn hafði fengið að láni frá apple fyrirtækinu. Mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu verkefni og hvernig áhugi bæði nemenda og foreldra jókst er leið á verkefnið. Hann lagði mikla áherslu á þáttöku foreldra. Hann kynnti einnig fyrir okkur forritið blendspace sem er gott tæki fyrir kennara til að undirbúa kennslu. Næsta vinnustofa fjallaði um notkun á QR kóðum  og thinglink. Alveg frábær vinnustofa þar sem Marco Neves var við stjórnvölin. Alveg einstaklega skemmtilegur fyrirlesari. Gerðum verkefni á thinglink og allur hópurinn mjög áhugasamur. Daginn eftir eða á föstudegi var deginum startað á fyrirlestri hjá Adelina Moura. Hann kallaðist “Students response for mobile age”. Hann var fínn en ekkert sem fangaði mig algerlega. Síðasta vinnustofan var svo hjá henni Claire Morvan. Hún var ofsalega skemmtileg og grunnur hennar í blaðamennsku kom ferskur og skemmtilegur inn í vinnustofuna. Hún keyrði okkur áfram og var með fróðlega punkta um hvernig á að koma sér og skólanum sínum á framfæri í fréttum. Afla sér styrkja og fleira. Um miðjan dag var svo farið í ratleik um Guimares þar sem við notuðum QR kóðana til að koma okkur um og á næsta stað. Mjög skemmtilegt og fræðandi. Þar lærðum við um sögu borgarinnar og helstu kennileiti. Að lokum kynntu svo allir hóparnir verkefnin sín. Við úrvinnsluna notuðum við QR kóðanna, thinglink, Kahoot og fleira. Alveg ofsalega skemmtilegt og fróðlegt. Margar hugmyndir kviknuðu sem ég ætla að nota mér í kennslu hjá mínum nemendum. Vinnustofan var alveg frábær og gaman að fá að taka þátt í þessu með alveg einstaklega jákvæðu og skemmtilegu fólki.10294320_971250532903929_2814681227811528151_n

 

 

Frábæri hópurinn minn á leið í ratleik um Guimares með QR kóðann að vopni :) 

 

Kveðja Þórey Friðbjarnardóttir Vestmannaeyjum 

 


etwinning vinnustofa í Tallinn

Við fórum tvö úr Grunnskólanum í Hveragerði á eTwinning vinnustofu í Tallinn 25.-27.september. Það er skemmst frá því að segja að þetta var frábær upplifun. Þema vinnustofunnar var forritun, með áherslu á það að veita nemendum innsýn í tækni nútímans og kenna þeim að forrita, búa til öpp o.s.frv. Það var sem betur fer ekki gerð krafa um að við hefðum reynslu af forritun, enda erum við nýgræðingar í þeim efnum - eins og reyndar meirihluti þátttakenda. Vinnustofurnar sem boðið var upp á voru skipulagðar þannig að „venjulegt fólk" eins og við gætum náð grunntökum á viðfangsefnunum og okkur voru síðan veitt verkfæri og leiðbeiningar til þess að prófa okkur áfram þegar heim væri komið. 

Við gátum valið um tvær mismunandi vinnustofur og völdum annarsvegar að læra að búa til öpp fyrir android tæki, með app inventor, og hinsvegar að búa til tölvuleiki með sploder. 

Báðar vinnustofurnar voru alveg frábærar, sérstaklega app inventor, en það var líka mjög gaman að því að sploder vinnustofunni stýrðu fjórar 13 ára gamlar stúlkur frá Tallinn - og gerðu það með glæsibrag.

Í Eistlandi er forritun kennd frá 1. bekk og uppúr, án þess þó að vera sérstök námsgrein. Forritun og upplýsingatækni er fléttað saman við alla kennslu í eistneskum skólum. Við verðum að viðurkenna að það kom okkur á óvart hversu framarlega Eistar virðast vera í tæknimálum. Gamli bærinn í Tallinn er síðan gullfallegur og gaman að ganga þar um og skoða.  

Allt skipulag á þessari vinnustofu var til fyrirmyndar og það var mjög skemmtilegt hversu vel tókst til að hrista hópinn saman strax á fyrsta kvöldinu. Við kynnstum mörgu skemmtilegu fólki sem við munum örugglega eiga samskipti við í gegnum etwinning í framtíðinni. 

Heimir Eyvindarson og Sigríður Sigurðardóttir 

 


Etwinnning vinnustofur í Limoges, Frakklandi

Við fórum 2 úr Rimaskóla, Guðrún Hjartardóttir og Íris Guðlaugsdóttir, til Limoges í Frakklandi.  Vinnustofan í Limoges snerist um það að koma sér upp tengslaneti við aðra kennara í Evrópu. Þarna voru kennarar frá Íslandi, Frakklandi, Spáni, Belgíu, Slóvakíu, Svíþjóð og Finnlandi. Þetta voru kennarar sem kenndu mismunandi fög á ýmsum skólastigum. Við byrjuðum að fá kynningu um e-twinning verkefnið og möguleika á nýtingu þess. Flestir þarna voru byrjendur. Hópurinn var hristur saman með leikjum og kynningu, þar sem tilgangurinn var að finna út áhugasvið og sameiginlegan flöt til að vinna með. Mikill áhugi var fyrir því að vinna með Íslandi. Það sem réði því með hverjum við ákváðum að vinna með var aldurssamsetning nemenda. Það varð því úr að við fórum í samstarf með 2 frönskum kennurum og 1 spænskum. Stór hluti af tímanum fór í að útfæra verkefni sem mun hefjast næsta haust. Verkefnið My place/your place og gengur út á það að kynnast menningu og landi samstarfsþjóðanna, auk þess að nemendur kynnist sín á milli.

Þetta var mjög gagnleg ferð fyrir okkur, bæði kynntumst við evrópskum kennurum og lærðum heilmikið um það hvernig skólakerfin eru mismunandi á milli landa.  Það var virkilega vel að þessu staðið, allur aðbúnaður og námskeiðið sjálft til fyrirmyndar, að við tölum nú ekki um matinn sem var frábær :)

Guðrún og Íris.


eTwinning fulltrúi fyrir Vestfirði

Sæl verið þið.  Ég heiti Elín Þóra Stefánsdóttir og er nýr eTwinning fulltrúi fyrir Vestfirði. Ég starfa í Grunnskóla Bolungarvíkur og hef gert það frá 1988. Ég hef tekið þátt í eTwinning um nokkura ára skeið og finnst það ómissandi til að fá fjölbreyttni í kennsluna.  Nemendurnir njóta þess líka að taka þátt og það færir þau nær heimsbyggðinni.

Kveðja að vestan Elín Þóra.

 


etwinning í Helsinki > Multilateral seminar on climate: Helsinki

Ferðin nýttist vel í alla staði en við lögðum af stað á miðvikudegi og notuðum restina af miðvikudeginum og fimmtudaginn til þess að skoða borgina. Við mælum hiklaust með að ferðalangar sem eiga erindi til Helsinki leigji sér hjól og skoði borgina. Svo er sundlaugin á Yrjonkatu algjört must! Þar gefst konum og körlum kostur á því að synda nakin með kynsystrum og bræðrum, þó á aðskildum tímum.Tilgangur ferðarinnar var að sækja námskeið sem fól meðal annars í sér að stofna til samstarfs við aðrar Evrópuþjóðir. Dagskráin var þétt og tíminn vel nýttur.

Á föstdeginum byrjaði vinnustofan með fyrirlestri um loftslagsmál, hópefli og fyrstu skrefin tekin í því að stofna til samstarfs vegna etwinning verkefna. Matur og drykkur um kvöldið á hótelinu. Laugardagurinn hófst með þremur vinnustofum sem hver og ein tók á mismunandi þætti sem nýtist okkur við úrvinnslu etwinning verkefna. Við tók svo áframhaldandi undirbúningur við mótum etwinning verkefna í samstarfi við viðkomandi hóp. Matur og drykkur á eyjunni Suomalinna um kvöldið. Sunnudagurinn fór í að leggja lokahönd á skráningu verkefna og kynningu á þeim. Einnig fengum við kynningu á Erasmus+ og umsóknarferli þess.

 

Við stofnuðum tvö verkefni í ferðinni:

Verkefnið Knitinternational ásamt skólum í Belgíu og Svíþjóð. Sjá hér: http://desktop.etwinning.net/index.cfm 

Verkefnið How climate changes affects animals and vegetation in our countries. Sjá hér: http://desktop.etwinning.net/index.cfm

 

Takk fyrir okkur Rannís!

Með bestu kveðjum, Hafdís og Hildur


Kynning í Vallarseli

Í þessari viku fór ég í leikskólann Vallarsel á Akranesi til að kynna eTwinning. Ég fékk mjög góðar móttökur á deildarstjórafundi þar og áhugi fyrir eTwinning var mikill. 

Einkunnarorð Vallarsels eru: Syngjandi glöð í leik og starfi en þar er lögð aðaláhersla á tónlistarstarf með börnunum. Það gefur án efa góðan grunn til að finna leikskóla í Evrópu sem samstarfsaðila í eTwinning verkefni.

Bestu kveðjur,

Guðný Ester eTwinning fulltrúi 

 


eTwinning Science PDW Billund, Denmark 20.-23.November 2013

 

 

Þriðjudagur 19.nóvember

Flaug til Reykjavíkur um kvöldið, gisti hjá vinafólki í Hafnarfirði

Til þess að ná Flugi til Danmerkur árla morguns daginn eftir

 

Miðvikudagur 20.nóvemer

Keflavík 6:00, Flaug til Castrup, beið þar í 3 klst og tók svo aðra flugvél til Billund

Þar tók rúta á móti þátttakendum sem voru á leið á e-twinning vinnustofu

Ice-breaking-event um kvöldið á Hotel Lego-land en formleg dagskrá hófst daginn eftir

 

Fimmtudagur 21.nóvember

Morgunmatur á hótelinu og svo formlegheit. DK-NSS &Billund settu ráðstefnuna, Svo komu Professor Chris Rogers frá Tufts University,Boston og Anne Gilleran (eTwinning CSS)

Svo vinnustofa Helle Kallehauge þar sem menn bjuggu til Lego-hluti sem nýttu sér sólarorku (Solar energy kit Education) – pakkinn úr Lego-Mindstorm línunni 

Hádegishlé – matur á hótelinu 

Svo var vinnustofa Klaus Örum um Mindstorm notkun barna sem hann kennir 

Kaffihlé 

Svo kom fyrirlestur Professors Ole Caprani um “Silly walking robots”

Næst voru allir settir í að kynna hugmyndir sínar um e-twinning samvinnu

Og næst voru menn settir í að reyna að finna félaga til að vinna með.

Ég kynntist þar dana og slóvaka og við ákváðum að fara í samstarf um "tré í umhverfinu" 

Um 18:00 var þessu lokið og þá var smá pása og svo kvöldverður í LEGOLANDi við á veitingahúsinu Knight’s Table.

 Föstudagur 22.nóvember

 Morgunmatur á hótelinu

 Kl 9:00 var farið í heimsókn í grunnskóla í Billund – Helst vakti þar athygli mín hversu opinskár nemandi (leiðsögumaður okkar hóps) var í sambandi við lesörðugleika sína og  svo gríðarlega vel útbúin LEGO-kennslustofa – þar sem þrír nemendur voru að undirbúa sig fyrir FLL-keppnina í ár. Þar gleymdi ég mér og týndi hópnum mínum en fann seinna annan kennarahóp og fylgdi honum svo var farið heim á hótel og á fyrirlestur Professors Ole Caprani  þar sem hann fékk 12 nemendur til sín og þau unnu með Lego-Mindstorm við að búa til sína eigin “Silly walking Robots”

 Hádegishlé

Eftir hádegi voru nýir félagar settir í að undirbúa hópavinnu sína – skrá á e-twinning og aðeins að því loknu gátu hópar haldið áfram (hópurinn bætti við sig einum spánverja) og fóru þá í vinnustofu um Stop-motion sem er app sem hlaða má niður, hvort heldur í iPad/iPhone eða Android. iPhone-arnir virkuðu best vegna gæða myndavélanna.

Allir hópar bjuggu til sínar kvikmyndir.

 Kaffihlé

 Vinnustofan eftir hlé snérist um FLL-keppni Lego og nemendurnir sem unnu í fyrra komu í heimsókn og sögðu frá sínu verkefni.

Kl 18:00 var hlé og kvöldamatur á hótelinu um kvöldið

 Laugardagur 23.nóvember

Morgunmatur 

9:00 Hópfélagar hittust og fóru yfir komandi verkefni og svo var fyrirlestur Andreas Bruun sem sagði frá Erasmus+ 

Kaffihlé 

Svo voru sýndar myndirnar sem hóparnir gerðu á föstudegi og verðlaun veitt fyrir bestu myndina

Þakkir, þakkir og fleiri þakkir – öllum sem komu að ráðstefnunni var svo þakkað fyrir og ráðstefnu slitið.

 Hádegismatur og svo fóru menn að týnast heim til sín

 Þar sem ekkert flug var heim eftir hádegi þurfti ég ásamt litlum hópi að vera aukanótt á hótelinu. Tíminn var nýttur til að fara til Kolding og reyna að versla eitthvað til jólanna fór svo heim á hótelið og sofnaði snemma

 Sunnudagur –

Flug frá Billund til Köben

Flug frá Castrup til Keflavíkur

Flug frá Reykjavík til Akureyrar

Kominn heim um 21:00 og sofnaði tiltölulega auðveldlega enda spennandi kennsla sem beið mín morguninn eftir – ég hefði alveg verið til í einn frídag á milliJ

 

Mjög góð ferð, danir kunna þetta alveg,

og vonandi gott samstarf við evrópubúa

(kennara frá Spáni, Slóvakíu og Danmörku framundan næstu árin

 

Jón Aðalsteinn Brynjólfsson


E-twinning vinnustofur í símenntun kennara, Bratislava 16. -18. maí 2013

E-twinning vinnustofur í símenntun kennara, Bratislava 16. -18. maí 2013


Dagbókarbrot frá Guðrúnu Þorkelsdóttur, enskukennara í Lækjarskóla, Hafnarfirði og Helgu Stefaníu Magnúsdóttur, unglingadeildarkennara í Grunnskólanum í Borgarnesi.


Miðvikudagur, 15.maí:

Við höfðum verið í tölvupóstsambandi fyrir ferðina, en hittumst loks í Hafnarfirði og urðum samferða til Keflavíkur.

Ferðin til Bratislava gekk vel. Við flugum til Osló þar sem við tók nokkurra klukkustunda bið eftir flugi til Bratislava. Við vorum svo slakar á Oslóarflugvelli að við misstum næstum því af vélinni okkar!

Við komum okkur fyrir á Hótel Saffron og röltum svo niður í gamla miðbæinn til að skoða okkur um og fá okkur að borða. Bratislava er einstök borg með magnaða sögu og frábært að fá tækifæri að kynnast henni.


Fimmtudagur 16. maí.


Hótelið sem við gistum á er 4 stjörnu hótel, en okkur fannst nú morgunverðarhlaðborðið ekkert sérstakt.

Vinnustofurnar byrjuðu kl. 14:30, þannig að morguninn var nýttur í góða gönguferð um gamla miðbæinn í Bratislava. Sólin skein í heiði og hitastigið var um 23°C. Yndislegt. Eftir góða gönguferð og hádegismat röltum við uppá hótel og skráðum okkur í Vinnustofur og settum okkur í réttar stellingar! Við vorum ekki búnar að vera lengi á staðnum þegar aðalskipuleggjari ráðstefnunnar kom til okkar. Þegar hún sá að við vorum frá Íslandi faðmaði hún okkur næstum í bak og fyrir. Hún var svo ánægð að hitta Íslendinga! Það kom í ljós að maður hennar hafði verið sendirherra Slóvakíu á Íslandi, með aðsetur í Noregi. Þau höfðu komið oft til Íslands og fannst mikið til koma!


Menntamálaráðherra Slóvakíku setti ráðstefnuna og síðan var strax hafist handa. Við tóku fyrirlestrar um hin ýmsu málefni sem varðar kennslu. Dusan Mesko aðstoðarskólastjóri Comeniusar Háskólans í Bratislava hélt fyrirlestur sem hét „Digital Education in Digital Reality“, þar sem hann fjallaði um tæknina sem er í boði í dag og breyttar áherslur í skólastarfi. Kennarar verði að fylgja þróuninni sem er til staðar og nýta hana í kennslu sinni. Taka verði tillit til ólíkra þarfa nemenda og nota þá tækni sem er í boði til að koma til móts við hvern og einn.

 

Eftir kaffihlé kom Ivan Jezik og hans innlegg hét „Why and how should we create relevant and valuable content.“ Sá fyrirlestur fjallaði líka um möguleika tækninnar í kennslu og hræðslu kennara við að þróast og tileinka sér nýjar aðferðir.


Síðasti fyrirlesturinn á fimmtudeginum var fluttur af Anne Gilleran og hét „Computers are not everything“. Hún fjallaði um kennsluaðferðir og breytingar síðustu hundrað árin á annan hátt en þeir tveir sem á undan komu. Kennsluaðferðir í byrjun 20. aldar hafa breyst frá því að vera einstaklingsvinna í þögn og skýrar reglur um það sem má og ekki má í að vera skapandi hópvinna þar sem má tala og læra hvort af öðru. Hún skoðaði með okkur ýmsar leiðir í kennslu, og lagði áherslu á að það væri vel hægt að koma til móts við breytt samfélag á ýmsan annan hátt en þeir sem á undan lögðu áherslu á. Hún talaði einnig um kosti etwinning umhverfisins sem góðan kost í sambandi við menntun nemenda.


Allt voru þetta mjög áhugaverð sjónarmið og eftir þessa fyrirlestra var hópefli þar sem fólk varð að hópa sig saman eftir sælgætismolum sem lent höfðu í sætunum. Hóparnir áttu að kynnast innbyrðis og ræða sín á milli hvaða möguleika etwinning vinna gæfi okkur í kennslu. Niðurstöður hópanna voru síðan kynntar.


Ráðstefnunni lauk um kl. 18:00 og síðan hittist allur hópurinn í mat á hótelinu kl. 19:00. Mikið spjallað og hlegið og virkilega gaman. Ísland þykir enn afar áhugavert land og margir vildu spjalla við okkur. Okkur leið dálítið eins og mektarfólki.

Þar sem Slóvakía tók ekki þátt í Eurovisin þetta árið var keppninni ekki sjónvarpað, þannig að við horfðum á keppnina í tölvunni. Við vorum afar kátar og upp með okkur þegar nafn Íslands var lesið upp!


Föstudagur 17. maí.


Hlýtt veður, en skýjað. Sem var ágætt því dagurinn var undirlagður af vinnustofum. Vinnustofurnar hófust kl. 9:00, tvær fyrir hádegi og tvær eftir hádegi. Of langt mál yrði að telja upp allt sem í boði var, en við hvetjum ykkur til að skoða heimasíðu verkefnisins: http://www.etwinning.sk/pdw2013/programme_pdw_bratislava_may_2013.pdf

Þó langar okkur sérstaklega að nefna vinnustofu þar sem Radoran Elefant (Cultural differences and integration of minorities) fjallaði um ólíka menningarheima og stöðu minnihlutahópa. Með afar jákvæðu fasi og lifandi framkomu hélt hann öllum áhugasömum. Hann leggur áherslu á:

SOFTEN: Smile – Open arms – Forward lean – Touch – Eye contact – Nodding


Aðrar vinnustofur voru einnig afar áhugaverðar. Jozef Hanč (Not enough classroom time? Flip your classroom upside down!!!) fjallaði um speglaða kennslu sem er mikið í umræðunni á Íslandi þessa dagana. Jozef var með áhugaverða tengingu við nútíma tækni farsímanna. Nokkuð sem vert er að hafa í huga.

Í sinni vinnustofu (Conflict resolution, emotional intelligence) tókst Lenka Práznovská að fá þátttakendur að huga að tilfinningum í kennslu og daglegu lífi – hvaða tilfinningar eru ,,góðar“ og hvaða tilfinningar eru ,,slæmar“ og hvernig við getum nýtt okkur þær.


Og hún Marie Stracenská (Experiential learning) kynnti fyrir okkur aðferð sem kallast ,,ZOOM“ sem hjálpar nemendum að tjá sig munnlega og að finna sameiginlega lausn.


Kvöldmaturinn var snæddur við Dóná. Það er um það bil hálftíma gangur að ánni, en á leiðinni gerði úrhellis rigningu, þannig að það voru ansi blautir matargestir sem mættu á MS DANUBIUS. Síðar um kvöldið voru þrumur og eldingar, afar spennandi veður fyrir okkur Íslendingana. Matarboðið var afar skemmtilegt, margt spjallað og skrafað og ýmsar þreifingar fóru fram varðandi samstarf vegna hinna ýmsu verkefna. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því öllu saman.

Við nýttum einnig tækifærið og hvöttum hópinn til að kjósa Ísland í Eurovision! Vonandi skilaði markaðssetning okkar einhverjum stigum!


Laugardagur 18. maí


Ein vinnustofa kl. 9:00 – 10:30. Að þessu sinni benti Marie Stracenská í fyrirlestri sínum (Performance and creative presentation) okkur á leiðir til að bæta framsetningu og ræðumennsku og hvernig við getum komið hugmyndum okkar betur á framfæri.

Ráðstefnunni lauk síðan með kynningu á afskaplega áhugaverðum verkefnum. Annað var milli tveggja skóla í sitt hvoru landinu og fjallaði um aðbúnað og líf eldri borgara og samanburð milli landa. Hitt verkefnið sem við fengum kynningu á var unnið af yngra stigi og einnig milli tveggja landa. Verkefnið var unnið í gegnum „Skrap book“ og afskaplega skemmtilega upp sett.


Eftir hádegismat fóru flestir að huga að heimferð og var mikið um knús og loforð tekin að vera í sambandi! Mjög mikil jákvæðni og spenningur í loftinu!

Eftir að vera búin að kveðja flesta héldum við enn og aftur í fallega miðbæinn í Bratislava. Í þetta sinn með Anne, þátttakandanum frá Noregi. Miðbærinn skartaði sínu fegursta, mikið um litla markaði, brúðkaup hér og þar og fjölbreytt mannlíf. Yndislegt að geta setið úti, sötrað kaffi og borðað ís og virt fyrir sér mannlífið líða hjá. Hitastigið var um 26°C.


Anne kvaddi okkur um kl. 15:00. Við ákváðum að fara í útsýnisferð um Bratislava í afar áhugaverðum, gamaldags opnum, einhvers konar rútubílum. Ferðin tók klukkustund og við urðum um margt fróðari um sögu borgarinnar og Slóvakíu og vorum afar ánægðar með ferðina.

Síðan var bara haldið áfram að rölta, sest niður á ekta slóvenskum veitingastað þar sem við borðuðum afar góðan mat.

Eftir mat var farið uppá hótel og horft á Eurovision, í tölvunni.



Sunnudagur 19. maí – heimfarardagur.


Heimfarardagurinn var bjartur og hlýr, eins og allir hinir dagarnir. Við áttum flug frá Bratislava kl. 14:40, þannig að um morguninn fórum við í síðastu gönguferðina um um hverfið.

Hótelið er staðsett í háskólahverfi Bratislava. Í Bratislava eru um 30 þúsund háskólanemendur, en borgin sjálf telur um 500 þúsund íbúa. Meiri hluti íbúanna býr í svokölluðum kommúnistablokkum sem eru hinum megin við Dóná. Þessar blokkir voru byggðar þegar Rússar réðu yfir Bratislava milli 1968-1989. Ótrúlegar andstæður, gamli miðbærinn og þessar risastóru íbúðablokkir.

Bratislava er afar hrein borg, við sáum aldrei neitt rusl á götum eða gangstéttum. En það sem stakk í augun var veggjakrot alls staðar.

Ferðin heim gekk eins og í sögu. Við millilentum í Kaupmannahöfn, þar sem við rákumst á nokkra Eurovisionfara. Lending í Keflavík var rétt upp úr kl. 23:30


Þetta var mikið ævintýri, afar fróðlegt og skemmtilegt. Við erum mjög þakklátar fyrir þetta tækifæri og erum sannfærðar að það er eingöngu upphafið að samvinnuverkefnum við skóla víðs vegar í Evrópu. Takk fyrir okkur.


Kveðja,

Guðrún Þorkelsdóttir

Helga Stefanía Magnúsdóttir


Ferðasaga eTwinning ferðalanga til Póllands 24.-28. okt 2012

Miðvikudagsmorguninn 24. október 2012 hittust 4 leikskólakennarar uppi í Leifsstöð. Við þekktumst ekki áður og var undirbúningurinn  stuttur. Við höfðum samband í vefpósti og náðum að kynnast aðeins. Förinni var heitið til WrocÅ‚aw, Póllandi á eTwinning tengslaráðstefnu.  Millilent var í  Frankfurt,  við fengum  8 klukkustundir  í Þýskalandi.  Farið var með lest inn í miðborgina og við vorum svo uppteknar af því að skoða í kringum okkur að við fórum inn í fyrsta farrými en ekki 2. eins og við höfðum borgað fyrir.  Þegar lestarvörðurinn kom var okkur snarlega skuttlað yfir í annað farrými og fengum við að vita að við hefðum rétt sloppið við að borga sektina en hún hljóðar upp á 50 evrur per mann. Í Frankfurt  fór ein á listasafn meðan hinar fóru í útsýnisferð um borgina.  Fróðlegt var að sjá skýjakljúfana og eina stærstu viðskiptabyggingu Evrópu.   Eftir langa göngu fengum við að borða en þá var kominn tími til að halda aftur út á flugvöll. Fórum í fokkervél LOT flugfélagsins. Við lentum í Póllandi um 21.30 og komumst við á Art Hótel á mettíma. Við ákváðum að taka leigubíl og sömdum við ungan bílstjóra um aksturinn, það gekk hratt fyrir sig við vorum komnar kl. tíu heim á hótel, en bílstjórinn keyrði ekki undir 120 km hraða, en það var frekar litil umferð. Við fengum góð herbergi og aðbúnaður var fínn. Um kvöldið fórum við í smá göngu, keyptum okkur drykki, prins polo og skoðuðum nánasta umhverfi.  
    
Fimmtudagurinn byrjaði á flottum morgunmat og síðan var haldið á vit ævintýranna.  Gengið var yfir á allar nærliggjandi eyjar en WrocÅ‚aw samanstendur af mörgum litlum eyjum  og áin Oder rennur í gegnum Pólland.  Við gengum yfir brú sem kallast The bridge of love en það er hefð í WrocÅ‚aw að hengja hengilás á brúnna í tilefni brúðkaups eða trúlofunar.  Við gerðum tilraun til að ganga inn í eitt stærsta og elsta bókasafn Evrópu en þegar við loksins náðum að opna risa stóru hurðina var okkur hótað af öryggisverði með byssu ef við tækjum eitt skref í viðbót þá hlytum við verra af.  Ákveðið var að fara ekki inn í fleiri byggingar en þegar við stóðum fyrir framan  stóra kirkju stóðumst við ekki mátið og læddumst inn.  Kirkjan var mjög falleg og margt um manninn þarna inni.  Boðið var upp á útsýnisferð upp í turn.  Farið var með eldgamalli lyftu, en útsýnið uppi var stórbrotið og alveg þess virði að dröslast upp.  Ferðin niður gekk misvel fyrir gestina, en lyftuvörðurinn gjörsamlega fyllti hana af fólki.  En hann gaf sig ekki og skellti í lás og brunaði niður en við fengum það hlutverk inni í lyftunni að róa einn einn kirkjugestinn sem grét á leiðinni niður.  En allir komust líkamlega heilir niður.  Eftir þessa för ákvað ein að fara í gönguferð um nærliggjandi garða en hinar kíktu í verslanir og var dagurinn fljótur að líða. En nú var komið af alvörunni.  

Það voru um 60 manns á ráðstefnunni og var töluð enska. Íslendingarmir voru áberandi bestir í ensku. Það var gaman að kynnst fólkinu, Pólverjar í meirihluta. En þáttökulöndin fyrir utan Ísland voru Spánn, Portúgal, Lettland, Búlgaría, Ungverjaland, Slóvenía og Tékkland.
Við hittumst í ráðstefnusal Art Hótels, fengum ráðstefnugögn og kynningu á eTwinning teyminu og dagskránni.  Eftir það var okkur skipt í litla hópa í verkefna vinnu sem skilaði fjölbreyttri og skemmtilegri kynningu hópanna.  Hóparnir heldu sér alveg fyrsta kvöldið borðuðu saman og svo var haldið á pöbbarölt og mannlífið skoðað.  

Föstudagurinn byrjaði snemma með morgunmat og að því loknu var hópnum skipt í tvennt.  Annar fór í verkefna vinnu en hinn var í tölvukennslu á Desktopi og TwinSpace. Um hádegið var hópunum svo svissað, í verkefna vinnunni fór ýmislegt skemmtilegt fram.  Íslendingarnir létu plata sig ýmist til að kynna verkefnin, lesa upp sögur eða að syngja.  Enda með þeim sleipari í enskunni en margur annar þarna. Eftir mikla vinnu yfir daginn var farið í ratleik eða City games en megin tilgangurinn í ferðinni var að finna dverga sem faldir eru víðs vegar um bæinn. En dvergar úr bronsi prýða miðborgina.  Farið var að kólna og fljótlega var farið að dimma svo það reyndist sumum hópum erfitt að klára leikinn en aðrir hlupu í gegnum þetta en voru reyndar sendir aftur út til að klára það sem upp á vantaði.  Einhverjir hópar hreinlega svindluðu og skelltu sér á kaffihús. Íslendingarnir kláruðu að sjálfsögðu leikinn, með misgóðum árangri.  Eftir leikinn var svo boðið upp á kvöldmat á Art Hóteli.  Kíkt var aðeins út á mannlífið eftir það.  

Laugardagurinn byrjaði einnig mjög snemma á morgunmat.  Eftir matinn var farið yfir hvernig búa ætti til verkefni og sækja um þau á eTwinning vefnum.  Eftir það var okkur gefið tækifæri til að finna félaga og ef við vildum búa til verkefni.  Það tók dágóðan tíma en allir Íslendingarnir komu heim með verkefni og uppfullir af hugmyndum. En hægt er að vinna stutt eða löng verkefni og þróa þau. Spennandi er að vinna með leikskólabörnum og eru verkefni í vinnslu. Sumir voru uppteknir allan daginn við verkefnavinnu meðan aðrir voru að tapa sér yfir snjókomunni sem byrjaði fyrr um daginn, enda fyrsti vetrardagur.  Ein var meira að segja að upplifa snjó í fyrsta skipti.  Þegar degi var tekið að halla var hópurinn rekinn út í kuldann en nú átti að skoða bæinn.  Hópnum var skipt í tvennt annar fór fótgangandi en hinn fór í Pram (sporvagna)ferð um miðbæinn.  Það var orðið mjög kalt úti og dimmt svo ekki var útsýnið mikið.  Eftir að hafa verið í klukkutíma Pram ferð í óupphituðum vagni var hópurinn orðinn ansi kaldur.  Eftir smá umræður var ákveðið að stefna á veitingarstaðinn þar sem kvöldmaturinn átti að fara fram.  Hópurinn sem byrjaði fótgangandi á heiður skilið að hafa klárað ferðina.  Á veitingastaðnum fengum við heitt að drekka og stuttu seinna hófst borðhald. Boðið var upp á graskerssúpu og önd með pólskum hveitikartöflum . Setið var langt fram á kvöld borðað, drukkið, dansað, sungið og spjallað.

Það var einstök stemming þegar allir sungu sama Meistari Jakob og Höfuð, herðar, hné og tær með undirleik tónlistarfólks frá Ungverjalandi.

Það var erftitt að kveðjast og mörgum höfðum við kynnst vel. Þetta var frábær tími og var gaman að kynnast fólki frá Póllandi og öllum hinum löndunum.

Sunnudagurinn hófst um miðja nótt, en það voru þreyttir en glaðir Íslendingar með nesti í poka sem héldu af stað út á völl.  Með þeim í för voru tvær konur frá Sloveníu en skemmtilegt vinasamband hafði myndast á milli okkar eins og fjölmargra annarra sem vonandi á eftir að haldast um ókomin ár.
Ferðin heim gekk mjög vel þrátt fyrir 5 tíma bið á vellinum.  

Þegar ferðin er tekin saman erum við allar sammála um að þetta hafi verið fróðleg og skemmtileg ferð í alla staði. Lærðum mikið á hvernig eTwinnig getur bætt skólastarfið og víkkað sjóndeildarhring okkar allra.

Anna, Lilja, Oddný og Þóranna


Fréttir frá Aþenu

Ég var svo heppin að fá að taka þátt í PDW-námskeiði fyrir eTwinning fulltrúa í Aþenu núna um miðjan nóvember. Ferðin var bæði ánægjuleg og lærdómsrík. Hótelið okkar var við rætur Acropolis hæðarinnar og við höfðum tíma til að rölta þar um og lifa okkur inn í lífið í Aþenu til forna. Þá var einnig skipulögð heimsókn á Acropolis safnið þar sem mikið af höggmyndum og freskum frá klassíska og forklassíska tímabilinu er varðveitt.

Á námskeiðinu tókum við þátt í fjölda góðra vinnustofa og sóttum áhugaverðar kynningar sem fjölluðu allar á einhvern hátt um "E-learning" . Með aukinni áherslu á breytta kennsluhætti, nýtingu upplýsingatækni og þeirra tækja og tóla sem nemendur vilja helst nota og hugmyndum um "viðsnúna kennskustofu" eða " flipped classroom", mun skólastarfið að einhverju leiti færast í auknum mæli á netið.   Við kennarar þurfum þess vegna að fylgjast vel með nýjungum sem auðvelda okkur þennan "viðsnúning". Ég ætla hér á eftir að spjalla aðeins um þær lausnir sem mér þótt hve athygliverðastar á námskeiðinu.

Hugmyndin að baki "flipped classroom" - http://www.flippedclassroom.com/index.php  er innlegg á netinu, verkefnavinna í kennslusfotunni, líkan sem er að ganga mjög vel hjá Norðlingaskóla. Þar á bæ eru bæði kennarar og nemendur vopnaðir iPad og nota forrit sem nýtast aðallega og oft aðeins fyrir þær vélar. Á námskeiðinu í Aþenu var hins vegar fjallað um forrit sem hægt er að keyra á allar vélar.

  1. Til að taka upp það sem fram fer á tölvuskjá ásamt rödd kennarans og uppfæra á vefnum sem myndband:
    • Það forrit sem hér  virðist vera sett í fyrsta sæti er Camtasia. Camtasia þarf hins vegar að kaupa. Ef það er ekki til í skólanum ykkar þá var mælt með "Screen-O-Matic: http://www.screencast-o-matic.com/. Hægt er að taka upp skjáinn og rödd en einnig í gegnum vefmyndavél. Boðið er upp á fría hýsingu en hvert myndskeið má ekki vera lengra en 15 mínútur. Þá er formið einnig samhæft YouTube og hægt að uppfær beint. Ég hef sjálf prufað þetta forrit og það virkar fínt.
  1. Glogster og Glogster EDU:
    • Skemmtilegt ókeypis forrit til þess að gera teiknimyndasögur.  Ókeypis  hýsingu á vefnum. "Glog" er eins og gagnvirkt póstkort eða plakat sem getur innihaldið myndir, teikningar, tónlist, tal, vídeo, og texta. Glogster EDU http://edu.glogster.com/what-is-glogster-edu/  er sérsniðið fyrir skólastofuna, kennslu og nám en einnig frítt. Því fylgir sérstök rafræn kennslustofa sem aðeins kennarinn og nemendurnir hafa aðgang að og sitthvað fleira. Á námskeiðinu sýndi kennari frá Portúgal hvernig hún notaði Glogster til þess að auka virkni og áhuga slakari nemenda. Einnig var talað um ComicLab sem er frábært forrit til þess að búa til gagnvirkar teiknimyndasögur. Það kostar þó töluvert - 45 dollara fyrir einta tölvu í 12 mánuði, 650 fyrir skóla með ótakmarkaðri notkun.
  1. Til að senda út eða streyma út kennslu eða viðburði í rauntíma:
    • Hér virðist Acobe Connect vera í uppáhaldi.  Það virkar mjög vel en er nokkuð dýrt. Fjarnemar eða þátttakendur sem sitja heima við tölvuna geta komið með spurningar og innlegg. Að sögn kynnanda tekur forritið ekki upp samtímis og það streymir út. Microsoft Lync er annað frábært fjarfunda- og fjarkennsluforrit. Ég hef sjálf unnið í því á tölvunámskeiði sem ég tók hjá Promennt. Skjánum er skipt í tvo helminga. Á öðrum helmingnum gat ég fylgst með því sem kennarinn sendi á tjaldið úr tölvu og á hinum helmingnum sá ég kennarann og það sem gerðist fremst í kennslusfotunni. Ég heyrði einnig vel í kennaranum og þátttakendum á staðnum. Lync fylgir með Microsoft Office Pro Plus 2010 http://office.microsoft.com/en-us/professional-plus/en annars þarf að kaupa það. http://lync.microsoft.com/en-us/Pages/unified-communications.aspx.   Google Hangout er notað í auknum mæli til fjarfunda og fjarkennslu. Þar er kominn nýr "fidus" On Air sem gefur möguleika á að streyma út viðburði í gegnum vefmyndavél. Ókeypis eins og allt sem viðkemur Google.
  1. Google Forum
    • Einn kennari sýndi hvernig hún notar Google Forum til þess að kanna hvort nemendur hlusta á innlegg sem hún setur á vefinn. Vert að kynna sér þetta forrit. Það er notað til minni viðhorfskannana en gefur ekki eins marga möguleika á úrvinnslu eins og t.d. SurveyMonkey. En - frítt!
  1. WallWisher - gagnvirk tafla á netinu
    • Auðvelt,  skemmtilegt - og  FRÍTT. Þú stofnar "vegg" og sendir eða gefur nemendum slóðina. Þeir þurfa ekki einu sinni aðgangsorð, því slóðin liggur aðeins að veggnum sem þú vart að búa til. Nemendur smella á vegginn og segja skoðun sína eða setja inn mynd eða vídeó. Frábært fyrir hugarflæði  (brain storming), til að skrifa saman sögu eða segja frá niðurstöðum hópvinnu. http://wallwisher.com/ Kennslumyndband: http://www.youtube.com/watch?v=fAEc_6QfhT8&feature=related 

Vona að einhver hafi gagn og gaman af þessari stuttu samantekt. - En ferðin var stórkostleg, Aþena falleg, veður þægilegt og góðir ferðafélagar. Auk þess kynntumst við skemmtilegu fólki frá mismunandi löndum sem við munum halda sambandi við á eTwinning.

Takk fyrir mig - og góðar kveðjur að austan,

Sigrún Egilsstöðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband