Hallormsstaðaskóli og Etwinning

 

Á síðasta hausti var ég svo heppin að vera valin úr hópi margra umsækjenda um að fá að fara til Bonn á tveggja daga Etwinning workshop eða vinnustofu. Ég undirrituð og Dögg Lára Sigurgeirsdóttir kennari í Langholtsskóla fórum þangað  saman  ásamt Guðmundi  Inga Markússyni ,,Etwinning -stjóra“  Íslands.  Ekki ætla ég hér að fjölyrða um annars gott ferðalag í afbragðsgóðum félagsskap þeirra en er komið var á áfangastað var ljóst að ekki var í kot vísað því aðbúnaður allur, undirbúningur og síðar framkvæmd var afar góður. Þar voru svo samankomnir um 250 kátir og hressir kennarar  víðsvegar að úr Evrópu sem gaman var að hitta.

Yfirskrift vinnustofunnar fól í sér að kynna okkur helstu markmið með Etwinning og kenna leiðir sem fara mætti á til að ná þeim. Markmið þessi fela í sér að efla samskipti milli nemenda í Evrópulöndum, í leik og starfi, í námi og tómstundum. Annað er að kennarar stofni til Etwinning verkefna sem auðvelt er að gera og ekki sakar að það er ókeypis og þægilegt. Þriðja að kennarar og nemendur geti nýtt sér algenga og aðgengilega tækni nútímans til samskipta.  Undirtónn alls þessa er svo óskráð auðvitað göfugt yfirmarkmið sem er að vera ein þeirra leiða sem fara má til þess að stuðla að vináttu, samvinnu og friði milli einstaklinga og þjóða í Evrópu.

Okkur var fyrst og fremst kennt á Etwinning gáttina sem er lokuð öðrum en innskráðum þátttakendum, kennarar skrá sig sjálfir og sjá síðan um að veita nemendum sínum aðgang. Fyrirlestrar voru haldnir um menningarlegan mun þjóða á milli, svosem að það sem þykir kurteisi á einum stað getur verið argasti dónaskapur á öðrum. Við fengum kynningu á gerð og upphleðslu hljóðskráa, kvikmyndaskráa og hvernig þeim má koma á netið,  leiðir til samskipta  í gegnum e-mail, hið góðkunna samskiptaforrit Skype , hið minna þekkta DimDim, ofl.

Á einum fyrirlestrinum kynntist ég henni Virgíniu, kennara frá Portúgal sem er kunnug bæði Etwinning- og Comeníusarverkefnum. Hún bauð mér að taka þátt í litlu Etwinning verkefni sem hún kallaði „Christmas is coming“  og þáði ég það. Til stóð að um 13 skólar um alla Evrópu tækju þátt en raunin varð nú upp og ofan. Fimm til sex skólar unnu að verkefninu og var Hallormsstaðaskóli, þó ég segi sjálf frá - merkilegt nokk einna mikilvirkastur.  Nemendur mínir voru enda mjög stoltir þegar skrifstofa Etwinning sendi skólanum okkar  vefmyndavél sem viðurkenningu fyrir þátttöku í Etwinning verkefninu.

 Það gengur á ýmsu fyrir jólin - víðar en á Íslandi! Hér í Hallormsstaðaskóla  unnu nemendur mínir í 6. og 7.bekk  af miklum áhuga. Þau kynntu sjálf sig, land og þjóð, sögðu frá jólasiðum, jólasveinunum og Grýlu, mat, drykk, sömdu sögur og sendu jólakort. Ávinningurinn var heilmikill fyrir okkur öll. Jólaþema hópsins var þannig unnið með öðrum hætti en áður, alveg nýtt sjónarhorn fundið  því nú skyldi öðrum þjóðum kennt um Ísland. Desember var því algerlega undirlagður af skemmtilegum verkefnum. Nemendur mínir voru mjög áhugasamir og alvörugefnir um allt það sem barst frá hinum þátttöku  þjóðunum. Undarlegast fannst þeim að fólk um alla Evrópu væri að borða fisk í jólamatinn! Þá væri nú eitthvað annað hér-  ilmandi hangikjet í öllum húsum.

Þau  gerðu einlægar tilraunir til að semja texta á ensku – því loksins var einhver útlendingur að lesa það sem þau skrifuðu! Vissulega fengu þau hjálp frá mér – og kannski heldur mikla, en auðvitað var þetta um leið fyrsta verkefni mitt af þessum toga. Krakkarnir lærðu að leita á vefnum, sækja skrár og vista, fella saman skrár, lærðu að sumt er háð höfundarrétti, lærðu mjög vel á PP forritið og Word, dýpkuðu tækniþekkingu sína, fundu lausnir við að tengja tól og tæki innanhúss, kynntust Skype, lásu sig til um jólasiði og jólafjölskylduna okkar góðu ásamt andstyggðar húsdýrinu þeirra – jólakettinum, og komu á framfæri með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti svo endalaust mætti telja. Okkur vantaði helst  stuðning við  kvikmynda og hljóðskrárgerð en ætlum að finna leiðir til þess á næstunni og beita þeim í næsta verkefni.  

 

Að fenginni reynslu finnst mér sjálfsagt að hvetja kennara til þess að prófa að vinna svona millilanda verkefni. Það er auðvelt og ódýrt – engin skriffinska og vesen. Það er allt í senn gefandi og krefjandi, forvitnilegt og fróðlegt, og ekki síst  bráðskemmtileg viðbót í kennsluaðferðaflóruna. Etwinning er leið  til að kynnast nýju fólki sem taka má saman höndum við, fólki  með góðar og frjóar hugmyndir. Etwinning er ætlað að vera bara skemmtileg eins og sagt er.

Það sem mestu máli skiptir eru svo auðvitað nemendur. Þarna geta þau eignast kunningja og jafnvel vini, skipst á skoðunum og upplýsingum. Ekki skyldi svo gleyma því að börn nútímans hafa mikinn áhuga fyrir tækjum og tólum og Etwinning verkefni eru upplögð til þess að beina þeim áhuga í verðugan og skapandi farveg.   

 

Íris Randversdóttir kennari á Hallormsstað

  

Evrópusamvinna á Háskólatorgi 14. janúar 2010

Kynning á tækifærum og styrkjum í Evrópusamstarfi verður haldin á Háskólatorgi fimmtudaginn 14. janúar 2010 kl. 15-18. Þar gefst færi á að hitta fulltrúa evrópskra samstarfsáætlana á Íslandi og kynna sér möguleika á styrkjum og samstarfi á öllum sviðum menntamála, rannsókna, vísinda, nýsköpunar, menningar og atvinnulífs.

Sameiginlegur upplýsingavefur landsskrifstofa og þjónustuskrifstofa Evrópuáætlana er evropusamvinna.is. Þar má finna grunnupplýsingar um allar þær áætlanir og styrkjamöguleika sem Íslendingum bjóðast ásamt tenglum í viðeigandi heimasíður. Evropusamvinnu.is er ætlað að vera fyrsta stopp fyrir þá sem hafa áhuga á Evrópusamstarfi, hvort sem það er til að sækja um styrki eða leita sér upplýsinga og þjónustu, en vita e.t.v. ekki alveg hvar þeir eiga að byrja.

Íslendingar hafa aðgang að fjölda Evrópuáætlanna í gegnum EES samninginn og hafa verið virkir í Evrópusamstarfi allt frá því hann tók gildi. Í gegnum samstarfsáætlanir Evrópusambandsins er hægt að sækja styrki og stuðning innan flestra sviða menntunar og atvinnulífs og má þar telja áætlanir á sviði menntunar á öllum stigum, menningar, rannsókna og vísinda, jafnréttis, vinnumiðlunar og fyrirtækjasamstarfs. Einstaklingar, skólar, fyrirtæki, stofnanir og samtök finna eitthvað við sitt hæfi á Evrópusamvinnukynningunni á Háskólatorgi.

Eftirfarandi áætlanir og þjónustuveitur verða kynntar á Háskólatorgi: 

ÁætlunUmsjónaraðili/landsskrifstofa
7. rannsóknaáætlun ESBRANNÍS
Menntaáætlun ESBLandsskrifstofa Menntaáætlunarinnar
Evrópa unga fólksinsLandsskrifstofa Evrópu unga fólksins / UMFÍ
Evróvísir – tækifæri fyrir ungt fólkLandsskrifstofa Evrópu unga fólksins / UMFÍ
EURES-evrópsk vinnumiðlunVinnumálastofnun
MenningaráætluninUpplýsingaþjónusta menningaráætlunarinnar á Íslandi
MEDIA kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunaráætlun ESBMEDIA upplýsingaþjónustan
Enterprise Europe Network – CIPNýsköpunarmiðstöð Íslands, Útflutningsráð Íslands og RANNÍS
NorðurslóðaáætluninByggðastofnun
eTwinningLandsskrifstofa Menntaáætlunarinnar
PROGRESS – jafnréttis og vinnumálFélags- og tryggingamálaráðuneyti
Daphne III – gegn ofbeldi á konum og börnumJafnréttisstofa
AlmannavarnaáætluninRíkislögreglustjóri

Námskeið á Möltu um upplýsingatækni, verkefnasamvinnu og kennslu - sótt um styrk gegnum Comenius

Námskeið á Möltu um upplýsingatækni, verkefnasamvinnu og kennslu 08.12.2009

Smart solutions bjóða í annað sinn upp á námskeið á Möltu um upplýsingatækni, verkefnasamvinnu og kennslu (ICT for collaborative, project-based teaching). Námskeiðið var haldið í fyrsta skipti í fyrra og tókst mjög vel til.

Upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu skipuleggjenda: www.smartsolutionsmalta.com.

Hægt að sækja um styrk til fararinnar gegnum Comenius á Íslandi. Sótt er um á heimasíðu Comenius á Íslandi.

ATH. frestur fyrir íslenskar umsóknir er 15. janúar 2009.

Nánari upplýsingar: Ragnhildur Zoega og Þorgerður Björnsdóttir, fulltrúar Comenius hjá Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB:
rz(hjá)hi.is og teva(hjá)hi.is

Nemendasamkeppni: Gerð jafningjafræðsluefnis um jákvæða og örugga netnotkun barna og unglinga

samkeppni2009_939449.jpg

SAFT, ungmennaráð SAFT, Heimili og skóli og Nýherji efna til samkeppni meðal grunn- og framhaldsskólanemenda um gerð jafningjafræðsluefnis sem stuðlar að jákvæðri og öruggri netnotkun.

Innsent efni má vera í formi myndbanda, kennslueininga, veggspjalda, handrita af leiknu efni, leikir o.s.frv., en miðað er við að það sé nýtilegt við jafningjafræðslu í grunnskólum landsins. Tekið er við efni bæði frá einstaklingum og bekkjum.

Efni þarf að skila inn fyrir 22. janúar 2010 en vinningshafar verða kynntir á alþjóðlega netöryggisdaginn 9. febrúar 2010. Þann dag mun SAFT standa fyrir ráðstefnu þar sem lögð verður áhersla á að brýna fyrir netnotendum að hugsa sig tvisvar um áður en þeir setja upplýsingar eða myndir á netið.

Dómnefnd samkeppninnar skipa fulltrúar SAFT, Heimilis og skóla, Námsgagnastofnunar, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Menntamálaráðuneytis, Kennarasambandsins, foreldraráða, ungmennaráðs SAFT og Nýherja.

Meðal vinninga má nefna IdeaPad fartölvu, Canon upptökuvél, prentara og flakkara.

Efni má senda merkt „P2P”með tölvupósti á saft@saft.is eða í pósti á SAFT, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.

www.saft.is


Dönsk kennslumyndbönd um eTwinning

Landskrifstofa eTwinning í Danmörku hefur sett saman ljómandi kennslumyndbönd um ýmis atriði í eTwinning, m.a. hið nýja TwinSpace. Tóku ekki allir dönsku í skólanum hérna í gamladaga?

:)

nytttwinspace.jpg


Úrslit í landskeppni eTwinning fyrir skólaárið 2008-2009!

Verðlaunin voru veitt á haustfagnaði eTwinning á Písa, Lækjargötu, 16. október.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, veitti verðlaunin.

Á myndinni eru (fv.): Guðmundur, Landskrifstofu, Kolbrún, Flataskóla, Rakel, Bakka, Hilda, Versló, og Katrín, menntamálaráðherra.

Verðlaun í hverjum flokki: Glæsileg JVC stafræn myndbandsupptökuvél

Flokkur framhaldsskóla:
Verzlunarskóli Íslands: Are we so different? ¿Y tú cómo vives?
Hilda Torres veitti verðlaununum viðtöku.

Flokkur grunnskóla:
Flataskóli (Garðabæ): Schoolovision
Kolbrún Svala Hjaltadóttir
veitti verðlaununum viðtöku.

Flokkur leikskóla:
Bakki (Reykjavík): Through the children's eyes

Sjá einnig:

http://leikskolinn-bakki.is/index.php?option=com_content&view=category&layout=blog&id=84&Itemid=208

http://www.flickr.com/photos/bakkamyndir/

Rakel G. Magnúsdóttir veitti verðlaununum viðtöku.

Umsögn dómnefndar:

Verzlunarskóli Íslands, Hilda Torres: Are we so different? ¿Y tú cómo vives?
Viðamikið og flott verkefni og ljóst að þátttakendur hafa lagt mikla alúð og vinnu við það, bæði nemendur og kennarar. Nemendur í þátttökulöndunum tveim höfðu mismunandi markmið að hluta, íslensku nemendurnir voru fyrst og fremst að læra spænsku en þeir spænsku lærðu ensku og dálitla íslensku, áhugavert að sjá hvernig tókst að leysa þetta og vinna með mismunandi tungumál. Dæmi um skemmtilega notkun á upplýsingatækni eru hljóðupptökur á vefsvæðinu voxopop. Unnið var með þemu sem greinilega féllu að áhugasviði nemenda og hefur það eflaust aukið áhuga þeirra á náminu. Augljóslega lifandi og skemmtilegt tungumálanám sem hefur átt sér stað í þessu verkefni. Þetta var reyndar eina verkefnið frá framhaldsskóla, því miður. Verkefnið er enga að síður fyllilega fullsæmt af því að hljóta viðurkenningu.

Flataskóli (Garðabæ), Kolbrún Svala Hjaltadóttir: Schoolovision
Verkefnið er stórt evrópst verkefni þar sem taka þátt skólar úr  mörgum löndum evrópu, einn  úr hverju landi. Verkefnið tvinnar saman tækni og listir, tengist dægurmenningu og líkir í  sumu eftir söngvakeppni Evrópulanda, Eurovision með söngkeppni þar sem úrslit ráðast  gegnum kosningu þar sem rauntímatengsl eru við aðra skóla. Hvert land sendir inn upptöku á  einu söngatriði á upptöku þar sem myndmál er einnig mikið notað og  er gjarnan innsýn í viðkomandi skóla. Verkefnið er til þess fallið að virkja marga nemendur og auka samkennd  innan skóla og tengist landafræðikennslu og veitir innsýn inn í mismunandi hefðir og menningarheima þegar nemendur skoða upptökur af dans og söngatriðum hinna þátttökulandanna.

Bakki (Reykjavík), Rakel G. Magnúsdóttir: Through the children's eyes
Þetta er spennandi og einfalt verkefni þar sem mörg börn taka þátt og eru virkir þátttakendur. Verkefnahugmynd er góð og vel útfærð. Verkefnið ýtir undir skapandi starf og  sýnir hvernig  börn geta skynjað heiminn og skrásett  með aðstoð stafrænnar ljósmyndatækni.  Verkefnið  fellur vel að útikennslu og náttúruskoðun.  Þetta er samvinnuverkefni nokkurra landa og börn sem tóku þátt gátu því skyggnst inn í heim barna í öðrum löndum í gegnum sjónarhorn þeirra  barna, sérstaklega hvað varðar árstíðir og umhverfi. Verkefnið er gott dæmi um verkefni sem  myndar samfellu milli skólastiga og verkefni sem er unnið í samstarfi við foreldra.

Önnur verkefni sem tóku þátt í keppninni:

  • Leikskólinn Bakki, Rakel G. Magnúsdóttir: Our countries / Magic of Colors
  • Gullborg, Paolo Di Russo og Sverrir Marinó Jónsson: Dagur Jarðarinnar
  • Korpuskóli, Rósa Harðardóttir: Johnny´s seven friends
  • Grunnskóli Vestmannaeyja, Eva S. Káradóttir: Climate-change-project
  • Álftamýrarskóli, Sesselja Traustadóttir og Ásdís Gísladóttir: Facts and food from Wales and Iceland

Landsskrifstofan veitti gæðamerki til eftirfarandi verkefna:

  • Bakki, Rakel G. Magnúsdóttir: Through the children's eyes / Our countries / The four elements / The magic of colors
  • Gullborg, Paolo Di Russo & Sverrir Marinó Jónsson: Dagur Jarðarinnar / World awarenss through geography
  • Flataskóli, Kolbrún Svala Hjaltadóttir: Schoolovision
  • Korpuskóli, Rósa Harðardóttir, Herdís K. Brynjólfsdóttir: Johnny’s seven friends
  • Verzlunarskóli Íslands, Hilda Torres: Are we so different? / Y tú, cómo vives?

Um landskeppnina

Þátttakendur og gjaldgeng verkefni

  • Aðstandendur þeirra verkefna sem höfðu verið virk einhverntíma á skólaárinu 2008-2009 í lengri eða skemmri tíma höfðu möguleika á að skrá verkefni til keppni.
  • Verkefni sem spönnuðu fleiri skólaár gátu einnig verið með svo framalega að þau voru virk einhverntíma á síðasta skólaári.

Dómnefnd

Eins og áður voru óháðir aðilar fengnir til þess að meta verkefnin: Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni við HÍ, og Björn Sigurðsson, vefstjóri hjá Forsætisráðuneytinu, áður hjá Menntagátt. Varamaður er Óskar E. Óskarson, verkefnisstjóri hjá Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins.

Schoolovision í fyrsta sæti á Ítalíu

michaeletwinVerkefnið Schoolovision sem Flataskóli í Garðabæ tók þátt í síðasta skólaár hlaut fyrsta sæti í Global Junior Challenge keppninni á Ítalíu fyrir 15 ára og yngri. Michael sem stjórnaði verkefninu frá Skotlandi tók á móti verðlaununum í sínu fínasta pússi (sjá mynd). Við erum mjög stolt af því hve verkefnið hefur skilað sér vel til margra og gefið margar afurðir af sér í hverju landi fyrir sig. 

Í Flataskóla hefur nú þegar verið ákveðið að halda aftur svokallað Flatóvision á vorönn til að undirbúa þátttöku í Schoolovision 2010 og við hlökkum mikið til að takast á við verkefnið aftur með reynsluna í farteskinu.

Kolbrún Svala Hjaltadóttir, kennsluráðgjafi í Flataskóla


Schoolovision 2009 í úrslitum Global Junior Challenge

Flataskóli í Garðabæ tók þátt  í verkefninu Schoolovision sem er eitt af þeim 109 verkefnum sem komin eru í úrslit í Global Junior Challange

Hér er krækja á verkefnið innan GJC

Verkefninu var stjórnað af Michael Purves í Skotlandi en Kolbrún Svala Hjaltadóttir var leiðbeinandi við verkefnið í Flataskóla sem var fulltrúi Íslands í keppninni, en aðeins einn skóli mátti taka þátt frá hverju landi.

Það tóku þrjátíu lönd þátt í verkefninu um Schooloviosion sem fór af stað á vorönn 2009. Lesa má nánar um það hér  Einnig má lesa um hvernig Flataskóli vann með verkefnið á á heimasíðu skólans. Allmörg landanna hafa einnig fengið viðurkenningu fyrir þátttökuna í heimalandi sínu (National Quality Label). Verkefnið vakti víða talsverða athygli og m.a. í fjölmiðlum þar sem viðkomandi aðilar komu í viðtöl og sögðu frá verkefninu bæði í sjónvarpi og í blöðum.

Ákveðið hefur verið að fara af stað með Scoolovision 2010 aftur eftir áramót og bætast þá sennilega nokkur lönd í viðbót við þau sem fyrir eru. Flataskóli mun áfram taka þátt í verkefninu og vera fulltrúi Íslands í þessu skemmtilega samstarfsverkefni.

schoolovision


1,2, Buckle my shoe í úrslitum Global Junior Challenge 2009

Sigurganga verkefnisins 1,2, Buckle my shoe heldur áfram.

Verkefnið er komið í úrslit Global Junior Challenge 2009 en sjálf úrslitin verða kynnt með viðhöfn í Róm í byrjun október. Verkefnið hefur unnið til fjölda verðlauna, þeirra á meðal Evrópuverðlaun eTwinning og Landskeppni eTwinning fyrir skólaárið 2008-2009, að ógleymdum viðurkenningum í heimalöndum þátttakenda.

Íslenski skólinn í verkefninu er Furugrund í Kópavogi þar sem Fjóla Þorvaldsdóttir hefur sinnt því af stakri prýði.

Landskrifstofan óskar Furugrund og samstarfsskólum til hamingu!

Listi yfir úrslitaverkefnin er að finna hér.

Stuttmyndagerð á Norrænni eTwinning-vinnustofu í Reykjavík!

Í dag hefur mikið gengið á í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og tölvuverinu á Háskólatorgi.

Á þriðja tug tungumála- og félagsgreinakennara allstaðar að af norðurlöndunum hafa fræðst um eTwinning, notkun stuttmynda í kennslu, og síðast en ekki síst, hafa skrifað handrit, tekið upp, og klipp eigin stuttmyndir.

Vinnustofan hófst í gær og lýkur á morgun. Kennararnir hafa einnig stofnað eTwinning-verkefni sem þeir ætla að vinna men nemendum sínum á komandi skólaári.

Þema vinnustofunnar er norræn mál og norræn menning og hvernig hægt er að gera kennsluna fjölbreyttari með notkun stuttmynda - bæði tilbúinn og eigin.

Íslensku þátttakendurnir eru níu talsins og hafa allir stofnað verkefni með norrænum kollegum. Allir hafa skemmt sér ljómandi vel! Guðmundur Landskrifstofu eTwinning


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband