Vinnustofur e-Twinning í Varsjá, Póllandi 15-17 maí 2009

Það má með sanni segja að það hafi verið gleðitíðindi þegar hringt var í okkur stöllur og okkur tilkynnt að við hefðum orðið fyrir valinu með að fara á ráðstefnu eTwinning í Varsjá í Póllandi. Við þekktumst ekkert og fengum uppgefið símanúmer hjá hvor annarri. Við spjölluðum  nokkrum sinnum saman í síma og ákváðum meðal annars hvað við ætluðum að  bjóða upp á í alþjóðlega hlaðborðinu sem átti að vera í upphafi ráðstefnunnar. Við hittumst því á fimmtudeginum fyrir brottför og smurðum flatbrauð með hangikjöti.

Lagt var af stað í þessa ævintýraferð í bítið næsta morgun eða um klukkan hálf fimm. Í ljós kom  að örlítil seinkun yrði eða u.þ.b. 20-30 mínútur. Í fyrstu höfðum við engar áhyggjur af því, en svo  fórum við að velta fyrir okkur tímanum sem við höfðum til að skipta um flugvél og eftir að hafa ráðfært okkur við flugfreyju sem þekkti vel til í Frankfurt komumst að því að líklegast væri best að taka spretthlaups aðferðina til að ná næstu vél.  Sem við gerðum, við hlupum frá einni flugstöðvarbyggingunni að annarri.  Við komust loks að hliðinu 10 mín áður en vélin átti að taka á loft en það var því miður of seint, rútan sem fór með farþega að flugvélinni var farin frá flugstöðinni. Við höfðum misst af flugvélinni. Þá tók við mikið þramm á milli flugstöðvarbygginganna þar sem við þurftum að fara til baka til að fá fluginu breytt þar sem Icelandair vélin hafði lent. Það tókst sem betur fer en þetta þýddi tæplega fjögra tíma seinkun á komu okkar til Varsjá.

eTwinning PóllandiVið misstum þar af leiðandi af upphafi ráðstefnunnar og alþjóðlega hlaðborðinu og gátum ekki leyft hinum að njóta flatbrauðsins sem við ætluðum að bjóða upp á. Við vorum komnar á Hótelið á sama tíma og kvöldverðurinn var að byrja.  Þá strax kynntumst við konu frá Grikklandi sem við svo vorum i talsverðum samskiptum við allan tíman sem ráðstefnan var.

Á laugardeginum var farið i Batory High school þar sem Anne Gilleran byrjaði á að kynna eTwinning og hversu mikið það hefur þróast og stækkað á síðustu árum.   Phd Jaroslaw Krajka kom svo á eftir og kynnti hvernig er best að skipuleggja eTwinning verkefni og hvað ber að hafa i huga.  Að því loknu hófust vinnustofurnar sem voru fjórar talsins. Okkur var skipt niður í  nokkra  vinnuhópa  sem skiptust á að fara í vinnustofurnar. Í þessum vinnuhópum var meðal annars farið í hvað við eigum sameiginlegt með öðrum leikskólakennurum í Evrópu og hvað sé ólíkt með starfinu. Það kom skemmtilega á óvart hvað starfið var í raun líkt þó svo að fljótt á litið hefði maður dregið þá ályktun að starfið væri ólíkara en raun bar vitni. Ólík samfélög hafa samkvæmt þessu sömu áherslur í starfinu.

Í vinnustofunum kynntu Wojciech Wasylko og Lukasz Kluszcyk vefsvæði eTwinning og hvaða möguleika það hefur upp á að bjóða og  farið var yfir allt sem Twinspace býður upp á ásamt Twinblogginu. Elzbieta Gajek fór nánar í hvað er best að hafa í huga þegar farið er af stað með eTwinning verkefni, t.d. á hvaða tungumáli sé best að hafa samskipti og hvernig samskiptin eiga að vera. Hversu margir þátttakendur, hversu langan tíma á verkefnið að taka, hvaða tilgang hefur verkefnið og hvernig á að skiptast á  niðurstöðum.

maí 2009 080Einnig fengum við kynningu á nýjum tækjum og tólum sem nýtast vel í eTwinning eins og Voki  www.voki.com  og Dorota Janczak kenndi á Photostoryforritið . Einnig voru þátttakendur að benda á góðar síður sem nýtast vel í eTwinning eins og www.slideboom.com  sem er mjög heppilegt fyrir Power Point og www.slide.com fyrir myndir.  Ein vinnustofan var um sköpun í leikskólastarfi þar sem Magdalena Szpotowicz  benti á mikilvægi þess að ýta undir skapandi vinnubrögð, bæði hjá kennurum og nemendum. Einnig fengum við líka tækifæri til að kynnast öðrum þátttakendum og eignast tengilið til að vinna með í framtíðinni. 

maí 2009 102Um kvöldið var farið í skoðunarferð um Varsjá sem endaði í Oldtown sem er elsti hluti Varsjá. Þessi ferð var mjög skemmtileg en hefði verið skemmtilegri ef ekki hefði rignt. Í Old town var farið út að borða á veitingastað sem heitir Fukier  sem á sögu sem hægt er að rekja aftur til 16 aldar og er sagður vera frægasti veitingastaðurinn í Varsjá. Þar náðum við að kynnast enn fleiri þátttakendum þar sem við sátum við borð með Rúmenum, Pólverjum, Slóvökum og Frökkum. Einnig kynntumst við leikskólakennurum frá Svíþjóð. Eftir að komið var hótelið að hlaupið upp á herbergi til að ná síðustu mínútunum að Eurovision söngvakeppninni sem var beinni útsendingu.  Þetta var langur og skemmtilegur dagur, og það voru sælar og stoltar stöllur sem lögðust til hvíldar á laugardagskvöldinu.

Eftir að hafa fengið okkur góðan morgunverð var síðasti hluti ráðstefnunnarmaí 2009 078 þar sem fjórir þátttakendur sögðu okkur og sýndu frá þeirra verkefnum í eTwinning. Ewa Kurzak og Miriam Schembri kynntu eitt þessara verkefna fyrir hönd allra sem voru þáttakendur í því verkefni, en það er verkefnið 1,2 buckle my shoes, sem leikskólinn Furugrund var þátttakandi í. Öll verkefnin sem voru kynnt , eru verðlauna-verkefni. Það fyllti okkur eldmóð að sjá hvað hægt sé að gera og bjartsýni þar sem fólk var að lýsa því að fyrir ári síðan hafi það ekki kunnað neitt en núna hafi það náð þessum frábæra árangri. Við teljum að það sé full þörf á svona ráðstefnum fyrir leikskólakennara, það var gaman að heyra af því að kennarar sem hafa unnið saman i gegnum eTwinning í mörg ár voru að hittast í fyrsta sinn.

maí 2009 076Eftir verkefnakynninguna var kynning á Smart borðum frá Smarttech,  www2.smarttech.com  sem er það allra nýjasta á markaðnum og þykir enn betra og heppilegra fyrir yngri börn en Smart töflurnar.

Eftir  kynningarnar fengum við svo tækifæri til að spjalla við aðra þátttakendur og  bjóða upp á flatkökurnar góðu sem höfðu verið í góðu yfirlæti í kæli hjá starfsmönnum hótelsins. Að sjálfsögðu vöktu þær lukku meðal þeirra sem þorðu að smakka þær.

Það var svo gaman að kynnast hinum þátttakendunum og kynnast ólíku menningarheimum þjóðanna.  Okkur finnst við hafa misst af svo miklu við það að missa af upphafi ráðstefnunnar þar sem fólk hittist í fyrsta sinn og var þjappað saman með hópefli.  Þegar við vorum loks komnar á áfangastað var kominn kvöldmatur og aðrir gestir sestir í sæti sem voru ætluð íslenskum þátttakendum og við þar af leiðandi á hálfgerðum hrakhólum. En við vorum svo heppnar að Anna frá Grikklandi sá auman á okkur og tók okkur að sér. Við mælum með að næst þegar farið er í svona ferð að þá hafi þátttakendur meiri tíma heldur en við höfðum til að komast á staðinn. Þegar við loks mættum eftir um það bil 14 tíma ferðalag þá vorum við einfaldlega of þreyttar og þegar við horfum aftur þá er fyrsta kvöldið í hálfgerðri þoku.  Seinkunin sem var á fluginu frá Íslandi til Frankfurt var ekki mikil eða um 20-30 mín en nóg til þess að það fór svona.

Þrátt fyrir það erum við afskaplega þakklátar fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til að kynnast eTwinning og fá að vera þátttakendur á þessari ráðstefnu. Skipulag ráðstefnunnar var í flestum tilfellum til fyrirmyndar og fyrirlesararnir voru einstaklega jákvæðir og tilbúnir að svara spurningum og vera okkur innan handar. Hótelið er að sama skapi hið glæsilegasta og fór mjög vel um okkur.

Takk kærlega fyrir okkur.

Anna Vala Arnardóttir

Katrín Lilja Ævarsdóttir

 


Schoolovision 2009!



Schoolovision 2009! sem Flataskóli tekur þátt í ásamt skólum frá 30 löndum er verkefni mánaðarins í fréttabréfi eTwinning í Evrópu. Verkefnið er stóð aðeins yfir í maímánuði og byggðist þátttakan á því að senda inn myndbönd sem hinir þátttakendurnir gátu skoðað og að lokum sameiginleg kostnin, svipuð og í Evróision, þar sem notaður var fjarfundarbúnað sem er aðgengilegur á netinu.

Í tengslum við verkefnið hélt Flataskóli sína eigin keppni Flatovision! Kennarinn sem stendur fyrir verkefninu í Flataskóla er Kolbrún Svala Hjaltadóttir - en allur skólinn tók þátt!

Ísland náði hvorki meira né minna en 4. sæti í keppninni! Sjá framlag Flataskóla hér.

Sjá framlög allra landanna ásamt upptöku af sameiginlegu "Evróvisionkosningunni" hér.

Sjá almennar upplýsingar um verkefnið hér.

Til hamingju með frábært verkefni!


Góð þátttaka á eTwinning-námskeiði

Fyrir skemmstu stóð landskrifstofan fyrir byrjendanámskeiði í eTwinning fyrir leikskólakennara þar sem farið var í grundvallaratriði varðandi leit að samstarfsaðila, stofnun verkefna og notkun rafrænu kennslustofunnar "TwinSpace".

Námskeiðið fór fram í nýju tölvuveri á Háskólatorgi og tókst vel. Þátttaka var einnig góð, en 30 leikskólakennarar mættu.

Landskrifstofan fer nú yfir reynsluna af námskeiðinu og hyggur á fleiri slíka seinna á þessu ári eða á því næsta.

Kv. Guðmundur

etw_namsk_ht_10_6_09_1litil.jpgetw_namsk_ht_10_6_09_4litil.jpg


eTwinning-byrjendanámskeið fyrir leikskólakennara

10. júní 2008, Háskólatorgi (við hliðina á aðalbyggingu HÍ)

Ekkert þátttökugjald

Námskeiðið hefst stundvíslega kl 8:30 og stendur til 12:00


Efni:
  • Kynning á eTwinning-áætlun ESB og verkefnavinnu
  • Kynning á eTwinning-verkefnum við íslenska leikskóla
  • Kennsla í grundvallaratriðum eTwinning, s.s. Leit að samstarfsaðila, stofnun verkefnis, notkun rafrænu kennslustofunnar TwinSpace
Skráningarfrestur á sjálft námskeiðið er til og með 2. júní næstkomandi. Skráning fer fram rafrænt á þessari slóð.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur I. Markússon: gim@hi.is / 525 5854

Loftslagsbreytingar og eTwinning - Málstofa í Hróarskeldu 26 - 28 mars sl.

Fyrir tæpum tveim mánuðum tók undirritaður þátt í málstofu um loftslagsbreytingar, kenslu og tölvuleiki í Hróarskeldu í Danmörku (Ensk samantekt). Af ýmsum ástæðum hefur það dregist úr hófi fram að segja frá málstofunni og því sem þar fór fram, en betra seint en alldrei. Hugsanlega geta einhverjar af þeim hugmyndum sem þarna komu fram nýttst kenurum næsta vetur.

Sjá má ummfjöllun um málstofuna á neðangreindum tenglum:

http://weblog.emu.dk/roller/internationalt/date/20090326

Opnun málstofunnar ofl.

http://weblog.emu.dk/roller/internationalt/date/20090327

Ýmislegt um málstofuna og áhugaverð verkefni. Mæli sérstaklega með verkefni um matvöru (Flakkebjerg Efterskole) og hitaútstreymi úr húsum. Hvorutveggja góðar hugmyndir að verkefnum hér heima í tngslum við kennslu.

http://weblog.emu.dk/roller/internationalt/date/20090328

http://weblog.emu.dk/roller/internationalt/date/20090329

 Það má segja að þessi málstofa hafi verið fjórþætt. Samkoman leið aðeins fyrir það þar sem þáttakendur höfðu mismunandi markmið með þáttökunni.

1. Breytingar á loftslagi jarðar. Nokkuð af umfjölluninni tengdist þessu með beinum hætti. Lýst var skólaverkefnum sem tendust loftslagsbreytingum beint s.s. orkunotkun, mengun, breytingum á vistkerfi og breytingum á lífsstíl.

2. Notkun tölvuleikja við kennslu. Lýst var, m.a. með sýnikennslu, hvernig nota mætti tölvuleiki til að virkja nemendur og láta þá beita kunnáttu og þekkingu við lausn mála í leik. Nokkrir mjög áhugaverðir leikir sýndir m.a. SPORE ( www.eagames.co.uk ) sem tekur fyrir þróun lífsins frá einni frumu til stórra dýra. Einnig má benda á vefninn http://www.co2nnect.org/ en þar kennir ýmissa grasa um efni tengt loftslagsbreytingum, losun gróðurhúsalofttegunda og hátterni einstaklingsins í því sambandi. Hér eru svo nokkrir tenglar á tölvuleiki sem tengjast loftslagsbreytingum:

 
 
Launch Ball: Td. hita upp ís eða afl gufu. Hægt að hanna eigin leiki.
 
Energy Games: Leikir um orku, hlýnun Jarðar og loftslagsbreytingar.
 
Climate Change Heroes: Spurningaþraut fyrir ung börn.
 
Climate Change Knowledge:  Spurningaþraut fyrir börn.
 
Future Energy: Ýmiskonar stoðtæki fyrir kennara og hugmyndir að verkefnum í skólastofu.

 

3. Pörun/hópamyndun. Nokkrum tíma var varið í myndun tengsla og tengslanets. Undirritaður er enn að vinna úr mögulegum tengingum og væntanlega blogga eithvað um það síðar í sumar eðaí haust þegarnær dregur nýju skólaári. Eitt áhugavert verkefni tengist fiskirækt og því að bæta hrygningarskilyrði laxfiska í grunnum ám. Frumkvöðullinn er Franskur skóli (16 - 18 ára nemendur).

4. Vinnustofa um tölvuleik um áhrif loftslagsbreytinga, The Climate Mystery. Leikurinn er í vinnslu og á að verða tilbúinn til notkunar í kennslu í haust í tengslum við loftslagsráðstefnu SÞ í Kaupmannahöfn í desember 2009.Vinnustofan fólst í að ræða hugmyndir sem framleiðendur hafa um þróun leiksins og hvernig einstakir þættir hans gætu nýst í kennslu. Engar sérstakar niðurstöður er enn að hafa varðandi þennan leik en efni hans er áhugavert.

 

FSu á vordögum 2009

Úlfur Björnsson

Kennari í Landafræði, Jarðfræði og Umhverfisfræðum.


eTWINNING-VINNUSTOFA Í REYKJAVÍK 26.-28. ÁGÚST

Notkun stuttmynda í kennslu samfélagsfræði og norræna mála í samhengi eTwinning

UMSÓKNARFRESTUR og SVÖR:
Til og með 31. maí næstkomandi. Umsóknir verða metnar í byrjun júní og svör sendar út fyrir miðjan júní.

Fyrir hverja er vinnustofan?

  • EKKI er krafist reynslu af eTwinning til þess að taka þátt.
  • Aldur nemenda: Kennarar í efstu efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla - þ.e. nemenda á aldrinum u.þ.b. 13-19 ára.
  • Kennslufög: Fyrir samfélagsfræðikennara OG kennara í dönsku EÐA öðrum norðurlandamálum.
  • Þátttakendur koma frá öllum Norðurlöndunum.
  • Fjöldi íslenskra kennarar: Pláss fyrir a.m.k. 10 íslenska kennara.

Tungumálakunnátta þátttakenda:
Vinnustofan fer fram á dönsku, norsku og sænsku. ALLIR þátttakendur verða því að tala a.m.k. eitt þessara mála og hafa þokkalegan skilning á hinum.

Ráðstefnugjald og hótel -- greitt af landskrifstofu:
Ráðstefnugjald sem inniheldur uppihald verður greitt af landskrifstofu. Hótel fyrir þá sem vilja verður einnig greitt af landskrifstofu.

Þema:
Notkun kvikmynda í kennslu samfélagsfræði og norðurlandamála í samhengi eTwinning.

Nánari upplýsingar um innihald vinnustofunnar:

  • Dagskráin mun samanstanda af bæði fyrirlestrum og hagnýtum vinnustofum.
  • Ætlunin er að kynna notkun norræns kennsluefnis sem gefið hefur verið út undir heitinu Norden i Bio af Norrænu félögunum.
  • Einnig verður kynnt hvernig kennarar og nemendur geta sjálfir gert einfaldar stuttmyndir eða örmyndir (tekið upp, klippt og sett út á vefinn).
  • Allt verður þetta gert í samhengi eTwinning og hvernig nota megi efnið í eTwinning-verkefnum.
  • Einnig verður farið í grundvallaratriði eTwinning.
  • Dagskrá er í vinnslu og verður auglýst síðar.


UMSÓKNIR eru sendar inn á þessari slóð:
http://spreadsheets.google.com/viewform?formkey=cmJhdml6NlpTY2hDX1Zvdk9UbW9hN1E6MA

UMSÓKNARFRESTUR og SVÖR:
Til og með 31. maí næstkomandi. Umsóknir verða metnar í byrjun júní og svör sendar út fyrir miðjan júní.

Almennt um eTwinning:
eTwinning er áætlun ESB um rafrænt skólasamstarf (þar sem kennarar og nemendur vinna einföld verkefni með samstarfsskólum í Evrópu yfir Internetið).
www.etwinning.is
www.etwinning.net

Um Norden i Bio:
www.nordenibio.org/?bits=D198&lang=is&menu=2008

Guðmundur Ingi Markússon
Landskrifstofu eTwinning á Íslandi


eTwinning-málstofa (Professional Development Workshop) í Varsjá, 15.-17. maí 2009 (föstudagur til sunnudags)

Málstofan er ætluð leikskólakennurum sem sinna nemendum á aldrinum 3 til 6 ára.

Nánari upplýsingar og dagskrá er að finna á þessari slóð.

Á eTwinning-málstofur kemur fjöldi kennara víðsvegar að úr Evrópu.

Landskrifstofan getur sent 2 kennara frá Íslandi, og greiðir ráðstefnugjald, flugfargjald, gistingu og grunndagpeninga á ferðadögum.

Umsækjendur þurfa ekki að vera skráðir þátttakendur í eTwinning.

Skráningarfrestur er til og með 15. apríl.

RAFRÆNT SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ.

Íslenskur skóli í 2. Sæti Evrópuverðlauna eTwinning

Verkefni sem Fjóla Þorvaldsdóttir, Leikskólanum Furugrund hreppti 2. sætið í flokki stærðfræði- og vísindaverkefna.

Árleg ráðstefna eTwinning var haldin í Prag, 13. til 15. febrúar síðastliðinn og var sett af Ján Figel, yfirmanni menntamála hjá framkvæmdastjórn ESB, og menntamálaráðherra Tékklands, Ondřej Liška. Yfir fjögur hundruð kennarar og fulltrúar eTwinning allsstaðar að úr Evrópu sóttu ráðstefnuna, þar á meðal sjö manns frá Íslandi. Dagskráin var glæsileg og af ræðumönnum má m.a. nefna hinn þekkta fræðimann Edward De Bono.

Verkefni sem Fjóla Þorvaldsdóttir, Leikskólanum Furugrund, tekur þátt í ásamt ellefu skólum frá níu Evrópulöndum hreppti 2. sætið í flokki stærðfræði- og vísindaverkefna í samkeppni um Evrópuverðlaun eTwinning. Tvö önnur verkefni, sem Leikskólinn Bakki og Öskjuhlíðarskóli eru þátttakendur í, komust í undanúrslitahóp 22 verkefna. Það verður að teljast frábær árangur að þrjú verkefni með íslenskri þátttöku hafi náð í undanúrslitahóp 22 verkefna í keppni sem spannar allt evrópska Efnahagssvæðið.

Verkefni Furugrundar nefnist 1, 2, Buckle my shoe og taka elstu leikskólabörnin þátt. Í verkefninu er unnið með ákveðið þema í hverjum mánuði, t.d. talnaskilning, rými, o.s.frv. Afrakstur þessa glæsilega verkefnis má skoða á heimasíðu þess:

http://twinmath.wikispaces.com

Á myndinni eru fulltrúar verkefnisins í Prag. Fjóla er lengst til vinstri.

 

 

 


eTwinningráðstefna í Prag 13. - 15. febrúar 2009

Helgi Hólm skrifar

Mér bauðst það ágæta tækifæri að fara á Evrópuráðstefnu um eTwinning sem haldin var í Prag dagana 13. - 15. febrúar s.l. Þetta var mjög stór og vel uppsett ráðstefna með um 400 þátttakendum hvaðanæva að úr Evrópu (sjá http://etwinning.net ). Við vorum sjö íslensku þátttakendurnir. Tveir starfsmenn Alþjóðaskrifstofu: Guðmundur I. Markússon og Rúna Guðmarsdóttir. Fimm kennarar: Halla Jónsdóttir, Leikskólanum Furugrund, Kópavogi. Sonja Jónasdóttir, Leikskólanum Sólbrekku, Seltjarnarnesi. (Sigrún Árnadóttir, Menntaskólanum á Egilsstöðum - forfallaðist), Hilda Torres, Verslunarskóla Íslands. Helgi Hólm, Stóru-Vogaskóla, Vogum og Fjóla Þorvaldsdóttir Leikskólanum Furugrund í Kópavogi en hún bættist í hópinn því verkefni sem hún var þátttakandi í varð tilnefnt til verðlauna sem veitt voru á ráðstefnunni. Eins og áður sagði var ráðstefnan vel skipulögð og skiptist hún að mestu í þrjá þætti. 1) Fyrirlestar 2) Vinnustofur. 3) Kynningarbásar þátttökuþjóða.

Margir ágætir fyrirlestrar voru fluttir og fjölluðu nokkrir þeirra um sjálft eTwinningstarfið. Aðalfyrirlesari ráðstefnunar var Edward De Bono (http://www.edwdebono.com/) og fjallaði hann um hugsun manna og þörfina á því að kenna fólki að hugsa. Er óhætt að segja að hann hafi átt athygli ráðstefnugesta óskipta meðan á fyrirlestri hans stóð. Í vinnustofunum var fjallað um margvísleg efni svo sem hvernig hægt væri að nota eTwinning verkfæri í uppeldislegu tilliti, eTwinning og öryggi á netinu og samskipti milli skóla svo eitthvað sé nefnt.

Á ráðstefnusvæðinu voru settir upp 30 - 40 básar þar sem hver þátttökuþjóð setti upp kynningu á viðkomandi landi og þeim verkefnum sem verið var að vinna með. Einnig voru básar þar sem fór fram sameiginleg kynning á verkefnum sem unnin voru af mörgum löndum en eTwinning verkefni geta verið bæði unnin af tveimur skólum eða þá allt upp í 100 skólum í mörgum löndum. Það verkefni sem undirritaður er með í nefnist A Living Map of Europe og eru einir 80 skólar með í því verkefni. Það gafst ágætur tími til að fara um sýningarsvæðið og ræða við þá fjölmörgu sem þar voru að kynna sig. Er ekki vafi á að þessi þáttur ráðstefnunnar er mjög mikilvægur og stuðlar efalaust til kynna sem aftur leiða til samstarfs í framtíðinni.

Það er ekki hægt að ljúka við þessi skrif án þess að minnast á Prag. Íslenski hópurinn var mættur nægilega snemma á staðinn til að geta skoðað borgina og að loknum nær þriggja tíma göngutúrs um kastalasvæðið, Karlsbrúna og gamla bæinn þá sitja eftir skemmtilegar minningar um fallega og skemmtilega borg. Og skemmtiatriðin á lokakvöldinu munu seint renna úr minni. Mjög góðum ferðafélögum er þökkuð samfylgdin og ánægjuleg samvera.

eTwinning-málstofa (Professional Development Workshop) í Hróarskeldu 26.-28. mars 2009

Á málstofuna (Professional Development Workshop) kemur fjöldi kennara víðsvegar að úr Evrópu.

Málstofan er helguð loftslagsmálum og tengist þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldið verður í Danmörku á hausti komandi.

Markhópurinn miðast við kennara í unglingadeild grunnskóla og framhaldsskóla, þ.e. þeir sem kenna nemendum á aldrinum13 ára og upp úr.

Nánari upplýsingar um málstofuna á þessari slóð.

Landskrifstofan getur sent 1 kennara frá Íslandi, og greiðir ráðstefnugjald, flugfargjald, gistingu og grunndagpeninga á ferðadögum.

Umsækjendur þurfa ekki að vera skráðir þátttakendur í eTwinning.

Skráningarfrestur er til og með 17. febrúar.

SKRÁNINGAREYÐUBLAÐ

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband