Mánudagur, 4. júní 2018
eTwinning ráðstefna í Róm maí 2018
eTwinning ráðstefna í
Róm, maí 2018
13.maí lögðum við fimmmenningarnir ég (Elín Þóra Stefánsdóttir), Helga María Guðmundsdóttir, Flataskóla, Kristín Helgadóttir, Leikskólanum Holti, Svava Bogadóttir, Stóru-Vogaskóla og Guðmundur I. Markússon frá landskrifstofunni af stað frá Keflavík. Flugið gekk allt eins og í sögu og lentum við í Róm þar sem stór leigubíll beið okkar. Flugvöllurinn er aðeins um 14km fyrir utan borgina og var því gott að sjá fyrir sér hótelrúmið eftir langan ferðadag.
Þegar leigubíllinn renndi upp að hótelinu kom starfsmaður hlaupandi út og sagði að við þyrftum að fara á annað hótel í sömu keðju. Leigubílstjórinn skutlaði okkur þangað og leist okkur ekkert sérlega vel á aðkomuna, þröngt og dimmt húsasund, en fórum samt inn. Þar kannaðist enginn við neitt. Þar sem að klukkan var orðin um eitt ákváðum við að gista þarna eina nótt og sjá til um morguninn.
Morguninn kom í ljós að leigubílstjórinn hafði farið með okkur á vitlaust hótel. Við röltum því yfir á rétta hótelið sem var í göngufæri.
Þennan dag höfðum við dálítinn tíma til að skoða okkur um í borginni, við vorum jú alveg í miðbænum og ekki langt að ganga milli áhugaverðra staða. Hlutirnir sem við skoðuðum voru Pantheon, sem er elsta heila bygging í Róm, kirkja og sögulegt grafhýsi, Colosseum, Rómönsku minjarnar og fleira.
Eftir hádegið hófst svo ráðstefnan og var yfirskrift hennar
Eflum eTwinning skóla: Leiðum, lærum og deilum og stóð hún yfir 14.-16. maí
Ráðstefnan var fyrst og frems fyrir þá skóla sem hlotið hafa viðurkenninguna eTwinning skóli, en hún byggist á öruggri netnotkun og breiðri þátttöku í eTwinning og alþjóðasamstarfi, þ.e. að þátttakan byggi ekki á framtaki einstakra kennara heldur sé markviss, njóti stuðnings skólastjórnenda og nái til fjölda nemenda. Í vor hlutu 1211 evrópskir skólar þennan titil, en aðeins fjórir á Íslandi. Að gerast eTwinning skóli er liður í skólaþróun. Fyrir utan að eflast enn frekar í notkun upplýsingatækni og alþjóðasamstarfi hafa eTwinning skólar tækifæri til að styrkja starfsþróun kennara og skólastjórnenda auk alþjóðatengsla skólans.
Um 250 manns af 35 þjóðernum tóku þátt á ráðstefnunni, flestir skólastjórnendur.
Ráðstefnan hófst á því að við vorum boðin velkomin af yfirvöldum menntamála á Ítalíu. Þar talaði m.a. Sara Pagliai sem er yfirmaður Erasmus +. Hún lagði mikla áherslu á að komið verði inn Evrópuvitund hjá grunnskólanemendum . Cécile Le Clercq frá Evrópsambandinu sagði að með nýrri áætlun kæmi a.m.k. helmingi meira fjármagn til samskiptaverkefna.
Á ráðstefnunni voru þrír aðalfyrirlestrar:
Patricia Wastiau er aðalráðgjafi rannsókna hjá, European Schoolnet í Brussel. Hennar fyrirlestur hét ,,Shared Leadership: a mindset and tool to empower eTwinning schools. (Sameiginleg stjórn: hugsunarháttur og tól til eflingar etwinningskóla) Hún talaði um að það væru ekki bara skólastjórnendur sem væru leiðtogar í skólunum, heldur hver sá sem leggur krafta sína í þróun í skólastarfi.
Annar fyrirlesari var Paul Downes, aðstoðarprófessor í menntunarsálfræði, og stjórnandi Educational Disadvantage Centre, Dublin City University. Hans erindi hét ,,Developing a whole school approach for promoting inclusive systems in and around schools: Some issues
for eTwinning? (þróun á nálgun skóla á vellíðan og vilja barna til að stunda frekara nám). Þar ræddi hann um brottfall nemenda úr skólakerfinu vegna svefnleysis, eineltis og brotinnar sjálfsmyndar vegna lélegra einkunna. Hann vitnaði í íslenska rannskókn þar sem kemur fram að íslendingar séu mjög seinir miðað við aðrar þjóðir að bregðast við brottfalli. Hann sagði að eTwinning hjálpaði nemendum að tengjast út í veröldina, yki lýðræði og leið til að tjá sig. Sameiginlegt skólum sem eru með lítið brottfall er að þar eru gerðar miklar væntingar til nemenda og auk þess er þar mikið lýðræði.
Angelo Paletta, aðstoðarprófessor við Department of Management, Università di Bologna, var þriðji fyrirlesarinn. Hans erindi hét Distributed Leadership, school improvement and student learning. (leiðtogastöðum skipt upp, framfarir í skóla og lærdómi nemenda).
Öll þessi erindi voru mjög áhugaverð og þess virði að skoða greinar eftir þetta fólk eða hlusta á þá eigir þú kost á því.
Á ráðstefnunni voru líka 20 mismunandi vinnustofur, þar voru lítil erindi og síðan vann fólk saman í litlum hópum. Þessum vinnustofum var skipt upp í fjórar lotur þ.a. hver og einn gat einungis valið fjórar vinnustofur. Í þessum vinnustofum nær fólk gjarnan að mynda tengsl við einstaklinga í Evrópu sem oft leiða til frekari samvinnu síðar meir.
Einn af síðustu liðunum voru pallborðsumræður þar sem sátu fyrir svörum kennarar, aðstoðarskólastjórar og skólastjórar sem allir höfðu eTwinning að ástríðu og höfðu sumir verið með frá upphafi 2005. Sérstaklega þótti mér tilfinningarþrungið að heyra Laura Maffei ítalskan kennara segja frá baráttu sinni fyrir eTwinning innan skólans og öllum þeim steinum sem hún þurfti að velta frá á veginum.
Helstu skilaboð ráðstefnunnar voru að skólastjórnendur séu í lykilstöðu til þess að efla þátttöku skóla í eTwinning; að leiðtogahlutverk verði að vera dreifð og verði að byggjast á öllum skólanum, frá nemendum, kennurum og stjórnendum (shared/distributed leadership); að lokum hvatti Anne Gilleran, stjórnandi kennslufræða eTwinning, fulltrúa skólanna til dáða: eTwinning skólar munu breyta kerfinu.
Heim ferðin gekk að óskum með þremur flugum og lestar og rútuferðum mlli flughafna í London.
Elín Þóra Stefánsdóttir, etwinningsendiherra.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.