Mánudagur, 27. nóvember 2017
eTwinningvinnustofa í Levi í Lapplandi 22.-25.11.2017
Undirrituðum bauðst að taka þátt í eTwinningvinnustofu sem fór fram í Hotel Levi Panorama and conference center Levi í Lapplandi í Finnlandi. Megin markmið vefstofunnar var forritun með börnum 4-7 ára og gefa kennurum tækifæri á að mynda tengsl við aðra kennara í leik- og grunnskólum í Evrópu með það í huga að stofna til eTwinningsverkefnis.
Það var heilmikið ferðalag að komast á áfangastað. Samtals tók ferðalagið 13 klst. Skipuleggjendur tóku vel á móti okkur og rætt var um dagskrá næstu daga og farið í smá forritunarleik.
Dagskráin hófst svo daginn eftir fimmtudaginn 23. nóvember á því að Yrjo Hyötyniemil bauð alla velkomna og fór yfir dagskrá vinnustofunnar næstu þrjá daga. Það voru 39 þátttakendur í vinnustofunni, flestir frá Ítalíu og Finnlandi.
Yrjo sagði einnig frá Lapplandi og umhverfinu í Levi. Lappland er mjög norðarlega og þess vegna er mjög dimmt á þessum árstíma. Sólin skýn ekkert og því er dimmt allan sólarhringinn. Byggðin var mjög einangruð hér áður og bændasamfélag Sama ríkti hér. Fólk lifði á fiskveiðum úr vötnum og ræktaði hreindýr. Fólk fylgdi hjörðinni eftir á milli beitarsvæða.
Þátttakendur kynntu sig, skólann sinn og hvaða aldri þeir eru að kenna. Einnig sögðu þeir frá reynslu sinni af eTwinningverkefnum. Þá var haldið hraðstefnumót, þar sem Ítalir röðuðu sér á borðin og við hin fórum á milli á 3 mín. fresti og kynntum hugmyndir okkar að verkefnum. Þetta var bæði áhugavert og árangursríkt. Eini gallinn var sá að við kynntumst ekki hinum Norðurlandabúunum eins og við hefðum viljað.
Þá var komið að Niinu Pietikäinen frá uppbyggingu ferðaþjónustu í Levi. Í fyrstu voru þau fjölskyldan talin galin að halda það að einhver hefði áhuga á að koma til Lapplands á veturna. En þetta gekk upp, ferðafólk kemur og það er nóg að gera hjá þeim. Þau leggja mikið upp úr gæðum og þau selja skíðaaðstöðuna og norðurljósin mest. Ferðamönnum finnst gaman að hafa tækifæri á að ferðast á hundasleðum. Þau selja líka þann möguleika að komast í hvíld frá hinni stafrænu veröld, algera hvíld. Undanfarin ár leggja þau líka áherslu á umhverfisvernd og þau eru að markaðssetja núna hótelið sem ráðstefnuhótel fyrir skólafólk sem vill koma frá öðrum löndum og kynna sér skólastarf í Finnlandi. Niina sagði frá sérstöðu þeirra og hvað gestir eru ánægðastir með. Núna eru þau að ræða um hvernig megi glæða ferðaþjónustuna á sumrin. Núna eru ferðamenn um 600 þús. á ári og er aðalatvinnuvegurinn hér á þessum slóðum.
Eftir hádegisverð ákváðum að sýna myndbandið a-ö um Ísland og var það mjög vel lukkað og allir ánægðir með okkur. Við settum svo vefslóð myndbandsins inn á TwinSpace svæði vinnustofunnar.
Þá var haldið áfram og komið að Alessöndru Serra frá Ítalíu. Alessandra er kennsluráðgjafi í hálfu starfi og kennari í grunnskóla hálfan daginn. Alessandra sýndi áhugaverð atriði úr kvikmyndinni Appollo 13 þar sem lausnin var fundin með forritun. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að við vitum ekki hvaða vandamálum börnin í leikskólanum í dag standa frammi fyrir í framtíðinni, líklegast er talið að þau muni þurfa á forritunar hæfileikum að halda. Hún fór vítt yfir og svo nálgaðist hún forritun í leikskólum. Hún talaði um hvað börnin eru að læra með notkun BeeBot. Börnin eru að skapa, það er mikil sköpun í forritun. Við þurfum að gera börnin virk og gagnrýnin á tækni. Þau þurfa að læra að þau geta haft áhrif á það sem þau eru að gera í tækjunum. Alessandra lét okkur vinna að verkefni þar sem við þurftum að leysa það hvernig við gætum komið A4 blaði yfir höfuð og axlir og helst tíu saman í einu. Hún lagði mikla áherslu á að hópurinn talaði saman og reyndi að finna lausnina sameiginlega. Okkur tókst að leysa þetta verkefni, það var krefjandi, en skemmtilegt að taka þátt í þessu.
Þá var komið að Sari Auramo sagði okkur frá því um hvað eTwinning snýst. Sari hefur gífurlega reynslu af eTwinning, hún sagðist hafa tekið þátt í um 60 verkefnum síðustu ár og er í dag þátttakandi í 4 verkefnum. Hún sagði frá því hvernig maður ber sig að ef mann langar til þess að taka þátt í eTwinningverkefni. Hún lagði svo áherslu á hvernig er hægt að búa til verkefni fyrir ung börn. Hún var með fjölmörg dæmi um söng og leiki sem hægt er að taka upp og senda til annarra þátttakenda. Börnin hafa gaman af því að heyra ólík tungumál. Hreyfileikir eru góðir t.d. Í svona verkefni, þar sem skólar sýna mismunandi hreyfileiki hver öðrum. Sýndi dæmi um hringleik frá Búlgaríu. Litlu börnin geta líka teiknað, klippt og límt. Allir geta sent blóm til hinna skólanna. Svo safnast saman blóm í hverjum skóla. Safna fánum landanna á tré, ljósmynda, enskukennsla, vísindi og fl.. Skypesamtöl milli landa. Deila með öðrum er lykilatriði.
Tiziana Cippitelli sagði næst frá eTwinningverkefni, Il pensiero computazionale tra gioco e didattica-El pensamiento computacional entre juego y didáctica- Pensamento computacional
jogo /aprendizagem sem hún fékk verðlaun fyrir á Ítalíu í síðustu viku. Þátttakendur voru frá þremur löndum, Ítalíu, Spáni og Portúgal og hver um sig setti inn verkefni á eigin tungumáli. Kennarar létu það ekki trufla sig að þeir tala litla ensku. Þau notuðu upplýsingatækni mikið í verkefninu. Frá þeim er hægt að fá margar góðar hugmyndir í vinnu með BeeBot á skapandi vegu. Þau spiluðu m.a. myllu með legokubbum. Verkfærin til forritunar var misjöfn eftir aldri barnanna. Yngstu börnin unnu í gegnum skynjun og notuðu skapandi efni (skeljar, keilur, kefli, klemmur, pappírshólka og fl.) til þess að vinna með. Þau gerðu sjálf mynstur og fl. Þriggja ára börnin notuðu t.d. Íþóttir til að vinna með hugtökin, yfir/undir, niður/upp. Unnið á reitum á gólfinu þar sem þau sögðu hvort öðru fyrir verkum, forrituðu á þann hátt. Fjögurra ára börnin unnu að lausnarleit og með liti, form og forritun með BeeBot. Fimm ára börnin byggðu á fyrri þekkingu, notuðu leiki og verkfæri til að þróa þekkingu og hæfni. Kennararnir útbjuggu og prentuðu út QR kóða frá hinum þátttökulöndunum og börnin skönnuðu þá til að sjá hvað á baki þeim lá. Þar var eitt og annað t.d. mynd af fánum og fl.. Kennarar notuðu m.a. padlet til að miðla því sem þau gerðu í smáforritinu Scratch JR. Þau fengu að senda þannig sögur til hinna landanna. Sögur um hest, svín og fisk sem búin var að forrita í Scratsch JR. Kahoot spurningarleikurinn var notaður til að kanna skilning barna.
Í gegnum eTwinningverkefni hafa börnin fengið tækifæri til að uppgötva með öðrum börnum annarra landa forritun og fengið að kynnast verkfærum eins og BeeBoot o.fl. Lokaverkefnið var að safna myndum eftir börnin, setja í möppu og færa jólasveininum hér í Lapplandi.
Eftir kaffihlé fjallaði Sari um ýmis tól og tækni sem hægt er að nota í eTwinningverkefnum. Fyrirlesturinn var undanfari tveggja vinnustofa sem framundan voru.
Í þeirri fyrri sem við sóttum kenndi Sari Auramo á smáforritið ScratchJR. Siri fór mjög nákvæmlega yfir notkunarmöguleika forritsins og var mjög auðvelt að fylgja henni eftir. Þar sem Fjóla kunni fyrir og hefur notað forritið aðstoðaði hún Guðrúnu og lánaði iPadinn sinn til annarra sem ekki voru með. Guðrún var fljót að komast upp á lag með forritið og fannst mjög gaman að kynnast því.
Í seinni vinnustofunni var Alessandra með tvær þrautir sem við áttum að leysa. Fyrst áttum við að búa til ferning og tvo þríhyrninga úr 10 íspinnaspítum og 7 klemmum. Við leystum það verkefni auðveldlega. Svo átti að búa til turn úr spaghetti, snærisspotta, límbandi og einum syrkurpúða. Turninn átti að verða 1 metra hár. Þetta var ekki auðvelt verkefni, en við reyndum.
Þá var komið að Tiziana Cippitelli að kenna okkur á BeeBot og sýndi hún möguleikana á því að nota býfluguna með sögugerð og myndum á gólfi eftir börnin. Þannig átti í fyrsta leiknum að láta BeeBot fara og bjarga prinsessu úr kastala, en fara þurfti framhjá dreka á leiðinni. Við sýndum í beinni útsendingu frá þessum viðburði á Fésbók.
Daginn eftir föstudaginn 24. nóvember hóf Yrja daginn á nokkurum praktískum atriðum og svo hófst dagskráin.
Giulia Felice útskýrði um hvað eTwinnigverkefni snúast. Hún sagði að verkefni geti verið eins og mataruppskrift. Hún fór yfir nokkur góð ráð við gerð eTwinningverkefnis og sagði m.a.
Hugsið um:
-nemendur (þarfir, það sem hentar þeim)
-skólann (skólanámskrá, tækni og verkfæri sem við höfum, samkennara)
-tími (dagskipulag skólans, stundaskrá, deild, eigin tími)
-eigin eiginleika (áhugamál, vilja)
Áhrif á:
-TwinSpace uppbyggingu
-Mat og umræðu, virkni
-Skráningar verkfæri
Gott verkefni verður til með góðri samvinnu svo bjóddu þig fram, þetta er okkar verkefni (ekki einhvers eins)
Síðast en ekki síst sagpi hún okkur að hafa verkefnið stutt og einfalt, ekki vera of margir samstarfsaðilar, ekki gera of stórt verkefni (3-4 skólar best)
Alexandra Tosi fór yfir hvers vegna eTwinningverkefni eru mikilvæg, en þau eru það fyrir nemendur, aðallega er þá ávinningurinn fjölbreytni í kennsluháttum, upplýsingatækni og víðsýni. Fyrir kennara, vegna starfsþróunnar, víkka tengslanetið, auka hæfni í upplýsingatækni o.fl.
Farið var yfir nokkur góð atriði við skipulagningu verkefna og notkun TwinSpace og kennt að nota svæðið. Stofna verkefni og þau verkfæri sem eru í boði inni á svæðinu.
að því loknu var farið í hópa, þátttakendur söfnuðust saman og leituðu fyrir sér að samstarfsaðilum. Báðum tókst okkur að finna samstarfsaðila sem voru fúsir til að nota forritun á skapandi hátt í leikskólum.
Fjóla stofnaði verkefnið Hugrakkir krakkar læra forritun, Brave Children Learning to Code ásamt þremur kennurum frá Ítalíu og einum frá Litháen. Í þessu verkefni ætlum við að kenna börnum að forrita í gegnum listir, landafræði, læsi, daglegt starf, náttúru, hátíðir o.fl.. Við ætlum einnig að kynna fyrir börnunum lífið í mismunandi löndum, menningu og áhugaverða staði. Við leggjum áherslu á skapandi vinnu á margvíslegan hátt. Kennararnir munu efla getu sína til þess að vinna með upplýsingatækni og læra af hver öðrum og börnunum. Þeir munu deila með sér hugmyndum og verða hæfari kennarar.
Guðrún stofnaði verkefnið: Máttur forritunar, The power of coding ásamt tveimur kennurum frá Ítalíu og Noregi. Í verkefninu er markmiðið að kenna börnum lausnamiðaða hugsun í gegnum forritun. Börnin fá tækifæri til að kynnast forritun með fjölbreyttum hætti. Ætlunin er að hefjast handa við verkefnið strax í nóvember með kynningu til að brjóta ísinn er ætlunin að kynnast jólahefðum samstarfslandanna. Senda jólakort, deila myndböndum af börnunum syngja hefðbundin jólalög o.fl. sem tengist jólahefðum landanna.
Seinnipartinn þegar verkefnavinnunni var lokið fórum við svo niður hlíðina með kláfi og gengum um litla þorpið. Það var mjög jólalegt úti og við fórum inn í nokkrar minjagripabúðir og settumst niður á kaffihús. Síðan hittum við aðra félaga okkar í bænum og röltum með þeim á hótel þar sem við áttum að vera mætt kl. 18. Þar var okkur komið skemmtilega á óvart þegar allt í einu birtist Sami með trommuna sína og söng fyrir okkur og fylgdi okkur út í garðinn. Þar var gengið niður í jörðina á veitingastað sem var í líkingu við Samatjöld eins og þau voru í denn. Í miðju tjaldinu var opinn eldur og verið að elda kvöldverðinn. Við fengum mjög góðan mat (hreindýr og lax) og í lok máltíðar söng Saminn fyrir okkur nokkur lög. Þetta var skemmtileg og áhugaverð reynsla sem fer í minningabankann.
Eftir morgunverð laugardaginn 25. nóvember kynntu þátttakendur verkefnin sín. Verkefnin voru mjög fjölbreitt og verður áhugavert og fræðandi að fylgjast með þeim á vorönninni. Eftir kynningarnar var svo haldið heim á leið. Við kvöddum nýja vini með fyrirheitum um að halda sambandi í Netheimum.
Þátttakan í þessari eTwinning vinnustofu var ánægjuleg í alla staði og erum við afar þakklátar fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Við komum til með að nýta okkur þá þekkingu og færni sem við lærðum í vinnustofunni í framtíðinni. Þátttakan var ekki hvað síst gjöful hvað varðar félagslega þátttöku, það var sérlega ánægjulegt að kynnast kennurunum sem tóku þátt og við erum vissar um að vináttan eigi eftir að haldast.
Takk fyrir okkur
Fjóla Þorvaldsdóttir og Guðrún K Reynisdóttir
Hér má sjá myndband frá vinnustofunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.