Ferðasaga frá Newcastle

eTwinning tengslaráðstefna um læsi í Newcastle dagana 25.-27. maí 20107
Um 65 kennarar frá 17 löndum komu saman til að læra um etwinning og hvernig etwinning samstarf getur stutt við læsi á margvíslegan hátt.

Ferðalagið okkar hófst degi fyrr þar sem við flugum til Edinborgar og tókum þaðan lest til Newcastle. Ferðalagið var smá bíó þar sem óprúttnir aðilar höfðu stolið vírnum sem rafknýr lestina og urðum við því að bíða í nokkra klukkutíma á lestarstöðinni og í lestinni með þeim afleiðingum að við sátum á gólfinu í lestinni í stað þess að fá sætin okkar. En þar sem við ferðafélagarnir vorum að hittast í fyrsta sinn náðum við að kynnast vel á þessum tíma. Þegar á hótelið var komið komum við okkur fyrir og fórum snemma að sofa til að taka á móti nýjum degi fagnandi.
Á fimmtudeginum hófst síðan tengslaráðstefnan með kynningu, fyrirlestrum og hópeflisleikjum. Þetta byrjaði strax allt á persónulegum nótum og var þannig allan tímann sem varð til þess að við kynntumst vel. Vitanlega í þessum fjölda þá urðu nokkrir hópar, en sá hópur sem við lentum í var fjölbreyttur, skemmtilegur og frá hinum ýmsu löndum. Gaman var einnig að lenda í hóp með einum heimamanni sem fór síðan með okkur smá rúnt um bæinn sem vakti mikla lukku. Hópeflis leikirnir voru vel skipulagðir með tvennslags markmið. Í fyrsta lagi að kynnast mörgum á sem skemmstum tíma og að fá hugmynd um það sem aðrir höfðu hugsað sér í verkefnavali. Þetta var vel rammað inn og stóðust allar tímaáætlanir. Uppi stóðum við með mörg tilboð um ýmis verkefni.
Þegar heim var komið vorum við komin í sambönd víða um heim og með verkefni ásamt því að vera komin með tengiliði sem hægt væri að setja sig seinna meir í samband við.

Bestu kveðjur,

Anna Rós Finnsdóttir og Inga María Friðriksdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband