PDW fyrir eTwinning sendiherra í Ródos, Grikklandi , 29. sep - 1. okt 2016

Guðný Ester og Kolbrún Svala lögðu land undir fót um síðustu mánaðarmót september/otkóber og flugu til Ródos í Grikklandi til að taka þátt í evrópskum vinnubúðum fyrir “ambassadora” eða sendiherra í eTwinning. Þarna voru um 180 manns samankomnir frá flestum Evrópulöndunum til að fræðast, deila reynslu og vinna saman. Markmiðið með vinnubúðunum var að hittast og fara yfir verkferla og verkfæri sem hægt er að nota til að aðstoða kennara við að taka þátt í rafrænum samskiptaverkefnum. Fjórar vinnulotur voru í boði frá fimmtudegi til laugardags með 6 vinnustofum í hverri og alls var hægt að velja á milli 16 vinnustofa en sumar voru endurteknar. Áhersla var lögð á að þátttakendur ynnu saman í misstórum hópum og skiptust á skoðunum um hvernig þeir ynnu í sínum heimalöndum og hvernig þeim tækist að fá fólk til að taka þátt í rafræna samstarfinu. Við komum heim með margt í farteskinu sem við höfum hug á að nýta okkur við að aðstoða okkar fólk hér á landi.

gudnykolla

Það var mjög notalegt að hitta allt þetta áhugasama fólk sem vinnur á sama sviði og við og hefur það markmið að nýta sér tækni 21. aldarinnar til að vinna rafræn skólaverkefni á netinu. Það var fróðlegt að heyra að við eigum öll við sama vandamál að glíma, þ.e.a. að fá kennara til að taka þátt í rafrænu skólasamstarfi, fá þá til að prófa að taka þátt og sannfæra þá um kosti samvinnunnar og að þetta eigi ekki að vera einhver aukavinna fyrir heldur að þetta sé eitthvað til þess að samþætta við aðra kennslu og auka fjölbreytni kennsluhátta. Vangaveltur voru um hvernig hægt væri að aðstoða kennara frekar og vekja áhuga þeirra á þessum þætti skólastarfsins. Fengum við ýmsar góðar ráðleggingar með heim til að takast á við þetta verkefni.

Vinnustofurnar sem við tókum þátt í voru eftirfarandi:

“How to motivate teachers”

Þessi vinnustofa var um hvernig hægt er að hvetja kennara til samstarfs í gegnum eTwinning vefinn. Rita Zurrara frá Portúgal sá um þessa vinnustofu en hún er enskukennari og alþjóðafulltrúi eTwinning þar í landi. Rita spurði þátttakendur hver þeirra reynsla væri af því að hvetja kennara til að taka þátt í eTwinning og kom glöggt í ljós að öll höfum við svipaða reynslu af því máli sem er að kennarar telja sig ekki hafa tíma í rafræna verkefnavinnu, telja sig ekki hafa næga tölvufærni og/eða tungumálakunnáttu. Lokaniðurstaða Ritu var að í raun væri ekki til eitt svar við því hvernig best væri að hvetja kennara til að taka þátt í rafrænu samstarfi en hún lagði áherslu á að í nútímasamfélagi þurfi kennarar ávallt að vera sveigjanlegir og tilbúnir að meðtaka nýja tækni, leiðir og aðferðir í skólastarfi nemendum til heilla.

“Organizing your Twin Space”

Einnig tókum við þátt í annarri vinnustofu um hvernig skipuleggja ætti Twinspace svæðið. Bent var á hvernig best væri að skipuleggja og raða upp þeim gögnum sem sett eru á Twin Space og vel heppnuð og skilvirk Twin Space svæði voru kynnt og sýnd.

rodos1

“Project baced learning”

Tiina Sarisali sem er finnskur eTwinning sendiherra sá um þessa vinnustofu sem fjallaði um verkefnamiðaða kennslu sem er kennsluaðferð þar sem kennt er og unnið út frá einhverju fyrirframákveðnu viðfangsefni. Nemendur vinna í hópum að upplýsingaöflun og ígrunda og setja fram niðurstöður að eigin vali. Reynt er að hafa viðfangsefnið sem raunverulegast, eitthvað sem nemendur gætu þurft að leysa og standa frammi fyrir í hinu hversdagslega lífi. Ekki er ætlast til að hefðbundar kennslubækur séu notaðar.

“eTwinning live”

Tea Rezek frá Croatíu stýrði þessari vinnustofu og fór hún yfir ýmis atriði á eTwinning live veggnum, eins og hvernig ætti að finna fólk, verkefni, skrá sig í verkefni o.s.frv. Hún tók einnig fyrir Learning Events, online/of site Seminars, groups og hvernig hægt væri að fylgjast með fólki  “follow” og sjá hvaða verkefnum það væri að vinna að.

Á Ródos var hið besta veður enda rignir þar aldrei yfir sumartímann, hiti var rétt um 30°C og smágola frá hafinu sem frískaði upp á. Ródos er ferðamannaparadís þar sem kapp er lagt á að þjóna ferðamönnunum eins og kostur er. Eyjan ber þess merki að vera eyja í Miðjarðarhafinu þar sem ræningjar gerðu mikinn usla hér fyrr á öldum og eru varnargarðar algeng sjón utan um helstu byggingar eyjarinnar. Í borginni Ródos búa um 50 - 60.000 manns og liggur eyjan aðeins í um 18 km fjarlægð frá Tyrklandi. Það var mjög gaman að heimsækja Ródos og upplifa gríska menningu. Heyra mátti gríska tónlist óma víðsvegar og þegar það gerðist var stutt í það að stiginn væri grískur dans við mikla kátínu viðstaddra.

dansarodos

 

 

 

 

 

 

 

 

Kolbrún og Guðný


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband