Sunnudagur, 9. október 2016
Vinnubúðir fyrir sendiherra eTwinning á Norðurlöndunum voru haldnar í Köge í Danmörku dagana 15. til 17. september 2016
Kolbrún Svala og Guðlaug Ósk fóru ásamt Guðmundi Inga til Köge í Danmörku á vinnubúðir með sendiherrum Norðurlandanna í eTwinning. Markmiðið var að vinna saman að hagsmunum eTwinning á Norðurlöndunum og efla starf sendiherrana við að fá fleiri kennara inn í eTwinningsamstarfið.
Því miður misstum við Guðlaug og Kolbrún af fyrstu dagskrárliðunum daginn sem vinnubúðirnar hófust vegna seinkunar á afhendingu farangurs við komuna til Kastrup og síðan var Google Maps aðeins að stríða okkur og lét okkur fá smá auka göngutúr á leiðinni á hótelið sem var rétt rúmur kílómeter að lengd. Þannig að við misstum af innleiðingu á Infographic sem Ann Katrine frá Álaborg fór yfir með hópnum. Við áttum svo að nota infographic táknin í kjölfarið til að búa til okkar eTwinning-sögu. Þátttakendur útlistuðu síðan sínar sögur seinna um daginn og voru þær ótrúlega flottar og margvíslegar.
Um kvöldið áttum við hugljúfa stund með David Heathfield frá Dartmore í UK sem sagði okkur sögur frá ýmsum heimshornum og fitlaði um leið við lítið skrýtið hljóðfæri til að gefa undirtóninn í frásögninni. Hann er leikari og kennari og ferðast um heiminn og heldur fyrirlestra um "Storytelling". David er með nokkra ágætis vefi sem sýna starf hans og feril og þar eru einnig ýmsar upplýsingar um "storytelling". Storytelling session v/ David Heathfield
Author of Storytelling With Our Student, David Heathfield's Storytelling Channel www.davidheathfield.co.uk
Næsta dag voru tekin fyrir verkefni og verkfærakistur sendiherranna sem þeir hafa til taks til að virkja kennara til að fá þá til að taka þátt í verkefnum á eTwinning. Eftir það var farið í rölt um bæinn með leiðsögumanni sem rakti sögu bæjarins og það var endað á listasafni í Köge sem geymdi málverk (skissur) af góbelínlistaverkum sem Björn Nörgaards færði Margréti Danadrottningu þegar hún varð 70 ára.
Á laugardagsmorguninn fengum við svo tilsögn og æfingu í "storytelling" hjá David og er alveg áreiðanlegt að við eigum eftir að nýta okkur eitthvað af þeirri tækni.
Að lokum fengum við að heyra hvernig sendiherrarnir ætluðu að skipuleggja starfið í vetur til að virkja kennara til að taka þátt í samskiptaverkefnum á eTwinningvefnum. Þeir ætla m.a. að halda námskeið fyrir kennara, fara í heimsóknir í skólana og sýna velheppnuð verkefni.
Á svona fundum/ráðstefnum fær maður oft góðar ábendingar á hitt og þetta og við viljum deila þessari vefsíðu með ykkur (á sænsku) um verkfæri sem hún Annie Bergh hefur tekið saman í gegnum tíðina og við getum nýtt okkur líka. Hér er hún: http://digitalaverktygsladan.blogspot.is/
Kolbrún og Guðlaug
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.