Fjórir flugvellir, þrjár flugvélar, tvö hótel, ein rúta og e twinning - Ferð á vinnustofu í Ohrid, Makedóníu

logo GS

 

logo ET

                                                          

 

 

Tilgangur ferðarinnar

Dagana 20. – 23. nóvember var haldin vinnustofa við Ohrid vatn í Makedóníu. Undirritaðar tvær kennslukonur frá Garðaskóla í Garðabæ lögðu því land undir fót í von um að kynnast nýjum kennsluaðferðum og kennurum frá hinum ýmsu Evrópulöndum með sameiginleg markmið um starfsþróun og samvinnu í sífellt minnkandi rafrænum heimi.

 

Ferðalagið

Ferðalagið til Ohrid (borið fram Okrid) í Makedóníu frá Íslandi er, eins og titill þessarar færslu gefur til kynna, í flóknara og lengra lagi en oft má mikið á sig leggja ef tilgangurinn er góður eins og í þessu tilviki. Við afrekuðum til dæmis að vera í fjórum löndum á einum degi, á leiðinni út og heim með því að hefja flugið frá Keflavíkurflugvelli, millilenda í London og Róm og lenda að lokum í Skopje, höfuðborg Makedóníu. Þaðan er svo þriggja tíma ferðalag í bíl um fallegt landslag að Ohrid vatni.

 Staðsetning OhridOhrid myndkort

 

 

 

 

 

 

 

 

                

 

Skipulag og þátttaka

Skipulagning vinnustofunnar, sem haldin var á 10 ára afmæli e twinning, var í höndum menntamálayfirvalda í Makedóníu og Tyrklandi og komu þátttakendur frá 19 löndum. Áhersla var lögð á að þarna væri samvinnuvettvangur fyrir kennara frá Evrópu til þess að ræða það sem þeir hafa verið að gera, fá nýjar hugmyndir að verkefnum, öðlast aukna færni í að nýta tækni í kennslu og síðast en ekki að mynda tengsl og að leggja grunn að nýjum fjölþjóðlegum samstarfsverkefnum kennara.

 

Vinnustofunni var skipt í fernt þar sem lagt áhersla var lögð á mismunandi þætti:

  • Notkun tækni í kennslustofunni.
  • Samvinnuverkefni þvert á landamæri með því að nota tækni og frjótt ímyndunarafl
  • Notkun tölvuleikja í kennslu
  • Tæknimöguleikar og færni í notkun tækni í skólastarfi á 21. öld

Eins og gefur að kynna voru kynnt helstu verkfæri, tæki og forrit, sem gagnast í kennslu.

 

Aukin fjölþjóðleg samvinna með e twinning

Fram kom að núna vinna um 330.000 kennarar að verkefnum í Evrópu og eru um 45.000 verkefni í gangi. Hér er því um að ræða stærsta samfélag kennara í Evrópu og er einn megin ávinningurinn sá að kennarar sem skrá sig í e twinning eru ekki lengur einir í sinni kennslustofu. Með því að nýta þá tækni sem í boði er í nútíma samfélagi, býðst okkur að vinna saman ekki bara þvert á námsgreinar innan sama skóla, heldur þvert á þjóðfélög, menningarheima og trúarbrögð svo eitthvað sé nefnt.

Sigga og Halla í Ohrid

 

 

 

 

 

Undirritaðar ásamt dönskum samkennara

 

E twinning og nemendur

Ekki má gleyma nemendunum sem notið hafa góðs af e twinning verkefnum, en talið er að þeir séu um tvær milljónir. Í sumum tilvikum eru þetta börn og ungmenni sem aldrei hafa fengið tækifæri til þess að fara út fyrir sitt heimahérað og fá með aðstoð tækninnar tækifæri til þess að „ferðast“ inn í kennslustofur í öðrum löndum og kynnast fjölþjóðlegum nemendahópi.

 

Hlutverk kennara og nemenda í e twinning verkefnum

E twinning gefur nemendum tækifæri á að vinna að áþreifanlegum verkefnum, þ.e. gera eitthvað við það sem þeir hafa lært. Nemendur geta líka, með aðstoð tækninnar, rannsakað ýmislegt á raunsæan hátt sem ekki er svo auðvelt að skoða í raunheimi kennslustofunnar, t.d. skoðað inn í mannslíkamann.

 

Mikilvægt er að kennarar noti þó ekki tækni tækninnar vegna, heldur verður tæknin að þjóna aðal tilganginum, þ.e. að fræða nemendur og gera þá að virkum þátttakendum í sínu námi. Verkefnin þurfa að hafa tilgang og skýr markmið svo að nemendur upplifi innri hvata. Nemendur verða að vita frá upphafi til hvers þeir eru að vinna verkefnið. Kennarar eiga ekki að hafa svar við öllum spurningum eða hafa óþrjótandi þekkingu, heldur hjálpa nemendum að spyrja spurninga sem þeir svo sjálfir leita svara við. Með því þjálfa nemendur gagnrýna hugsun og upplifa aukinn tilgang sem svo aftur ýtir undir innri hvata þeirra til þess að læra meira. Með aukinni samvinnu á milli kennara og nemenda í mismunandi löndum, sameinast líka þekking margra og mun fleiri spurningum er svarað. Það má því segja að allir græði á fjölþjóðlegri samvinnu kennara og nemenda.

 

Ferðalok og næstu skref

Við teljum okkur vera margs vísari eftir þessa stuttu heimsókn til Makedóníu. Við komum til baka með mun fleiri verkfæri í verkfærakistunni en við lögðum af stað með. Það hefur líka fjölgað í samstarfsfélagahópinum. Við mynduðum tengsl sem gáfu okkur hugmyndir að mögulegum samstarfsverkefnum og lögðum grunn að samstarfsverkefni á milli okkar skóla og skóla í Hillerød í Danmörku. Markmiðið er að koma á tengingu á milli nemenda skólanna í þeim tilgangi að íslensku og dönsku nemendurnir geti með aðstoð tækninnar miðlað þekkingu sín á milli:

  • Íslenskir nemendur fá tækifæri til þess að æfa sig að tala dönsku við danska nemendur sem gerir það vonandi að verkum að nemendur upplifa dönskunámið á áþreifanlegan hátt og sem hagnýtt.
  • Danskir nemendur fá tækifæri til þess að ígrunda sitt móðurmál í þeim tilgangi að undirbúa dönskukennslu fyrir íslenska nemendur.
  • Íslenskir nemendur fá tækifæri á að undirbúa fræðslu fyrir danska nemendur um sögu Íslands og bókmenntir sem byggir á þeirra námi í samfélagsfræði og íslensku. Þeir verða þannig að ígrunda sitt nám í þessum greinum vel svo að fræðslan verði markviss. Í þeim tilvikum sem fræðslan fer fram á ensku, fá bæði íslensku og dönsku nemendurnir tækifæri á að spreyta sig i samræðum á ensku.

Allt hangir þetta náttúrulega á því að kennarar í þeim fögum sem að þessu myndu koma (dönsku, ensku, íslensku og samfélagsfræði) séu tilbúnir að leggja verkefninu lið, en að okkar mati hljóta allir að græða á slíkri samvinnu.

 

Við hlökkum til að taka næstu skref!

 

Halla Hrafnkelsdóttir Thorlacius, deildarstjóri ensku í Garðaskóla

Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, ensku- og þýskukennari í Garðaskóla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband