eTwinningráðstefna í Prag 13. - 15. febrúar 2009

Helgi Hólm skrifar

Mér bauðst það ágæta tækifæri að fara á Evrópuráðstefnu um eTwinning sem haldin var í Prag dagana 13. - 15. febrúar s.l. Þetta var mjög stór og vel uppsett ráðstefna með um 400 þátttakendum hvaðanæva að úr Evrópu (sjá http://etwinning.net ). Við vorum sjö íslensku þátttakendurnir. Tveir starfsmenn Alþjóðaskrifstofu: Guðmundur I. Markússon og Rúna Guðmarsdóttir. Fimm kennarar: Halla Jónsdóttir, Leikskólanum Furugrund, Kópavogi. Sonja Jónasdóttir, Leikskólanum Sólbrekku, Seltjarnarnesi. (Sigrún Árnadóttir, Menntaskólanum á Egilsstöðum - forfallaðist), Hilda Torres, Verslunarskóla Íslands. Helgi Hólm, Stóru-Vogaskóla, Vogum og Fjóla Þorvaldsdóttir Leikskólanum Furugrund í Kópavogi en hún bættist í hópinn því verkefni sem hún var þátttakandi í varð tilnefnt til verðlauna sem veitt voru á ráðstefnunni. Eins og áður sagði var ráðstefnan vel skipulögð og skiptist hún að mestu í þrjá þætti. 1) Fyrirlestar 2) Vinnustofur. 3) Kynningarbásar þátttökuþjóða.

Margir ágætir fyrirlestrar voru fluttir og fjölluðu nokkrir þeirra um sjálft eTwinningstarfið. Aðalfyrirlesari ráðstefnunar var Edward De Bono (http://www.edwdebono.com/) og fjallaði hann um hugsun manna og þörfina á því að kenna fólki að hugsa. Er óhætt að segja að hann hafi átt athygli ráðstefnugesta óskipta meðan á fyrirlestri hans stóð. Í vinnustofunum var fjallað um margvísleg efni svo sem hvernig hægt væri að nota eTwinning verkfæri í uppeldislegu tilliti, eTwinning og öryggi á netinu og samskipti milli skóla svo eitthvað sé nefnt.

Á ráðstefnusvæðinu voru settir upp 30 - 40 básar þar sem hver þátttökuþjóð setti upp kynningu á viðkomandi landi og þeim verkefnum sem verið var að vinna með. Einnig voru básar þar sem fór fram sameiginleg kynning á verkefnum sem unnin voru af mörgum löndum en eTwinning verkefni geta verið bæði unnin af tveimur skólum eða þá allt upp í 100 skólum í mörgum löndum. Það verkefni sem undirritaður er með í nefnist A Living Map of Europe og eru einir 80 skólar með í því verkefni. Það gafst ágætur tími til að fara um sýningarsvæðið og ræða við þá fjölmörgu sem þar voru að kynna sig. Er ekki vafi á að þessi þáttur ráðstefnunnar er mjög mikilvægur og stuðlar efalaust til kynna sem aftur leiða til samstarfs í framtíðinni.

Það er ekki hægt að ljúka við þessi skrif án þess að minnast á Prag. Íslenski hópurinn var mættur nægilega snemma á staðinn til að geta skoðað borgina og að loknum nær þriggja tíma göngutúrs um kastalasvæðið, Karlsbrúna og gamla bæinn þá sitja eftir skemmtilegar minningar um fallega og skemmtilega borg. Og skemmtiatriðin á lokakvöldinu munu seint renna úr minni. Mjög góðum ferðafélögum er þökkuð samfylgdin og ánægjuleg samvera.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband