Þriðjudagur, 25. mars 2008
eTwinning-ráðstefna í Búkarest
Dagana 13. til 16. mars 2008 var mér, ásamt nokkrum öðrum Íslendingum, boðið að taka þátt í eTwinnin-rástefnu í Búkarest í Rúmeníu. Flest eigum við það sameiginlegt að hafa tekið þátt í eTwinningverkefnum og sum í nokkur ár.
Leikskólinn Furugrund var fyrstur leikskóla hér á landi til þess að taka þátt í slíku verkefni og hef ég áður fjallað um þau verkefni hér á heimasíðunni. Annað verkefnið er tengt stærðfræði og hitt árstíðunum og breytingum á umhvefinu.
Ráðstefnan var haldin á splunkunýju hóteli sem heitir Rin Grand Hotel í Búkarest. Ráðstefnan byrjaði á hádegi á föstudegi og af því að dagskráin hljóðaði upp á kynnisferð í myrkri um kvöldið þá ákváðum við Gulla samkennari minn í Furugrund og Guðlaug Ósk kennari í Varmárskóla að nota morguninn í að skoða borgina. Ganga okkar um miðborgina var mjög áhugaverð, eiginlega verð ég að viðurkenna að hafa aldrei áður komið í jafn skítuga borg. Kannski ekkert skrítið að gestgjafarnir vildu sýna hana í myrkri.
Við sáum m.a. höllina sem Nicolae Ceauşescu byggði og heitir The Palace of the Parliament. Sagan segir að Ceauşescu hafi viljað slá Frökkum við og byggja höll og fyrir framan hana væri breiðstræti aðeins stærra en Champs-Élysées í París. Hann lét einnig búa til á eins og í París og allt í kringum höllina voru byggð háhýsi sem ætluð voru kommúnistaleiðtogum. Þessi yfirlitsmynd sýnir hallargarðinn og byggingarnar í kring vel og svo breiðstrætið. Þetta gerði hann á kostnað þeirrar miðborgar sem fyrir var, allt var rifið niður til þess að koma þessum byggingum fyrir.
Hér er mynd af okkur Gullu fyrir framan slotið.
Eftir hádegi hófst svo ráðstefnan og þennan fyrri dag var hún byggð upp á fyrrlesturum og inn á milli voru sýndar myndir frá þátttöku þjóðunum.
Eftir setningu ráðstefnunnar flutti Cristian Mihai Adomniţei menntamálaráðherra Rúmeníu erindi. Hann sagði að tölvuvæðing í skólum í Rúmeníu væri langt komin, lengra en meðal margra Evrópuþjóða. Ég ætla ekki að fara að telja upp alla fyrirlestrana sem haldnir voru því hægt er að skoða glærur fyrirlesarana á SlideShare.
Einn fyrirlestur vil ég þó fjalla sérstaklega um, en það var erindi Professor Sugata Mitra. Hér er hægt að hlusta á erindi hans.
Dr. Mitra starfar núna í Bretlandi, en hann sagði okkur söguna á bak við það ferðalag. Hann var prófessor í Indlandi og er þekktastur fyrir tilraunir sínar sem hann gaf nafnið Hole in the wall.
Dr. Mitra heldur því fram að börn geti kennt sér sjálf á tölvur og sýndi fram á það með tilraunum sínum í Indandi. Tilraunir hans gengu út á það að hann kom fyrir tölvu í vegg á almennu svæði í litlum indverskum þorpum og fylgdist síðan með því hvað gerðist. Hann sýndi okkur mörg myndbönd af því hvernig börnin söfnuðust saman við tölvuna og eftir smá stund voru þau farin að flakka um á Veraldarvefnum. Það sem mér fannst svo frábært við það sem hann var að segja var það sama og við leikskólakennarar erum að halda fram; að með leik og samvinnu læra börn að tileinka sér nýja þekkingu. Ég hvet alla til þess að kynna sér verkefni hans. Núna er hann að gera nýjar tilraunir í Bretlandi og gaman verður að fylgjast með honum og vinnu hans í framtíðinni.
Seinni dag ráðstefnunnar voru vinnustofur og fórum við á nokkrar þeirra og kynntum okkur m.a. verkfærin sem bjóðast í eTwinning. Þarna var kynntur möguleikinn á að gera vefsíðu með aðstoð kerfisins, eitthvað sem við höfum ekki notfært okkur því við höfum notast við Wikispaces til þess að safna saman verkefnum okkar.
Þarna var einnig fólk frá Litháen að kynna vef sem er einskonar safnvefur, LeMill , fyrir rannsóknir ýmiskonar. Áhugavert, en enn sem komið er eru flestar rannsóknirnar á tungumálum sem við skiljum ekki.
Bæði kvöldin voru opnir kynningarbásar þar sem allar þjóðirnar kynntu land og þjóð og þau eTwinning verkefni sem þátttakendur eru aðilar að. Við Íslendingarnir vorum með bás og veittum vel af nammi og líkjör.
Á föstudagskvöldinu var eins og áður sagði boðið upp á kynnisferð um borgina með alveg frábærum fararsjóra. Manni sem gat gert grín af sögunni og stöðu borgarinnar. Á laugardagskvöldinu var svo hátíðarkvöldverður þar sem boðið var upp á þjóðlega rétti, þjóðdansa og samveru við skemmtilegt fólk.
Við létum taka mynd af okkur þátttakendunum frá Íslandi. Hægt er að skoða fleiri myndir frá ferðinni á heimasíðu Furugrundar.
F.v. Fjóla, Erla Björk, Bubbi, Þorlákur, Guðlaug Ósk, Guðlaug og Rúna.
Takk Guðmundur á Alþjóðaskrifstofunni fyrir þetta frábæra tækifæri.
Kær kveðja,
Fjóla Þorvaldsdóttir
Sérkennslustjóri og verkefnisstjóri í Furugrund.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.