Tengslaráðstefna í Kiel

Um síðustu mánaðarmót átti ég þess kost að fara sem fulltrúi Íslands á tengslanetaráðstefnu í Kiel í norður-Þýskalandi. Ferðin var í alla staða ánægjuleg og ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Það tekur nokkurn tíma, að minnsta kosti svona að vetrarlagi, að koma sér frá Hólmavík á Ströndum til þessarar þýsku hafnarborgar sem þó er ansi miðsvæðis í Evrópu. Það varð úr að ég flaug til Kaupmannahafnar þar sem við tók hátt í sex tíma lestarferð. Ég var því komin á hótelið kvöldið áður en ráðstefnan hófst. Fyrri daginn fórum við á Steigenberger hótel sem var rétt hjá gististaðnum, hæfileg göngufjarlægð. Þar var byrjað á að drekka kaffi og merkja þátttakendur og afhenda gögn. Fólk tók strax tal saman og auðvitað fékk maður þó nokkra athygli út á að vera eini þátttakandinn frá hinu kalda og fjarlæga Íslandi! Einnig var aðeins ein kona frá Finnlandi en hún kom til að kynna skemmtilegt verkefni sem finnskur og þýskur skóli unnu saman á yngsta stigi grunnskóla og fjallaði um Grimms-ævintýrin. Einnig var kynnt annað verkefni og voru þessar kynningar mjög áhugaverðar og sýndu manni hversu margt er hægt að gera í etwinning án þess að leggja mikla aukavinnu í það miðað við það sem maður er á annað borð að gera í skólastofunni. Einnig var farið í svokallað speed-twinning þar sem þátttakendur, tveir og tveir frá sitt hvoru landinu, spjölluðu saman í 6 mínútur með 6 grundvallarspurningar til að reyna að finna út hvort grundvöllur væri fyrir sameiginlegum verkefnum. Það var vel heppnað og árangursríkt og komst ég að því að margir voru þarna með svipaða kennslu og ég, samfélagsfræði fyrir 12-15 ára og höfðu t.a.m. áhuga á víkingum, stríðsárunum, trúarbragðafræði og öðru sem ég er að fást við í minni kennslu. Einnig var mjög fjölbreytt hvaða greinar menn kenndu, t.a.m. voru þarna dans- og íþróttakennarar. Eftir þetta voru frekari kynningar og síðan sameiginlegur kvöldverður á gististaðnum og einhverjir tóku á því á djamminu á eftir en ferðaþreyttur Íslendingur stóð sig nú frekar illa í því. Seinni daginn var farið meira í tæknihliðina og meðal annars fengu allir fartölvur og fóru í gegnum hvernig maður notar etwinning vefinn til að halda utan um verkefni. Þannig ætti manni ekki að vera neitt að vanbúnaði að byrja. Ég festi mér að vísu ekki verkefnisfélaga þarna úti, aðallega vegna þess að það er ekki alveg ljóst hvað ég mun kenna næsta vetur, en er með einhverja í sigtinu, m.a. Svía sem hefur áhuga á víkingatímabilinu. Eftir ráðstefnuna var farið í túr um borgina með góðri leiðsögn og síðan hélt hver til síns heima, sumir til norður-Þýskalands og aðrir til Norðurlandanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband