Etwinning á Möltu

Góðan daginn,

 Ég er einn þriggja Möltufara á vegum etwinning áætlunarinnar á Íslandi.  Mér var nokkuð brugðið þegar Guðmundur hafði samband og bauð mér í helgarferð til Möltu og þegar ég hringdi í konuna mína og sagði henni að það væri maður að bjóða mér í helgarferð til Möltu þá varð henni ekki síður brugðið.  Spurði hvort það væri allt í lagi með hann!!  Jæja, stöðugt styttist í ferðina og þegar kom að henni, um miðja nótt fimmtudagsins 24. maí þá lagði ég í hann um kl. 4 úr Borgarfirðinum.  Kolbrún, samferðamaður hafði tekið eftir því að Hvalfjarðargöngin væru lokið til kl. 6 um morguninn þannig að ég þurfti að keyra fyrir fjörð, sem lengdi aðeins leiðina.  En fluginu seinkaði svo um 3 tíma þannig að farið var óþarflega snemma af stað.  Náðum síðdegi í Osló og vorum svo komin til Möltu um kl. 2 um nóttina. 

Föstudagurinn byrjaði svo á skoðunarferð um Menntamálaráðuneyti Möltu og svo var rölt um virkisborgina Valletta sem er höfuðborg Möltu.  Glæsileg borg sem er byggð í hernaðarlegum tilgangi af riddurum heilags Jóhannesar.  Napóleon á að hafa sagt að ekki væri mögulegt að ráðast inn í þesa borg - sem hann þó gerði með hjálp svikara innan borgarveggjanna. 

Síðdegis hófst svo ráðstefnan þar sem við lærðum að búa til Photo Story og að setja upp heimasíðu á wikispaces en þar er nú að finna powerpoint sýningu sem ég bjó til um Möltuferðina, sem dæmi um það sem hægt er að gera í etwinning og útgáfu á netinu. 

Verkefnin sem fengu verðlaun á ráðstefnunni voru margs konar, þótt náttúrufræði hafi verið þar í aðalhlutverki. 

Sérlega áhugaverður var fyrirlestur frá George Glass skólastjóra Cauldeen barnaskólanum í Inverness í Skotlandi.  Þetta var ansi lærdómsríkt, hann benti mér t.d. á hver mistök mín í etwinning ársins voru - ég var að reyna að halda stöðugu sambandi við samstarfsskólans sem er auðvitað algjör óþarfi.  Þá fékk ég fjöldan allan af hugmyndum að verkefnum sem hægt er að vinna í etwinning og comenius.  Þannig að nú er bara að koma sér á tengslaráðstefnu í haust og ganga hönd í hönd út í sólarlagið með einhverjum kennara sem vill vinna að verkefnum sem ég hef áhuga á að vinna.

Laugardagurinn fór svo í að skoða eyjuna, náðum líklega að fara yfir um 70% eyjarinnar á einum degi, glæsilegt útsýni úr Mdina - þöglu borginni. 

Ég þakka Guðmundi og Kolbrúnu fyrir sérstaklega skemmtilega ferð, vonandi verð ég nógu öflugur í etwinning til að fá að fara í fleiri ferðirWink

 Með bestu kveðju,

Ívar Örn Reynisson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: eTwinning kennarar

Flott hjá þér Ívar, þú ert öflugur.  Ég verð að koma með innlegg líka.  Geri það sem fyrst.   Já þetta var frábær ferð hjá okkur og kveikti í manni að fá að taka þátt.  Við verðum eTwinningar á næsta ári það er enginn vafi. Kolbrún

eTwinning kennarar, 5.6.2007 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband