Miðvikudagur, 30. maí 2007
Etwinning á Möltu
Góðan daginn,
Ég er einn þriggja Möltufara á vegum etwinning áætlunarinnar á Íslandi. Mér var nokkuð brugðið þegar Guðmundur hafði samband og bauð mér í helgarferð til Möltu og þegar ég hringdi í konuna mína og sagði henni að það væri maður að bjóða mér í helgarferð til Möltu þá varð henni ekki síður brugðið. Spurði hvort það væri allt í lagi með hann!! Jæja, stöðugt styttist í ferðina og þegar kom að henni, um miðja nótt fimmtudagsins 24. maí þá lagði ég í hann um kl. 4 úr Borgarfirðinum. Kolbrún, samferðamaður hafði tekið eftir því að Hvalfjarðargöngin væru lokið til kl. 6 um morguninn þannig að ég þurfti að keyra fyrir fjörð, sem lengdi aðeins leiðina. En fluginu seinkaði svo um 3 tíma þannig að farið var óþarflega snemma af stað. Náðum síðdegi í Osló og vorum svo komin til Möltu um kl. 2 um nóttina.
Föstudagurinn byrjaði svo á skoðunarferð um Menntamálaráðuneyti Möltu og svo var rölt um virkisborgina Valletta sem er höfuðborg Möltu. Glæsileg borg sem er byggð í hernaðarlegum tilgangi af riddurum heilags Jóhannesar. Napóleon á að hafa sagt að ekki væri mögulegt að ráðast inn í þesa borg - sem hann þó gerði með hjálp svikara innan borgarveggjanna.
Síðdegis hófst svo ráðstefnan þar sem við lærðum að búa til Photo Story og að setja upp heimasíðu á wikispaces en þar er nú að finna powerpoint sýningu sem ég bjó til um Möltuferðina, sem dæmi um það sem hægt er að gera í etwinning og útgáfu á netinu.
Verkefnin sem fengu verðlaun á ráðstefnunni voru margs konar, þótt náttúrufræði hafi verið þar í aðalhlutverki.
Sérlega áhugaverður var fyrirlestur frá George Glass skólastjóra Cauldeen barnaskólanum í Inverness í Skotlandi. Þetta var ansi lærdómsríkt, hann benti mér t.d. á hver mistök mín í etwinning ársins voru - ég var að reyna að halda stöðugu sambandi við samstarfsskólans sem er auðvitað algjör óþarfi. Þá fékk ég fjöldan allan af hugmyndum að verkefnum sem hægt er að vinna í etwinning og comenius. Þannig að nú er bara að koma sér á tengslaráðstefnu í haust og ganga hönd í hönd út í sólarlagið með einhverjum kennara sem vill vinna að verkefnum sem ég hef áhuga á að vinna.
Laugardagurinn fór svo í að skoða eyjuna, náðum líklega að fara yfir um 70% eyjarinnar á einum degi, glæsilegt útsýni úr Mdina - þöglu borginni.
Ég þakka Guðmundi og Kolbrúnu fyrir sérstaklega skemmtilega ferð, vonandi verð ég nógu öflugur í etwinning til að fá að fara í fleiri ferðir
Með bestu kveðju,
Ívar Örn Reynisson
Athugasemdir
Flott hjá þér Ívar, þú ert öflugur. Ég verð að koma með innlegg líka. Geri það sem fyrst. Já þetta var frábær ferð hjá okkur og kveikti í manni að fá að taka þátt. Við verðum eTwinningar á næsta ári það er enginn vafi. Kolbrún
eTwinning kennarar, 5.6.2007 kl. 15:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.