Árlega eTwinning-ráðstefnan í Varsjá

Árlega er haldin stór eTwinning-ráðstefna þar sem starfsmenn frá öllum landskrifstofum koma saman ásamt kennurum, skólastjórnendum og starfsfólki úr menntamálaráðuneytum landanna. Síðastnefndu gestunum hefur verið boðið síðustu tvö ár og fer þeim fjölgandi löndunum sem eru með fulltrúa úr ráðuneytinu, en í ár voru þau um 30 sem tóku þátt í vinnustofu sem var helguð eTwinning og menntastefnu yfirvalda. Ísland var því miður ekki með fulltrúa að þessu sinni en við munum halda áfram samtali okkar við Menntamálaráðuneytið og stefnum á að einhver þaðan muni koma með okkur á næsta ári.

IMG_0432

Ástæða þess að starfsfólki úr ráðuneytum er boðið að taka þátt er einfaldlega sú að markmið þeirra sem móta og þróa menntastefnu Evrópusambandsins eru skýr hvað varða eTwinning; verkefnið á að vera hluti af menntastefnu yfirvalda og einstakra skóla og kunnugt öllum þeim sem koma að kennslu og menntun í hverju landi. Í fyrstu kann þetta að hljóma óraunhæft markmið en þegar betur er að gáð sést að nú þegar hefur eTwinning náð ótrúlegri útbreiðslu. Yfir 6000.000 kennarar hafa skráð sig og milljónir nemenda tekið þátt í yfir 75.000 verkefnum. eTwinning hefur á rétt rúmum áratug náð að verða stærsta samstarfsverkefni í menntamálum í EvrópuÞað er því gríðarlegur fjöldi sem kemur að eTwinning í hverju landi og kemur því ekki á óvart að á ráðstefnunni, sem í ár var haldin Varsjá í Póllandi, voru þátttakendur yfir 600 talsins. Að þessu sinni fórum við fimm frá Íslandi, Sólveig og Þorsteinn frá íslensku landskrifstofunni, Rannís, Edda Ósk kennari í Norðlingaskóla, Már Ingólfur kennari í Vallaskóla á Selfoss, og Hálfdán Þorsteinsson skólastjóri Stóru-Vogaskóla en skólinn er einmitt einn fjögurra eTwinning-skóla á Íslandi.

IMG_0459

Þátttakendur skráðu sig fyrirfram í þær ótalmörgu vinnustofur sem í boði voru, allt frá kennslufræðilegum umræðuhópum til vinnustofa um mikilvægi samstarfs í allri menntun. Allar vinnustofurnar áttu það sameiginlegt að tengjast eTwinning með einum eða öðrum hætti og markmið þeirra, líkt og með eTwinning yfir höfuð, var að efla skólasamstarf í Evrópu, auka víðsýni nemenda og bæta menntun almennt.

IMG_0412

Ferðin var lærdómsrík og vel heppnuð. Hópurinn var sammála um að margt áhugavert hafi þar farið fram sem mun, í gegnum íslensku þátttakendurna, smjúga inn í skólakerfið og gera þar litlar en mikilvægar breytingar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband