Sjálfbær þróun - eTwinning ráðstefna í Lille 12.-14. október

Ég var valinn ásamt þremur öðrum íslenskum kennurum til þátttöku á eTwinning ráðstefnu í Lille, Frakklandi, dagana 12. til 14. október. Yfirskrift ráðstefnunnar var sjálfbær þróun (Sustainable development) en hún var ætluð byrjendum á sviði eTwinning.

Fyrir nokkrum árum kynnti stærðfræðikennari við skóla minn, Jóhanna Eggertsdóttir, eTwinning verkefni sem hún var þátttakandi í.  Mér þótti hugmyndafræðin áhugaverð og hef frá þeim tíma haft áhuga á að kynna mér eTwinning betur. Ég hef lengi haft áhuga á umhverfismálum og hef gengt stöðu umhverfisfulltrúa við skóla minni í mörg ár. Mér fannst því kjörið að sækja um þátttöku á þessari ráðstefnu þar sem hún var ætluð byrjendum og þau verkefni sem átti að stofna til voru helguð sjálfbærni. Það gladdi mig mikið að verða fyrir valinu ásamt þremur öðrum kennurum þeim Helenu Aspelund (Grunnskóla Fjallabyggðar), Hafdísi Einarsdóttur (Árskóla Sauðárkróki) og Brynju Finnsdóttur (Menntaskólanum Akureyri).

Við mættum í Lille degi fyrir ráðstefnu og gafst því smá tími til að skoða þessa fögru og fornu borg. Ráðstefnan hófst á föstudegi en margir þátttakendur náðu þó ekki á áfangastað fyrr en á laugardegi og kom þar til tafir og niðurfellingar á flugi.

Föstudagurinn fór aðallega í að kynna hugmyndafræði og sögu eTwinning og segja frá nokkrum dæmigerðum verkefnum. Að því loknu gafst þátttakendum tækifæri til að tala saman. Notast var við „skyndikynna“ snið á fundinum. Þátttakendur voru paraðir saman og töluðust við um  möguleg verkefni í 3 mínútur en síðan var fólk parað við nýjan aðila og koll af kolli. Strax á þessum fundi náði ég að tengja við Muriel Le Duic frá College Joseph Subcot á Reunion eyju í Indlandshafi.

Reunion er fyrrum nýlenda Frakka en í dag er nú hérað í Frakklandi.  Ísland og Reunion eru eldfjallaeyjar, svo kallaðir  heitir reitir, en eldvirkni á Reunion er líkari því sem gerist á Hawaii en á Íslandi. Í raun samanstendur eyjan af tveimur dyngjum annarri virkri en hinna óvirk. Bæði Ísland og Reunion voru óbyggðar þegar Evrópubúar námu þar land en samsetning íbúa er mun fjölbreyttari á Reunion, en þeir koma frá Frakklandi, Afríku, Indlandi og Kína. Opinbert tungumál eyjaskeggja er franska en flestir nota kríól í daglegu lífi (blanda af frönsku, malagísku, hindí, portúgölsku og indverskum málum). Á meðan Ísland situr í kaldtempraðabeltinu og að hluta í kuldabeltinu er Reunion hitabeltisparadís með regnskógum og steppum. Báðar eyjar byggja afkomu í vaxandi mæli á ferðamennsku. Þéttbýli á Reunion er þó meira en á Íslandi. Þar búa um 900.000 manns á 2500 km2 svæði (1/3 af flatarmáli Vatnajökuls). Þetta gerir um 360 íbúa á km2 í samanburði við 3,5 íbúa á km2 á Íslandi.

Í fyrstu vafðist fyrir okkur að Muriel kennir yngri nemendum en ég. Hins vegar eru elstu nemendur hennar jafnaldrar þeim yngstu sem ég kenni og er hugsunin sú að hennar elstu og mínir yngstu tak þátt í verkefninu.

Við notuðum laugardag og sunnudag til að þróa verkefnið. Nafn verkefnisins er „Effects of environmental changes on a volcanic island environment“. Það hefst á vorönn 2019 og er í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga kynna nemendur sig fyrir hvor öðrum, í örðum áfanga kynna þeir skóla sína en í þeim þriðja fara þeir í stærri samanburð. Í þeim hluta munu nemendur í Reunion skoða áhrif umhverfisbreytinga á regnskóga á Reunion en íslensku nemendurnir skoða áhrif veðurfarsbreytinga á jökla. Gert er rá fyrir að verkefninu ljúki í lok maí 2019. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig verkefnið þróast.

Það er von okkar og markmið að verkefnið stuðli að frekari samstarfi og hugsanlega gagnkvæmu heimsóknum nemenda og kennara ef stuðningur fæst til.

Kristinn Arnar Guðjónsson, Raungreinakennari Borgrholtsskóla

mynd 2Muriel Le Duic frá College Joseph Subcot á Reunion eyju og Kristinn Arnar Guðjónsson frá Borgarholtsskóla, Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband