Miðvikudagur, 29. nóvember 2017
Ráðstefna eTwinning sendiherra í Bristol í Englandi
Í haust var ég, undirritaður, valinn ásamt Elínu frá Bolungarvík til að fara til Bristol á Ráðstefnu eTwinning sendiherra. Til Bristol hafði ég aldrei komið svo ég hlakkaði mikið til. Fyrir utan náttúrulega að dagskráin hljómaði spennandi.
1. nóvember lagði ég af stað frá Akureyri og kom við eina nótt í Reykjavík áður en farið var út þann 2. nóv. við vorum svo ljónheppin að það var beint flug til Bristol með Easy Jet og stukkum við á það. Við komum á hótelið þar sem við gistum og ráðstefnan fór fram rétt í þann mund sem skráningu var að ljúka og dagskráin að hefjast.
Dagskráin hófst með því að okkur var blásið í brjóst baráttuandi um hve mikilvæg við værum í því ferli að laða fleiri kennara að eTwinning og án þess að hafa kennara á plani þá hefði þessi 500.000 notendatala ekki komið svona fljótt. Það hefur aukist jafnt og þétt í tölu notenda í gegnum árin.
Eftir kaffihlé var smá hópefli þar sem skipt var í hópa. Hópeflið sem hefði mátt takast betur en þetta var tilraun sem var alveg þess virði að prófa.. Escape the Classroom hét hún og snerist um að leysa þrautir sem myndu leiða til þess að við kæmumst út úr skólastofunni. Þetta hafði ekki verið reynt í svona fjölmennum hópi áður (160 manns ca) og því var um algjöra tilraunastarfsemi að ræða. Enginn hópur leysti held ég allar þrautirnar.
Föstudagurinn 3. nóvember hófst með vinnulotu 1. Þar gátum við valið um nokkrar vinnustofur sem stóðu í 90 mínútur.
Ég valdi mér þarna online moderation eða hvatningu í gegnum netið. Þetta var vinnustofa sem snerist um það að sá sem væri stjórnandi umræðuþráðar þyrfti að hafa ýmsa kosti svo sem að vera vel skipulagður, úrræðagóður og sveigjanlegur. Hann þyrfti líka að geta veitt innblástur og fljótur að svara þeim spurningum sem eru beint til hans. Hann þarf að vera vel að sér í efninu og geta svarað hvers vegna eitthvað er..., hvernig eitthvað virkar og hvað eitthvað gerir. Hann þarf að vera kurteis og umbera mismunandi skoðanir. Þetta á mjög vel við eTwinning sendiherra því að þeir þurfa að þekkja eTwinning formið vel, geta svarað hvar tengla eða annað er að finna, hvers vegna kennarar eigi að nota eTwinning og síðast en ekki síst, hvað þeir fá út úr því. Góður fyrirlestur sem kom beint inn á það þegar eTwinning sendiherra er að vinna hug og hjörtu kennaranna sem hlusta með athygli.
Vinnustofa númer 2 þennan föstudag var líka í 90 mínútur og fór ég á PBL hjá Ruth Baptista sem sagði ekki hvað PBL stæði fyrir en síðar kom í ljós að gæti verið project Based Learning eða Problem Based Learning. Hún lagði mikið upp úr því hvað kennari eða leiðbeinandi (eTwinning sendiherra) kæmi með inn í kennslustund. Hún var þá að vinna með það sem hún kallaði C-in 4.
Critical thinking. Að hugsa gagnrýnt um það sem þú gerir, læra af mistökum og gera hlutina betur sem þú kannt. Reyna alltaf að gera aðeins betur.
Communication. Að skapa umræður. Stjórna umræðum. Fá alla til að leggja í púkkið.
Collaboration. Vinna að lausn verkefna (vandamála) skipta liði, skrá upplýsingar og skrá lausnir. Það þurfa ekki allir að vinna að því saman en í lokin þarf að setja saman þær upplýsingar sem hafa eitthvað gildi og vinna áfram með þær í átt að lausn.
Creativity. Hvernig er niðurstöðum umræðna og samvinnu komið til skila. Vera skapandi í því að skila af sér verkinu.
Þetta var fínn fyrirlestur. Þetta er eitthvað sem maður hefur lært í gegnum kennsluna en alltaf gott að fá áréttingu því oft villist maður af þessari leið og gleymir einu eða fleirum "c-um".
Eftir mat á föstudeginum var haldið í vinnustofu númer 3. Að þessu sinni valdi ég "Face to Face training". Maður á mann þjálfun? Þarna var farið yfir það hve mikilvægt væri að vera á staðnum og hve það væri að skila miklu betri árangri en að vera á netinu með fyrirlestur. Hvað þá ef menn eru að horfa á upptöku af fyrirlestri og verða að senda spurningar. Maður á mann þjálfun er miklu dynamiskari og svörin koma jafnharðan og spurningar hafa verið bornar upp.
Þetta kom svolítið á óvart í ljósi þess að spegluð kennsla er að riðja sér til rúms hér á landi hægt og bítandi en þarna var einfaldlega talað um að hún væri ekki að skila því sama og bein kennsla. Hann vildi þó meina að kennsluaðferðir skiptu líka miklu máli. Að nemendur tækju þátt og væru meiri gerendur en hlustendur.
Hann lagði líka upp með að STEM Náttúrufræði (science) Tækni (technical), verkkunnátta / verkfræði (engineering) og stærðfræði (math) væru mikilvægar greinar framtíðarinnar.
Laugardagur 4. nóvember
Vinnustofa 4 tók á móti okkur á laugardagsmorgninum og valdi ég þá Critical thinking. Mér fannst vanta töluvert upp á að þetta væri áhugaverð vinnustofa. Hún höfðaði ekki til mín þar sem mér fannst þetta einhvern veginn liggja svo ljóst fyrir það sem farið var í en ekkert nýtt eða áhugavert. Mikið til notað það sem ég nota mikið í kennslustundum að hvetja nemendur til að taka ekkert sem gefnu og vera alltaf vakandi fyrir því að hugsa út fyrir kassann.
Þessi ráðstefna skilaði miklu til mín og mun ég nýta ýmislegt sem þarna var sagt og gert fyrir mína nemendur og hef ég þegar hafist handa. Ég hef reynt þennan tíma sem liðinn er frá ráðstefnunni að hugsa um C-in fjögur og merki við eftir kennslustundir hvaða c ég hef nýtt og hverjum ég kom ekki að. Reyni þá að gera betur næst. Einnig skilaði ráðstefnan nýjum tengiliðum og stefnan er tekin á verkefni strax eftir áramótin.
Takk fyri mig.
Bibbi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.