Föstudagur, 4. apríl 2014
Lítið eTwinningverkefni í Flataskóla í Garðabæ
Undanfarin tvö ár hafa Rakel og Auður tekið þátt í að vinna vorverkefni með nemendum sínum sem eru núna í 2. bekk. Þetta er lítið eTwinningverkefni sem unnið er af um 40 öðrum skólum í Evrópu. Markmið þess er að víkka sjóndeildarhring nemenda út fyrir landsteinana og kynna þeim menningu annarra landa í Evrópu og kynnast nemendum á líkum aldri. Í fyrra var búinn til vorgarður með blómum og í ár var búið til tré með vorfuglum sem komu fljúgjandi frá ýmsum Evrópulöndum. Hver skóli bjó til jafnmörg blóm/fugla og löndin voru, sem hann sendi með venjulegum pósti til þátttakenda. Þannig að hver skóli fékk um 40 mismunandi blóm/fugla til að skreyta garðinn/tréð sitt með. Blómunum/fuglunum fylgdi lýsing á skóla, landi, blómi eða fugli og þeim nemanda sem vann hlutinn. Í fyrra var unnið með Holtasóleyjuna eða þjóðarblómið okkar og í ár var það lundinn sem er svo skemmtilegur fugl og skrautlegur og sérstakur fyrir Ísland. Við settum stórt landakort af Evrópu upp á vegg og var hvert land litað um leið og blómið/fuglinn kom frá því landi í skólann. Einnig tengdist verkefnið enskukennslu og var hvert land bæði skráð á ensku og íslensku. Verkefnið tengdist þannig inn í all margar námsgreinar eins og myndlist, íslensku, náttúrufræði, lífsleikni og ensku. Verkefnið tók um það bil tæpan mánuð í allt frá því að blómið/fuglinn var búinn til og þangað til allt var komið í garðinn/tréð. Ríkti oft mikil eftirvænting þegar pósturinn kom í skólann hvort eitthvað væri í pokahorninu hjá honum til þeirra.
Hægt er að lesa um verkefnið á vefsíðu skólans: http://flataskoli.is/skolinn/etwinning/vorfuglarnir-i-trenu/ eða hér: http://www.flataskoli.is/default.aspx?PageID=495f1b16-a9ca-11e2-a05a-0050568b0a70
Margar myndir og myndbönd skreyta vefsíðu verkefnisins á Twinspace svæðinu. Fuglaverkefnið er hér: http://new-twinspace.etwinning.net/web/p95545/homepage og blómaverkefnið hér: http://new-twinspace.etwinning.net/web/p100352/homepage.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 14:13 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.