Fimmtudagur, 23. maí 2013
E-twinning vinnustofur í símenntun kennara, Bratislava 16. -18. maí 2013
E-twinning vinnustofur í símenntun kennara, Bratislava 16. -18. maí 2013
Dagbókarbrot frá Guðrúnu Þorkelsdóttur, enskukennara í Lækjarskóla, Hafnarfirði og Helgu Stefaníu Magnúsdóttur, unglingadeildarkennara í Grunnskólanum í Borgarnesi.
Miðvikudagur, 15.maí:
Við höfðum verið í tölvupóstsambandi fyrir ferðina, en hittumst loks í Hafnarfirði og urðum samferða til Keflavíkur.
Ferðin til Bratislava gekk vel. Við flugum til Osló þar sem við tók nokkurra klukkustunda bið eftir flugi til Bratislava. Við vorum svo slakar á Oslóarflugvelli að við misstum næstum því af vélinni okkar!
Við komum okkur fyrir á Hótel Saffron og röltum svo niður í gamla miðbæinn til að skoða okkur um og fá okkur að borða. Bratislava er einstök borg með magnaða sögu og frábært að fá tækifæri að kynnast henni.
Fimmtudagur 16. maí.
Hótelið sem við gistum á er 4 stjörnu hótel, en okkur fannst nú morgunverðarhlaðborðið ekkert sérstakt.
Vinnustofurnar byrjuðu kl. 14:30, þannig að morguninn var nýttur í góða gönguferð um gamla miðbæinn í Bratislava. Sólin skein í heiði og hitastigið var um 23°C. Yndislegt. Eftir góða gönguferð og hádegismat röltum við uppá hótel og skráðum okkur í Vinnustofur og settum okkur í réttar stellingar! Við vorum ekki búnar að vera lengi á staðnum þegar aðalskipuleggjari ráðstefnunnar kom til okkar. Þegar hún sá að við vorum frá Íslandi faðmaði hún okkur næstum í bak og fyrir. Hún var svo ánægð að hitta Íslendinga! Það kom í ljós að maður hennar hafði verið sendirherra Slóvakíu á Íslandi, með aðsetur í Noregi. Þau höfðu komið oft til Íslands og fannst mikið til koma!
Menntamálaráðherra Slóvakíku setti ráðstefnuna og síðan var strax hafist handa. Við tóku fyrirlestrar um hin ýmsu málefni sem varðar kennslu. Dusan Mesko aðstoðarskólastjóri Comeniusar Háskólans í Bratislava hélt fyrirlestur sem hét Digital Education in Digital Reality, þar sem hann fjallaði um tæknina sem er í boði í dag og breyttar áherslur í skólastarfi. Kennarar verði að fylgja þróuninni sem er til staðar og nýta hana í kennslu sinni. Taka verði tillit til ólíkra þarfa nemenda og nota þá tækni sem er í boði til að koma til móts við hvern og einn.
Eftir kaffihlé kom Ivan Jezik og hans innlegg hét Why and how should we create relevant and valuable content. Sá fyrirlestur fjallaði líka um möguleika tækninnar í kennslu og hræðslu kennara við að þróast og tileinka sér nýjar aðferðir.
Síðasti fyrirlesturinn á fimmtudeginum var fluttur af Anne Gilleran og hét Computers are not everything. Hún fjallaði um kennsluaðferðir og breytingar síðustu hundrað árin á annan hátt en þeir tveir sem á undan komu. Kennsluaðferðir í byrjun 20. aldar hafa breyst frá því að vera einstaklingsvinna í þögn og skýrar reglur um það sem má og ekki má í að vera skapandi hópvinna þar sem má tala og læra hvort af öðru. Hún skoðaði með okkur ýmsar leiðir í kennslu, og lagði áherslu á að það væri vel hægt að koma til móts við breytt samfélag á ýmsan annan hátt en þeir sem á undan lögðu áherslu á. Hún talaði einnig um kosti etwinning umhverfisins sem góðan kost í sambandi við menntun nemenda.
Allt voru þetta mjög áhugaverð sjónarmið og eftir þessa fyrirlestra var hópefli þar sem fólk varð að hópa sig saman eftir sælgætismolum sem lent höfðu í sætunum. Hóparnir áttu að kynnast innbyrðis og ræða sín á milli hvaða möguleika etwinning vinna gæfi okkur í kennslu. Niðurstöður hópanna voru síðan kynntar.
Ráðstefnunni lauk um kl. 18:00 og síðan hittist allur hópurinn í mat á hótelinu kl. 19:00. Mikið spjallað og hlegið og virkilega gaman. Ísland þykir enn afar áhugavert land og margir vildu spjalla við okkur. Okkur leið dálítið eins og mektarfólki.
Þar sem Slóvakía tók ekki þátt í Eurovisin þetta árið var keppninni ekki sjónvarpað, þannig að við horfðum á keppnina í tölvunni. Við vorum afar kátar og upp með okkur þegar nafn Íslands var lesið upp!
Föstudagur 17. maí.
Hlýtt veður, en skýjað. Sem var ágætt því dagurinn var undirlagður af vinnustofum. Vinnustofurnar hófust kl. 9:00, tvær fyrir hádegi og tvær eftir hádegi. Of langt mál yrði að telja upp allt sem í boði var, en við hvetjum ykkur til að skoða heimasíðu verkefnisins: http://www.etwinning.sk/pdw2013/programme_pdw_bratislava_may_2013.pdf
Þó langar okkur sérstaklega að nefna vinnustofu þar sem Radoran Elefant (Cultural differences and integration of minorities) fjallaði um ólíka menningarheima og stöðu minnihlutahópa. Með afar jákvæðu fasi og lifandi framkomu hélt hann öllum áhugasömum. Hann leggur áherslu á:
SOFTEN: Smile Open arms Forward lean Touch Eye contact Nodding
Aðrar vinnustofur voru einnig afar áhugaverðar. Jozef Hanč (Not enough classroom time? Flip your classroom upside down!!!) fjallaði um speglaða kennslu sem er mikið í umræðunni á Íslandi þessa dagana. Jozef var með áhugaverða tengingu við nútíma tækni farsímanna. Nokkuð sem vert er að hafa í huga.
Í sinni vinnustofu (Conflict resolution, emotional intelligence) tókst Lenka Práznovská að fá þátttakendur að huga að tilfinningum í kennslu og daglegu lífi hvaða tilfinningar eru ,,góðar og hvaða tilfinningar eru ,,slæmar og hvernig við getum nýtt okkur þær.
Og hún Marie Stracenská (Experiential learning) kynnti fyrir okkur aðferð sem kallast ,,ZOOM sem hjálpar nemendum að tjá sig munnlega og að finna sameiginlega lausn.
Kvöldmaturinn var snæddur við Dóná. Það er um það bil hálftíma gangur að ánni, en á leiðinni gerði úrhellis rigningu, þannig að það voru ansi blautir matargestir sem mættu á MS DANUBIUS. Síðar um kvöldið voru þrumur og eldingar, afar spennandi veður fyrir okkur Íslendingana. Matarboðið var afar skemmtilegt, margt spjallað og skrafað og ýmsar þreifingar fóru fram varðandi samstarf vegna hinna ýmsu verkefna. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því öllu saman.
Við nýttum einnig tækifærið og hvöttum hópinn til að kjósa Ísland í Eurovision! Vonandi skilaði markaðssetning okkar einhverjum stigum!
Laugardagur 18. maí
Ein vinnustofa kl. 9:00 10:30. Að þessu sinni benti Marie Stracenská í fyrirlestri sínum (Performance and creative presentation) okkur á leiðir til að bæta framsetningu og ræðumennsku og hvernig við getum komið hugmyndum okkar betur á framfæri.
Ráðstefnunni lauk síðan með kynningu á afskaplega áhugaverðum verkefnum. Annað var milli tveggja skóla í sitt hvoru landinu og fjallaði um aðbúnað og líf eldri borgara og samanburð milli landa. Hitt verkefnið sem við fengum kynningu á var unnið af yngra stigi og einnig milli tveggja landa. Verkefnið var unnið í gegnum Skrap book og afskaplega skemmtilega upp sett.
Eftir hádegismat fóru flestir að huga að heimferð og var mikið um knús og loforð tekin að vera í sambandi! Mjög mikil jákvæðni og spenningur í loftinu!
Eftir að vera búin að kveðja flesta héldum við enn og aftur í fallega miðbæinn í Bratislava. Í þetta sinn með Anne, þátttakandanum frá Noregi. Miðbærinn skartaði sínu fegursta, mikið um litla markaði, brúðkaup hér og þar og fjölbreytt mannlíf. Yndislegt að geta setið úti, sötrað kaffi og borðað ís og virt fyrir sér mannlífið líða hjá. Hitastigið var um 26°C.
Anne kvaddi okkur um kl. 15:00. Við ákváðum að fara í útsýnisferð um Bratislava í afar áhugaverðum, gamaldags opnum, einhvers konar rútubílum. Ferðin tók klukkustund og við urðum um margt fróðari um sögu borgarinnar og Slóvakíu og vorum afar ánægðar með ferðina.
Síðan var bara haldið áfram að rölta, sest niður á ekta slóvenskum veitingastað þar sem við borðuðum afar góðan mat.
Eftir mat var farið uppá hótel og horft á Eurovision, í tölvunni.
Sunnudagur 19. maí heimfarardagur.
Heimfarardagurinn var bjartur og hlýr, eins og allir hinir dagarnir. Við áttum flug frá Bratislava kl. 14:40, þannig að um morguninn fórum við í síðastu gönguferðina um um hverfið.
Hótelið er staðsett í háskólahverfi Bratislava. Í Bratislava eru um 30 þúsund háskólanemendur, en borgin sjálf telur um 500 þúsund íbúa. Meiri hluti íbúanna býr í svokölluðum kommúnistablokkum sem eru hinum megin við Dóná. Þessar blokkir voru byggðar þegar Rússar réðu yfir Bratislava milli 1968-1989. Ótrúlegar andstæður, gamli miðbærinn og þessar risastóru íbúðablokkir.
Bratislava er afar hrein borg, við sáum aldrei neitt rusl á götum eða gangstéttum. En það sem stakk í augun var veggjakrot alls staðar.
Ferðin heim gekk eins og í sögu. Við millilentum í Kaupmannahöfn, þar sem við rákumst á nokkra Eurovisionfara. Lending í Keflavík var rétt upp úr kl. 23:30
Þetta var mikið ævintýri, afar fróðlegt og skemmtilegt. Við erum mjög þakklátar fyrir þetta tækifæri og erum sannfærðar að það er eingöngu upphafið að samvinnuverkefnum við skóla víðs vegar í Evrópu. Takk fyrir okkur.
Kveðja,
Guðrún Þorkelsdóttir
Helga Stefanía Magnúsdóttir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.