Ferðasaga eTwinning ferðalanga til Póllands 24.-28. okt 2012

Miðvikudagsmorguninn 24. október 2012 hittust 4 leikskólakennarar uppi í Leifsstöð. Við þekktumst ekki áður og var undirbúningurinn  stuttur. Við höfðum samband í vefpósti og náðum að kynnast aðeins. Förinni var heitið til WrocÅ‚aw, Póllandi á eTwinning tengslaráðstefnu.  Millilent var í  Frankfurt,  við fengum  8 klukkustundir  í Þýskalandi.  Farið var með lest inn í miðborgina og við vorum svo uppteknar af því að skoða í kringum okkur að við fórum inn í fyrsta farrými en ekki 2. eins og við höfðum borgað fyrir.  Þegar lestarvörðurinn kom var okkur snarlega skuttlað yfir í annað farrými og fengum við að vita að við hefðum rétt sloppið við að borga sektina en hún hljóðar upp á 50 evrur per mann. Í Frankfurt  fór ein á listasafn meðan hinar fóru í útsýnisferð um borgina.  Fróðlegt var að sjá skýjakljúfana og eina stærstu viðskiptabyggingu Evrópu.   Eftir langa göngu fengum við að borða en þá var kominn tími til að halda aftur út á flugvöll. Fórum í fokkervél LOT flugfélagsins. Við lentum í Póllandi um 21.30 og komumst við á Art Hótel á mettíma. Við ákváðum að taka leigubíl og sömdum við ungan bílstjóra um aksturinn, það gekk hratt fyrir sig við vorum komnar kl. tíu heim á hótel, en bílstjórinn keyrði ekki undir 120 km hraða, en það var frekar litil umferð. Við fengum góð herbergi og aðbúnaður var fínn. Um kvöldið fórum við í smá göngu, keyptum okkur drykki, prins polo og skoðuðum nánasta umhverfi.  
    
Fimmtudagurinn byrjaði á flottum morgunmat og síðan var haldið á vit ævintýranna.  Gengið var yfir á allar nærliggjandi eyjar en WrocÅ‚aw samanstendur af mörgum litlum eyjum  og áin Oder rennur í gegnum Pólland.  Við gengum yfir brú sem kallast The bridge of love en það er hefð í WrocÅ‚aw að hengja hengilás á brúnna í tilefni brúðkaups eða trúlofunar.  Við gerðum tilraun til að ganga inn í eitt stærsta og elsta bókasafn Evrópu en þegar við loksins náðum að opna risa stóru hurðina var okkur hótað af öryggisverði með byssu ef við tækjum eitt skref í viðbót þá hlytum við verra af.  Ákveðið var að fara ekki inn í fleiri byggingar en þegar við stóðum fyrir framan  stóra kirkju stóðumst við ekki mátið og læddumst inn.  Kirkjan var mjög falleg og margt um manninn þarna inni.  Boðið var upp á útsýnisferð upp í turn.  Farið var með eldgamalli lyftu, en útsýnið uppi var stórbrotið og alveg þess virði að dröslast upp.  Ferðin niður gekk misvel fyrir gestina, en lyftuvörðurinn gjörsamlega fyllti hana af fólki.  En hann gaf sig ekki og skellti í lás og brunaði niður en við fengum það hlutverk inni í lyftunni að róa einn einn kirkjugestinn sem grét á leiðinni niður.  En allir komust líkamlega heilir niður.  Eftir þessa för ákvað ein að fara í gönguferð um nærliggjandi garða en hinar kíktu í verslanir og var dagurinn fljótur að líða. En nú var komið af alvörunni.  

Það voru um 60 manns á ráðstefnunni og var töluð enska. Íslendingarmir voru áberandi bestir í ensku. Það var gaman að kynnst fólkinu, Pólverjar í meirihluta. En þáttökulöndin fyrir utan Ísland voru Spánn, Portúgal, Lettland, Búlgaría, Ungverjaland, Slóvenía og Tékkland.
Við hittumst í ráðstefnusal Art Hótels, fengum ráðstefnugögn og kynningu á eTwinning teyminu og dagskránni.  Eftir það var okkur skipt í litla hópa í verkefna vinnu sem skilaði fjölbreyttri og skemmtilegri kynningu hópanna.  Hóparnir heldu sér alveg fyrsta kvöldið borðuðu saman og svo var haldið á pöbbarölt og mannlífið skoðað.  

Föstudagurinn byrjaði snemma með morgunmat og að því loknu var hópnum skipt í tvennt.  Annar fór í verkefna vinnu en hinn var í tölvukennslu á Desktopi og TwinSpace. Um hádegið var hópunum svo svissað, í verkefna vinnunni fór ýmislegt skemmtilegt fram.  Íslendingarnir létu plata sig ýmist til að kynna verkefnin, lesa upp sögur eða að syngja.  Enda með þeim sleipari í enskunni en margur annar þarna. Eftir mikla vinnu yfir daginn var farið í ratleik eða City games en megin tilgangurinn í ferðinni var að finna dverga sem faldir eru víðs vegar um bæinn. En dvergar úr bronsi prýða miðborgina.  Farið var að kólna og fljótlega var farið að dimma svo það reyndist sumum hópum erfitt að klára leikinn en aðrir hlupu í gegnum þetta en voru reyndar sendir aftur út til að klára það sem upp á vantaði.  Einhverjir hópar hreinlega svindluðu og skelltu sér á kaffihús. Íslendingarnir kláruðu að sjálfsögðu leikinn, með misgóðum árangri.  Eftir leikinn var svo boðið upp á kvöldmat á Art Hóteli.  Kíkt var aðeins út á mannlífið eftir það.  

Laugardagurinn byrjaði einnig mjög snemma á morgunmat.  Eftir matinn var farið yfir hvernig búa ætti til verkefni og sækja um þau á eTwinning vefnum.  Eftir það var okkur gefið tækifæri til að finna félaga og ef við vildum búa til verkefni.  Það tók dágóðan tíma en allir Íslendingarnir komu heim með verkefni og uppfullir af hugmyndum. En hægt er að vinna stutt eða löng verkefni og þróa þau. Spennandi er að vinna með leikskólabörnum og eru verkefni í vinnslu. Sumir voru uppteknir allan daginn við verkefnavinnu meðan aðrir voru að tapa sér yfir snjókomunni sem byrjaði fyrr um daginn, enda fyrsti vetrardagur.  Ein var meira að segja að upplifa snjó í fyrsta skipti.  Þegar degi var tekið að halla var hópurinn rekinn út í kuldann en nú átti að skoða bæinn.  Hópnum var skipt í tvennt annar fór fótgangandi en hinn fór í Pram (sporvagna)ferð um miðbæinn.  Það var orðið mjög kalt úti og dimmt svo ekki var útsýnið mikið.  Eftir að hafa verið í klukkutíma Pram ferð í óupphituðum vagni var hópurinn orðinn ansi kaldur.  Eftir smá umræður var ákveðið að stefna á veitingarstaðinn þar sem kvöldmaturinn átti að fara fram.  Hópurinn sem byrjaði fótgangandi á heiður skilið að hafa klárað ferðina.  Á veitingastaðnum fengum við heitt að drekka og stuttu seinna hófst borðhald. Boðið var upp á graskerssúpu og önd með pólskum hveitikartöflum . Setið var langt fram á kvöld borðað, drukkið, dansað, sungið og spjallað.

Það var einstök stemming þegar allir sungu sama Meistari Jakob og Höfuð, herðar, hné og tær með undirleik tónlistarfólks frá Ungverjalandi.

Það var erftitt að kveðjast og mörgum höfðum við kynnst vel. Þetta var frábær tími og var gaman að kynnast fólki frá Póllandi og öllum hinum löndunum.

Sunnudagurinn hófst um miðja nótt, en það voru þreyttir en glaðir Íslendingar með nesti í poka sem héldu af stað út á völl.  Með þeim í för voru tvær konur frá Sloveníu en skemmtilegt vinasamband hafði myndast á milli okkar eins og fjölmargra annarra sem vonandi á eftir að haldast um ókomin ár.
Ferðin heim gekk mjög vel þrátt fyrir 5 tíma bið á vellinum.  

Þegar ferðin er tekin saman erum við allar sammála um að þetta hafi verið fróðleg og skemmtileg ferð í alla staði. Lærðum mikið á hvernig eTwinnig getur bætt skólastarfið og víkkað sjóndeildarhring okkar allra.

Anna, Lilja, Oddný og Þóranna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband