eTwinning á "Akurfundi" í Fellaskóla

Þann 7. maí síðastliðinn var ég beðin um að vera með sambland af eTwinning kynningu og námskeiði  á "Akurfundi" í Fellaskóla á Fljótsdalshéraði. Fellaskóli er framsækinn skóli með rúmlega hundrað nemendur og 18 kennara. Skólinn er staðsettur  í Fellabæ, gegnt Egilsstöðum norðan Lagarfljóts. Á Héraði háttar svo til að þar eru aðeins þrjár höfuðáttir, austur, suður og norður. Þegar farið er frá Egilsstöðum yfir í Fellabæ er farið norður yfir fljót. Til baka er síðan farið austur yfir fljót til Egilsstaða. Í Fellaskóla er unnið metnaðarfullt starf undir styrkri stjórn Sverris Gestssonar skólastjóra. Hefur hann sér til fulltingis einvala lið kennara. Sérstaða Fellaskóla felst í mjög nánu samstarfi við tónlistarskólann sem hefur aðsetur sitt í skólabyggingunni. Geta nemendur farið úr hefðbundnum kennslutímum í tónlistartíma, réttar sag þá sækir tónlistarkennarinn  nemendur úr kennslutíma þegar´(honum) hentar. :) Ég mætti nokkuð tímanlega á "Akurfundinn" til þess að ganga úr skugga um að allar tengingar virkuðu og gott tölvusamband væri í fundaherberginu. Þegar ég steig út úr bílnum barst taktföst rokktónlist á móti mér. Voru þar nokkrir nemendur á söngæfingu. Nokkru síðar var "hringt út" úr síðastu kennslustund dagsins. Það var auðvitað engin venjuleg bjölluhringing heldur grípandi rokkstef.

 Á kennarastofunni hitti ég fyrir nokkra fyrrverandi úrvals nemendur úr ME sem hafa valið sér það hlutverk í lífinu að hjálpa yngri kynslóðum til þroska. Ég man auðvitað sérstaklega vel eftir þessum nemendum vegna þess að þeir voru allir mjög "góðir í þýsku". Enginn þeirra kennir þó tungumál heldur hafa þeir yfirleitt allir sérhæft sig í raungreinum.  - "Akurfundurinn" gekk mjög vel enda var hópurinn lifandi og skemmtilegur. Ég kynnti fyrst eTwinning í hnotskurn. Síðan hjálpaði ég hópnum við innskráningu en það er nokkuð sem hefur orðið svolítið útundan hjá mér bæði í kynningum og eins á námskeiðum. Eftir að innskráningu var lokið, fórum við í gegnum hefðbundnar "Desktop" æfingar sem við gerum annars í æfingarforritinu. Þátttakendur funndu hvern annan, sendu vinarbeiðnir og "ödduðu" hver öðrum eins og krakkarninr segja, sendu tölvupóst, skoðuðu auglýsingar um samstarfsaðila og verkefnabankann.

Það hefur komið mér nokkuð á óvart í þessum skólaheimsóknum hér fyrir austan hve fáir kennarar eru skráðir á eTwinning. Og hve fáir vita yfirleitt hvað eTwinning er. Í Fellaskóla var til dæmis enginn kennari skráður á eTwinning fyrir 7. maí. Allir sem mættu á "Akurfundinn" skráðu sig og sýndu mikinn áhuga. Ég vona að þeir finni verkefni fyrir haustið sem fellur vel inn í kennsluna hjá þeim og getur lífgað upp á starfið með nemendum. Fyrir Fellaskóla væri líka tilvalið að fara í þverfaglegt verkefni sem tengdist tónlist.

Með sólskinskveðjum að austan frá Sigrúnu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband