Þriðjudagur, 1. maí 2012
Brüsssel 19.-20. apríl 2012. Námskeið um gagnvirkar rafrænar kennslutöflur.
The future classroom Lab course. Making the most of your interactive whiteboard.
Námskeið haldið í Brüssel 19.-20. apríl 2012.
Ég heiti Ólöf Björk Bragadóttir og kenni listgreinar við Menntaskólann á Egilsstöðum auk þess að sjá um hin ýmsu námskeið fyrir ólíka hópa fólks fyrir Þekkingarnet Austurlands í listum og menningu. Ástæða fyrir skrifum mínum hér er sú að nú fyrir stuttu tók ég þátt í mjög áhugaverðu námskeiði The future classroom Lab course. Making the most of your interactive whiteboard sem var á vegum Europeean Schoolnet og Alþjóðakrifstofu HÍ.
Námskeiðið var haldið í Brüssel nú 19. 20. apríl og við þátttakendurnir vorum alls 18 talsins frá hinum ýmsu löndum Evrópu og flestir kennarar.
Auk okkar Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur sem komum héðan frá Íslandi voru; tveir fulltrúar frá Portúgal, sem bæði eru menntaðir grunnskólakennarar en vinna nú við að kenna háskólakennurum í Portúgal nýjar kennsluaðferðir, þrír Frakkar sem kenna á mismunandi skólastigum, leikskóla, grunnskóla og einn þeirra kennir bókmenntir í framhaldsskóla. Þá voru þrír kennaranna frá Póllandi og tveir frá Litháen, tveir frá Lettlandi, tveir frá Spáni og einn frá Belgíu. Tveir þátttakenda voru frá Kýpur en þeir voru aðallega að skoða nýjustu tækni í kennslumálum og í innkaupahugleiðingum fyrir skólakerfið á Kýpur.
Mig hefur lengi langað að nýta mér þær rafrænu töflur sem eru til í Menntaskólanum á Egilsstöðum þar sem ég kenni listgreinar. Ég var því ánægð með að vera valin úr hópi umsækjenda ásamt Helgu Hönnu Þorsteinsdóttu leikskólakennara í Furugrund Kópavogi til að taka þátt í þessu námskeiði og sá þarna kjörið tækifæri til þess að geta nú loksins farið að nýta þessar fínu töflur sem ég hef aðgang að. Þar sem ég hlaut menntun mína í École supérieure des Beaux Arts í Montpellier og bjó því í Frakklandi í 9 ár gat ég nú vel nýtt frönskukunnáttu mína í ferðinni en þó fór námskeiðið sjálft fram á ensku.
Móttökur voru með ágætum og kennari námskeiðsins Diana Bannister var einstaklega skipulögð og góð í sínu fagi. Hún kennir við Háskólann í Wolwerhampton í Englandi. Námskeiðið var mjög áhugavert og hnitmiðað, en farið var í helstu atriði hvað varðar notkun rafrænna kennslutaflna og mismunandi tækni og áhugaverðar aðferðir í því sambandi kynntar til sögunnar.
Við skoðuðum meðal annars hvernig hægt er að útbúa gagnvirkt kennsluefni á netinu, lærðum um notkun á ýmsum tækjum og tólum í WB(White Board) tækni, t.d. hvernig maður setur inn hina ýmsu linka, myndbönd, ljósmyndaseríur, texta, teikningar, hreyfimyndagerð og ýmislegt fleira. Einnig fengum við að kynnast nýjustu tækni í kennsluaðferðum í framtíðar kennslustofunni þar sem námskeiðið var haldið. Áhugaverður punktur á námskeiðinu var þegar við fórum að teikna upp kennslutofuna okkar og átta okkur á uppröðun, tækjum og tólum. Hvað fannst okkur vera að virka og hvernig mætti bæta aðstöðuna. Ég tel mjög mikilvægt að umhverfið sé í samræmi við þarfir nemenda og kennara og því var þetta þörf og áhugaverð umræða.
Kennslugögn voru mjög góð og nú þegar hef ég deilt þeim á sameign í mínum skóla öðrum kennurum til glöggvunar. Einnig var okkur bent á ýmsar greinar og linka sem gætu auðveldað okkur frekari þjálfun í notkun rafrænna taflna. Ef þið hafið áhuga á að kynna ykkur námsefni og annað síkt þá vil ég benda á eftirfarandi linka:
http://lreforschools.eun.org
nRich
Mimio
Diana Bannister, kennari og skipuleggjandi námskeiðsins gat jafnvel hugsað sér að koma að frekara námskeiðahaldi hér á landi í framtíðinni og þegar við Helga Hanna nefndum það við hana að það væri þörf á slíku hér á landi þá sýndi hún því mikinn áhuga. Ég hvet þá sem áhuga hafa að setja sig í samband við hana en hér að neðan eru upplýsingar um hana:
Diana Bannister MBE
Development Director for Learning Technologies
School for Education Futures
University of Wolverhampton
United Kingdom
DianaBannister@wlv.ac.uk
Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvort flestir eða allir skólar séu nú þegar farnir að nota rafrænar kennslutöflur og því væri gaman að heyra frá ykkur hinum, hvernig og hvort þið notið þær og hvort við getum ekki deilt reynslusögum af því.
Að lokum við ég þakka samferðakonu minni Helgu Hönnu Þorsteinsdóttur góðar samverustundir þessa fjóra áhugaverðu daga en auk námskeiðsins náðum við að skoða okkur um í borginni, smakka súkkulaðið og kíkja á markaðinn okkur til skemmtunar. Þá sáum við að sjálfsögðu Magritte í "Beaux Arts" safninu og hús hins fræga Art nouvaeux arkitekts og listamanns, Victor Horta. Það var stórkostleg upplilfun. En skemmtileg tilviljun er að nemendur mínir í listum og menningu voru einmitt að fjalla um það tímabil listasögunnar sömu vikuna. Hótelið þar sem við þátttakendur dvöldum á, Hotel Husa President Park var til fyrirmyndar svo og allur aðbúnaður þar og í kringum námskeiðið sjálft. Við Helga Hanna höfum áhuga á frekara samstarfi og mikill áhugi var á eTwinning verkefnum meðal þátttakendanna. Við ætlum einmitt öll að deila reynslusögum af notkun rafrænu taflnanna í skólunum okkar og reyna að nýta þessa frábæru tækni meira. Nú þegar er búið að búa til spjallhóp á netinu í tengslum við hópinn. Ég vil ég þakka Guðmundi Inga Markússyni, verkefnisstjóra Alþjóðaskrifstofu Háskólastigsins, fyrir vel skipulagða ferð og undirbúning en allt gekk upp eins og best varð á kosið. Nú er bara að hefjast handa, fara að æfa sig og nýta þessa skemmtilegu viðbót í kennslustofu framtíðarinnar.
Ólöf Björk Bragadóttir, Listgreinakennari ME obb@me.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.