Laugardagur, 10. mars 2012
eTwinning námskeið í Menntaskólanum á Egilsstöðum
Í gær, föstudaginn 9. mars, var haldið vel heppnað eTwinning námskeið í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Ég hafði ekki búist við mjög mörgum þátttakendum, sjö höfðu tilkynnt þátttöku og tveir þeirra boðuðu forföll snemma morguns þann níunda. Því þóttist ég góð, búið að uppfæra Chrom á 12 tölvur í tölvuveri skólans og búin að ljósrita 10 eintök af verkefnunum. Það kom því skemmtilega á óvart að mun fleiri mætt til leikst en höfðu skráð sig og varð meira að segja einn frá að hverfa. Ég hef sjálf ekki administrator aðgang að tölvunum í tölvuveri ME og gat því ekki uppfært Chrome á eina tölvu í viðbót án leyfis Magga tölvukarls og þúsundþjalasmiðs sem var farinn af svæðinu. Því fór sem fór. Þetta var samstarfskona mín hér við ME og get ég bætt henni það upp seinna. Þátttakendur voru flestir frá Egilsstöðum, fjórir kennarar frá grunnskólanum hér, Egilsstaðaskóla, einn frá Brúarásskóla, tveir komu alla leið frá Djúpavogi og fimm frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hópurinn var virkur og skemmtilegur. Flestir höfðu verið á eTwinning kynningu og því fórum við beint inná Desktop í æfingaforritinu. Þátttakendur fundu samstarfsaðila sinn og stofnuðu áhugaverð eTwinning verkefni. Síðan virkjuðu þau öll þau tæki og tól sem þau fundu á TwinSpace, uppfærðu myndir á Wikisíðurnar sínar með Chrom, sem er bæði fljótlegt og þægilegt, og "embedduðu" myndböndum af YouTube. Tíminn leyfði ekki að ég færi í widgets, en námskeiðið stóð frá kl. 14 - 17. Æfingarforritið virkaði allt sem skyldi og nöfnin, sem þau Guðmundur Ingi og Sigga Vala höfðu gert fyrir okkur fótgönguliðana, stóðust öll. Eftirá að hyggja finnst mér þó að 12 þátttakendur á einn leiðbeinanda sé algjört hámark. Það bjargaði málum á þessu námskeiði hve opinn og virkur hópurinn var og allilr tilbúnir að hjálpa næsta manni. Stundum hafði ég þó á tilfinningunni að sumir hefðu þurft að bíða aðeins of lengi eftir aðstoð. En þetta var voðalega gaman. Ég hafði hellt uppá kaffi og keypt kleinur og kex sem mannskapurinn gat styrkt sig á við og við og það var mikið spjallað og spekulerað.
Með góðum kveðjum að austan frá Sigrúnu
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.