KISS - Keep it Small and Simple!

Heil og sæl eTwinnarar,

eTwinning verkefni þarf ekki að vera umfangsmikið né flókið til þess að vera gagnlegt og skemmtilegt. Ég var að ljúka pennavinaverkefni með Póllandi og Frakklandi þar sem nemendur áttu í margskonar tjáskiptum á þýsku. Verkefnið spannaði aðeins sjö vikur - sem er ein spönn í nýju kerfi hjá okkur við Menntaskólann á Egilsstöðum. Krakkarnir byrjuðu á því að kynna sig í "Profile" á TwinSpace. Þau sögðu frá sér, fjölskyldu sinni, áhugamálum og slíku - auðvitað allt á þýsku. Síðan völdu þau sér "pennavin".  Krakkarnir notuðu bæði vegginn í "Profile", bloggið  og póstforritið á TwinSpace til samskipta. Síðan tjáðu þau sig um viss efni í Forum. Þar hljómuðu verkefnin til dæmis:  "Hvað óttastu mest?", "Hefurðu áhuga á stjórnmálum? Rökstyddu svarið", "Hefurðu gaman af tölvuleikjum?", "Hvernig eru jólin hjá þér og fjölskyldunni þinni?".

Verkefnið sem þau fengu var að komast að eins miklu og þau gætu um pennavininn á þessum stutta tíma, bæði í gegnum bréfaskriftirnar og það sem pennavinurinn skrifaði í Forum.  Frásögn af pennavininum var síðan hluti af munnlegu prófi í lok áfangans. Þá voru innlegg þátttakenda einnig metin sem ritun.

Eins og gengur og gerist voru krakkarnir misjafnlega virk. Sum þeirra blómstruðu og áttu í mjög ánægjulegum samskiptum við pennavininn á meðan önnur gerðu rétt það allra nauðsynlegasta. Það sem við skipuleggjendurnir gerðum ef til vill rangt, var að við skilgreindum ekki samskiptaleiðir. Auðveldara hefði t.d. verið að meta ritunina ef allir hefðu notað vegginn í "Profile". Það var hins vegar mesta maus að þurfa að skrá sig inn sem hver og einn til þess að meta það sem þau höfðu skrifað í tölvupósti. En allt í allt var þetta verkefi vel heppnað og skemmtilegt.

Svona í lokin - Einn nemanda minna var að leiðrétta tímaritgerð á þýsku um kvikmynd sem krakkarnir mínir höfðu horft á. Hann átti í smá vandræðum með nokkrar setningar og snéri sér því til pólskrar stúlku, sem var áberandi góð í þýsku, og bað hana um að hjálpa sér. Hann skrifaði langa útskýringu á málinu á ensku. Þegar sú pólska skrifaði til baka á þýsku og sagðist því miður ekki skilja neitt í ensku, varð drengurinn svo undrandi að hann kom til mín og sagði mér frá öllu saman. - En lærdómurinn sem strákarnir í hópnum drógu af verkefninu var: "Ef þú vilt skrifast á við sætar stelpur í útlöndum, verður þú að kunna þýsku".

Með góðum kveðjum að austan frá Sigrúnu

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband