Úrslit í landskeppni eTwinning - Hofsstaðaskóli og Versló

verdlaunahafar_og_gim_ljosmynd_fjola_thorvalds_1125863.jpg

Verðlaun í landskeppni eTwinning fyrir verkefni starfrækt á síðasta skólaári (2010-11) voru veitt á ráðstefnu eTwinning sem haldin var á Menntavísindasviði HÍ við Stakkahlíð á föstudaginn var.

11 skólar tóku þátt en samtals voru 15 verkefni skráð til keppni.

Sigurvegarar voru Hofsstaðaskóli, með verkefnið Give me a hug! og Verzlunarskóli Íslands með How´s life over there? Y tú ¿Cómo vives? Verðlaunin voru ekki af verri endanum - gjafabréf að andvirði 150 þúsund kr. í Tölvulistanum.

Á myndinni gefur að líta verðlaunahafana, Ragnheiði Stephense, Hofsstaðaskóla, og Hildu Torres, Versló, ásamt Guðmundur I. Markússyni, verkefnisstjóra eTwinning.

Umsögn dómnefndar um verðlaunaverkefnin:

Hofsstaðaskóli - Give me a hug!

Þetta verkefni er stórkostlegt í einfaldleika sínum. Bangsinn Columbus ferðast á milli landa og kynnir sér þjóð og staðhætti í hverju landi. Áhugavert er að sjá hve vel kennurunum hefur tekist að halda áhuga og virkni barnanna þrátt fyrir allan fjöldann sem stendur að verkefninu en í því taka þátt 23 skólar frá 21 landi. Verkefnið lifir góðu lífi og nemendur Hofsstaðaskóla eru þar enn virkir þátttakendur. Verkefnið er frábært dæmi um hvernig gera má kennsluna skemmtilegri og vekja áhuga barna á landafræði, menningu og upplýsingatækni með skapandi skólastarfi.  Hér er á ferðinni gott dæmi um hvernig gera má námið spennandi á liflegan og gagnvirkan hátt. Hlutur nemenda og upplýsingatækni er umtalsverður. Kærleikurinn skín í gegn og er það ekki einmitt tilgangur eTwinning að brjóta niður hugsanlega múra á milli landa með heilbrigðum og gefandi tengslum á milli skóla og ólíkra menningarheima?

Verzlunarskóli Íslands - How´s life over there? Y tú ¿Cómo vives?

Þetta verkefni miðar að því að gera tungumálakennslu meira skapandi og áhugaverða. Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja skóla og er greinilegt að mikil vinátta hefur myndast á milli þeirra kennara sem að verkefninu koma. Nemendur læra spænsku og skila verkefnum sínum á því tungumáli. Þetta er spennandi verkefni, vel útfært og skipulagt. Verkefnið er metnaðarfullt, hlutur upplýsingatækni  og nemenda er til fyrirmyndar og greinilegt að nemendur hafa gaman af kennslu og námi. Verkefnið hefur staðið yfir frá skólaárinu 2007-2008 með nýjum nemendum ár hvert.  Aldur verkefnisins er til merkis um lífvænleikann og gjarnan mætti bjóða fleiri framhaldsskólum að taka þátt. Með því mætti auka fjölbreytni og skapa áhugaverða breidd. Verkefnið er gott dæmi um hvernig eTwinning getur auðgað nám nemenda á einfaldan og skemmtilegan hátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband