Hrísey heimsótt sem og hús tekið á Mývetningum

Góðan daginn,

 

Í gær miðvikudag renndi ég á Árskógströnd og tók ferjuna út í Hrísey þar sem tekið var á móti mér með kostum og kynjum.  Ég tók 8 ára dóttur með í ferðina því að svona ævintýri lét hún ekki renna sér úr greipum.

Við komum í Hrísey rétt fyrir klukkan 14 og hófst kynning á E-twinning í kjölfarið en stúlkan fór á leikskólann þar sem vistunin er og lék hún sér þar við börnin sem voru á staðnum.

Í dag fór ég í Mývatnssveitina og var sama uppi á teningnum þar, kennarar almennt ánægðir að fá kynningu í heimahús.

Á báðum stöðum var kynningin í formi fyrirlestrar með mjög virkum kennurum sem spurðu um allt á milli himins og jarðar eftir því sem leið á kynninguna.  Í Hrísey gafst tími til að taka verklega æfingu og svo skráðum við okkur inn á svæðið og Hríseyjarskóli skráði sig í gagnagrunninn.  Við gleymdum reyndar að fá prest til að blessa skráninguna en gerum það síðar.  Á Mývatni var kynningunni þrengri tímarammi skorðaður og stukkum við yfir verklegu kennsluna en við fórum þess í stað í skráningu á svæðið.

Margar og gagnlegar spurningar vöknuðu á báðum stöðum.  Ég er ekki frá því að Hrísey og Mývatn eiga eftir að blómstra í e-twinning því að umhverfi beggja skólanna er þess eðlis að auðvelt er að búa til verkefni í líffræði og deila því með Evrópu.

Mér finnst yfir höfuð kennarar taka þessum kynningum fagnandi og er ánægt að þurfa ekki að sækja fundi og kynningar yfir langan veg.  Þessi þjónusta, sérstaklega til handa fámennari skólum, er sérstaklega ánægjuleg og gaman að fá að taka þátt í þessu átaki.  Maður verður bara að vona að kennarar láti hendur standa fram úr skálmum og skrái sig, finni eða stofni verkefni og vinni svo til verðlauna..

þangað til næst... Bibbi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband