Miðvikudagur, 16. nóvember 2011
eTwinning: Leading 21st Century Schools, Berlín, 10.-12. nóvember 2011

Fyrsta daginn var lykilfyrirlesturinn haldinn af Tapio Säävälä sem er yfirmaður School Policy, hjá Evrópusambandinu í deild sem fjallar um menntun og menningu. Þar er áhersla lögð á samstarf milli landanna sem eiga aðild að ESB en Ísland á fulla aðild að menntahluta Evrópusambandsins í gegnum EES samninginn.
Næsti dagur byrjaði á vinnustofum og skiptum við okkur á tvær vinnustofur. Kolfinna og Kristrún fóru í vinnustofu hjá Jan Fazlagic frá Háskólanum í Poznan í Póllandi. Lára og Friðþjófur fóru á þá vinnustofu síðar enda voru vinnustofurnar endurteknar. Vinnustofan fjallaði um hlutverk stjórnenda sem leiðtoga í skólastarfi. Jan lagði áherslu á mikilvægi leiðtogans í skólastarfi. Hann bar saman eldri kenningar og nýrri hugmyndir um nálgun stjórnandans í skólastarfi. Hann lagði áherslu á að menn horfðu á hegðun og líðan fremur en ferla.
Við fórum einnig í vinnustofu hjá Jens Bolhöfer frá Lower Saxony State stofnuninni fyrir kennaramenntun og skólaþróun. Jens talaði um samskiptanet leiðtoga í skólum. Hann sagði þessi net fjögur, pólitískt og menningarlegt, kennara í skólum, skipulag og persónulega þróun og vöxt í starfi. Hann taldi mikilvægt að kennarar hefðu hæfileika til að breytast og þróast í takt við tímann og brúa þyrfti gap milli þess sem nemendur upplifðu í skólunum og lífsins utan hans.
Annar dagurinn byrjaði á lykilfyrirlestri Anne Gilleran ráðgjafa hjá Evrópska skólanetinu. Hún stýrir kennslufræðihlutfa eTwinning verkefni en í því eru nú ríflega 14 þúsund þátttakendur. Fyrirlesturinn fjallaði um leiðina að námssamfélaginu. Hún talaði um hugmyndafræðina að baki eTwinning og hvernig við gætum notað þetta tæki til faglegrar þróunar kennara og nemenda með samskiptum og samstarfi. Fram kom í máli hennar áhersla Evrópusambandsins á eflingu náms í Evrópu í gegnum samstarf. Rannsóknir sýna að samstarf eflir námsárangur og skólastarf eins og kom fram í máli David Istance frá OECD síðasta daginn. Fram kom í máli þátttakenda að þeir vildu að fjármagn væri sett í eTwinning til að gera þáttakendum kleift að hittast öðru hvoru.
Vinnustofurnar þennan dag voru mjög áhugaverðar en þær fjölluðu m.a. um að opna skólastarf fyrir nærumhverfinu (Ulrike Wiedersich), samskiptanet kennara framtíðarinnar (Romina Cachia), áhrif skólastjórnenda í tengslum við nýja tækni (Patricia Wastiau), ásamt nánari útlistun Anne Gilleran á eTwinning.
Síðasti dagurinn hófst á stórkostlegum fyrirlestri David Istance sem fjallaði um rannsóknir og þróunarvinnu OECD og þeirra sýn á hvernig skólar þyrftu að þróast til að ná árangri. Hann lagði áherslu á námsárangur og árangursríkar kennsluaðferðir og taldi mikilvægt að brjóta niður skipulagið, kennari kennarastofa nemendur-kennslustofa, til að ná árangri í að virkja nemendur. Hann sagði samvinnu mikilvæga bæði milli kennara og nemenda, kennarar mættu ekki vera einyrkjar heldur yrðu þeir að miðla þekkingu og reynslu, spegla sig hver í öðrum. Hann taldi eTwinning eitt af þeim verkfærum sem hægt væri að nota til að ná þessum markmiðum.
Við viljum þakka fyrir það tækifæri að geta komist á þessa frábæru ráðstefnu, við lærðum mikið og margt sem varð okkur kveikja að hugmyndum. Við mynduðum góð tengsl við skólastjórnendur víða að úr Evrópu. Margir leituðu til okkar Íslendinga og lýstu yfir áhuga á samstarfi í gegnum eTwinning og Comenius. Kærar þakkir fyrir okkur.
Friðþjófur Helgi Karlsson, Smáraskóla
Kolfinna Jóhannesdóttir, Menntaskóla Borgarfjarðar
Kristrún Guðbjörg Guðmundsdóttir, Hlíðaskóla
Lára Stefánsdóttir, Menntaskólanum á Tröllaskaga
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.