Miðvikudagur, 15. desember 2010
Úrslit Landskeppni eTwinning fyrir skólaárið 2009-10
10 verkefni tóku þátt í landskeppni eTwinning, áætlun ESB um rafrænt skólasamstarf, fyrir bestu verkefni síðasta árs í flokkum leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Úrslitin voru kynnt á afmælishátíð Menntaáætlunar Evrópusambandsins í Ráðhúsi Reykjavíkur, 25. Nóvember 2010.
Dómnefnd, skipuð Birni Sigurðssyni, Forsætisráðuneytinu, áður Menntagátt, Salvöru Gissurardóttur, Menntavísindasviði HÍ, og Óskari E. Óskarssyni, Alþjóðaskrifstofu háskólastigins, valdi úr þrjú verkefni, eitt á hverju skólastigi.
Verðlaunin voru fullkomin stafræn myndbandsupptökuvél frá Panasonic.
Verðlaun hlutu Flataskóli, sem vann verkefni með grunnskóla í London um læsi og lesskilning, Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu, fyrir samvinnu við menntaskóla í Póllandi með áherslu á að brjóta niður múra milli menningarheima, og Leikskólinn Furugrund, sem tók þátt í samstarfi 83 skóla í 20 löndum um Alheiminn.
Flataskóli. Lesum, skrifum og tölum saman (Lets read, write and talk together)
Hugmyndin að verkefninu kviknaði haustið 2009 þar sem mig langaði að vinna með bókmenntaverkefni hjá yngri nemendum og leggja áherslu á læsi og lesskilning. Ég fékk bókasafnsfræðinginn í skólanum hana Ingibjörgu í lið með mér og saman útbjuggum við ramma að samskiptaverkefni. Ég setti ósk um samvinnu út á vef eTwinning og fljótlega hafði Shayne Davids samband við mig en hann er kennari í ríkisskóla í úthverfi London. Nemendur okkar voru 10 og 11 ára gamlir. Nemendur lásu sömu bókina á sínu móðurmáli og unnu verkefni upp úr henni og hittust á veffundum og kynntu það sem þeir voru að vinna, sögðu frá sér og skólanum sínum bæði í máli og myndum. Okkar nemendur þurftu að þýða sína texta yfir á ensku og fengu hjálp við það en einnig notuðu þeir Netið til þess að þýða (Google translate).
Framhaldsskólinn í Austur Skaftafellssýslu. ICEPO ungt fólk vinnur að skilning milli þjóða (young people promoting understanding between the nations)
Megintilgangur verkefnisins var að brjóta niður múra milli menningarheima og draga úr fordómum milla landa. Lögð var áhersla á að þátttakendur myndu kynnast landi og þjóð eins og kostur er. Nemendur eignuðust pennavini sem þeir bjuggu hjá á meðan á heimsóknum stóð. Fyrir ferðirnar undirbjuggu nemendur margs konar kynningarefni. Þegar pólski hópurinn kom til Íslands var haldinn hátíð í FAS, kennsla var felld niður í heilan dag og pólskir nemendur skipulögðu dagskrána. Í Póllandi héldu íslenskir nemendur kynningar fyrir valda hópa í skólanum auk þess sem skólinn efndi til sérstakrar móttökuhátíðar þar sem skóla- og bæjaryfirvöldum var boðið. Ákveðið var að verkefnið skilaði sýnilegri afurð sem gæti nýst sem flestum. Útkoman er pólskt enskt íslenskt orðasafn sem bæði er á heimasíðu verkefnisins og var gefið út í nokkur hundruð eintökum. Frá upphafi var ákveðið að verkefnið yrði eTwinning verkefni. Það er frábær leið til að gera verkefnin sýnileg og aðgengileg. Þetta var frábært, vinatengslin sem sköpuðust eru varanleg.
Leikskólinn Furugrund. Alheimurinn (Sp@ce: eTwinning is out there!)
Verkefnið Space var samstarfsverkefni 83 skóla í 20 löndum og fjallar um eins og nafnið gefur til kynna Alheiminn. Nemendur og kennarar unnu að viðfangsefnum sem tengjast öll Alheimnum og skiptust á hugmyndum á heimasíðu verkefnisins. Hver og einn skóli var nokkuð frjáls að því hvernig hann útfærði verkefnið, en þó var ákveðið að hafa fimm megin þemu til þess að ganga út frá. Við ræddum við börnin um himingeiminn, sólkerfið og geimferðir. Við útbjuggum geimbúning og geimfar auk margskonar annarra verkefna. Í Furugrund var ákveðið að nýta verkefnið í sérkennslu. Er það í fyrsta sinn sem það er gert. Hópur drengja sem lítinn áhuga höfðu á skapandi starfi var boðin þátttaka í verkefninu. Drengir sýndu allir stórkostlegar framfarir á meðan og í lok verkefnissins. Gleðin og ánægjan við úrlausn verkefnanna var slík að hún var fljót að smitast út um skólann. Verkefnið var líka til þess að þátttaka foreldra varð mun meiri í þessu verkefni en í fyrri verkefnum sem við höfum tekið þátt í. Foreldrar voru áhugasamir og aðstoðuðu við efnisöflun, bækur, myndbönd, ábendingu á efni á vef og svo mætti lengi telja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.