eTwinning-vinnustofa í Tomar, Portúgal, 8.-10. Apríl 2010

Við stöllur Ágústa Unnur Gunnarsdóttir  kennari í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Ragnheiður V. Sigtryggsdóttir  kennari í Háteigsskóla vorum valdar úr hópi umsækjenda um að fara  á eTwinning – vinnustofu í Tomar í Portúgal.  Við höfum báðar umsjón með kennslu erlendra nema í skólum okkar og þar sem þema vinnustofunnar að þessu sinni var : “Facing Diversity in the classroom.”  - “Interculturalism, appreciation and inclusion” þ.e.  “Fjölmenning og sú áskorun sem í henni felst fyrir skóla” vorum við mjög áhugasamar.   

Þemað höfðaði sem sagt sterkt til okkar og sáum við fram á spennandi og lærdómsríka daga í Tomar sem raunin varð. Vinnustofan stóð yfir frá 8.-10.apríl í 25 stiga sól og hita í fallega miðaldarbænum Tomar sem er 130 km. norður af Lissabon. Um 100 þátttakendur  voru í vinnustofunum og komu  þeir víðsvegar að frá nánast allri Evrópu. Aðstæður í Tomar voru til fyrirmyndar og var vel tekið á móti hópnum. Dagskráin þétt skipuð en þó gáfust tækifæri bæði í matarhléum og á kvöldin að mynda tengsl og huga að hugsanlegum samstarfsverkefnum. Skipulagið allt var gott og umhverfið í Tomar spillti svo sannarlega ekki fyrir.

8. apríl

Eftir að skipuleggjendur höfðu boðið hópinn velkominn og kynnt dagskrána var farið yfir helstu leiðir til samskipta og samstarfs í gegnum eTwinning gáttina. Við fengum kynningu á eTwinning samstarfinu og hvaða möguleika það getur gefið okkur. Það sem er spennandi við eTwinning er að hér eru engar skýrslur sem þarf að fylla út, engar skriflegar umsóknir og engar lokaskýrslur. eTwinning verkefni geta verið mjög mismunandi, stór eða smá, til lengri eða skemmri tíma og allar námsgreinar koma til greina svo og samþætting námsgreina.Tilgangurinn með vinnustofum sem þessum er að efla samskipti milli nemenda í Evrópulöndum og myndi tengsl við aðra kennara og skólastjórnendur sem geta leitt af sér samvinnuverkefni í gegnum eTwinning.  Eftir kynningu á möguleikum eTwinning fengum við nasasjón af því sem koma skyldi, en tveir af aðalfyrirlesurum og leiðbeinendum vinnustofanna kynntu vinnustofur sínar.  Eftir fyrirlestrana var haldinn sameiginlegur kvöldverður þar sem okkur gafst tækifæri á að kynnast þátttakendum betur. 

9.apríl

Fyrir hádegi hlýddum við á fyrirlestur sem heitir Intercultural Dialogue; an introduction – það var  Joana Salgueiro frá Portúgal sem hélt fyrirlesturinn.  Hún lagði aðaláherslu á að ræða hugtökin „identity, culture, participatinon“.  Hún fjallaði um mikilvægi þess að við hættum að hugsa fólk í afmörkuðum hópum og byrjuðum að hugsa um okkur öll, um heildina. Eftir hádegi voru 4 vinnuhópar að störfum, við völdum okkur hópinn “Facing diversity in the classroom: students as partners".   Það var Isabela Paes frá Portúgal sem stjórnandi þessari vinnustofu. Hún lagði áherslu á fjölbreytta kennsluhætti og hvernig við getum unnið með fjölbreytileikann.   “We need to keep all students occupied all the time” Hún lagði áherslu á að nám og kennsla er ferli sem aldrei lýkur, allir hafa eitthvað mikilvægt til málanna að leggja og við erum aldrei búin að læra.  Leggið alltaf áherslu á að allir skipti máli, og að nemendurnir eru langmikilvægasta auðlindin í skólanum. Að loknum strembnum vinnudegi þar sem við unnum í hópum til kl. 18.00  voru við öll boðin í miðaldarkvöldverð í kastalanum í Tomer Knights templar Castle .  Þar voru leikarar og söngvarar sem sungu og dönsuðu fyrir þátttakendur og borinn fram portúgalskur matur.

10.apríl

Á þessum lokadegi vinnustofunnar unnum við í hópum þar sem við settum upp hugsanleg tengslaverkefni.Við áttum að:

  • Finna samstarfsaðila    
  • Finna viðfangsefni       
  • Ákveða markmiðin       
  • Ákveða á hverju við ætlum að byrja      
  • Gera grein fyrir væntanlegum niðurstöðum

Flestir fóru á flug og byggðu grunn að fjölbreyttum verkefnum. Sem dæmi um hugmyndir af verkefnum má nefna: leikhús án orða, heimildamyndir, söguhring og vinna með Google map. 

Við þökkum fyrir ánægjulega og lærdómsríka daga í Tomar,

Ágústa Unnur Gunnarsdóttir  og Rangheiður Valgerður Sigtryggsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband