Tengslaráðstefna í Lúxemborg október 2018 - Digital Game-Based Learning in the classroom

Ég fór á eTwinning tengslaráðstefnu í Lúxemborg 19. – 21. október.  Til að vera komin í tæka tíð ferðaðist ég til Lúxemborgar fimmtudaginn 18. október og valdi ég að fljúga til London og þaðan til Lúxemborgar. Ferðalagið gekk mjög vel og ég var komin á hótelið þar sem allir ráðstefnugestirnir gistu fyrir kvöldmat. Á ráðstefnunni voru um 60 manns.

Ég vaknaði snemma á föstudeginum og fór út að ganga. Ég gekk um borgina og skoðaði eins mikið og ég gat en að mínu mati er Lúxemborg mjög falleg borg og það var einstaklega gaman að fá tíma til að skoða borgina.

Ráðstefnan hófst klukkan 14 á föstudeginum með smá opnunarræðu og tveimur erindum um hvernig hægt er að nota stafræna leiki í kennslu en yfirskrift tengslaráðstefnunnar var „Digital Game-Based Learning in the classroom“. Að þessum erindum loknum var okkur skipt upp í hópa og við fórum á mismunandi stöðvar þar em okkur gafst tækifæri á að spjalla saman og skoða mismunandi stafræna leiki sem hægt er að nýta í kennslu. Deginum lauk með sameiginlegum kvöldverði á hótelinu.

Á laugardeginum þurftu allir að vera tilbúnir í anddyri hótelsins klukkan 8:30 og fóru flestir með rútu í salinn sem við vorum í þann daginn. Ég og þrjár aðrar ákváðum að fá okkur ferskt loft og ganga að ráðstefnusalnum. Dagurinn hófst svo á kynningu um stafræna sögugerð og eftir það fórum við í hópa út frá áhugasviði. Í áhugasviðhópunum spjölluðum við saman og úr varð að það mynduðust minni hópar sem hófu að vinna að sínu eTwinning verkefni. Ég er í 5 landa hópi og nýttum við þann tíma sem við höfðum á laugardaginn í að skipuleggja verkefnið okkar og gekk það vel. Þegar vinnustofunni lauk ákvað ég að ganga aftur á hótelið en mig langaði að fá tækifæri til að ganga ofan í gilið sem er í borginni, ég sá sannarlega ekki eftir þeirr gönguferð. Allur hópurinn hittist svo að nýju klukkan 17:30 í bænum og þar fórum við í stafrænan útileik (escape room) sem var mjög skemmtilegur. Hópnum var skipt í minni hópa og fékk svo hver hópur einn iPad og ýmsa fylgihluti sem nýta þurfti til að leysa þrautir og bjarga heiminum. Við enduðum svo á veitingastað þar sem allir hóparnir komu saman og borðuðum kvöldmat.

Á sunnudeginum vorum við einungis á hótelinu. Við fengum tíma til að klára verkefnið okkar og skrá það. Ég og hópurinn minn náðum að fullklára verkefnið og ég og samstarfsaðili frá Slóveníu skráðum verkefnið inn í gagnagrunn eTwinning. Þegar undirbúningstíma var lokið voru allir hóparnir með stutta kynningu á verkefnunum sínum. Það var gaman að sjá hve fjölbreytt verkefnin voru. Undir hádegi lauk ráðstefnunni með stuttri ræðu og fljótlega eftir það kvöddumst við öll og hver og einn hélt heim á leið.

Allt utanumhald og skipulag varðandi ráðstefnuna var til fyrirmyndar og það var einstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að fara á eTwinning ráðstefnu og algjör bónus að ráðstefnan var í landi sem ég hafði ekki heimsótt áður.

Ragna Gunnarsdóttir, umsjónarkennari í Flataskóla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband